19.02.1985
Sameinað þing: 50. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3033 í B-deild Alþingistíðinda. (2505)

257. mál, starfsemi banka og sparisjóða

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. mjög greinargóð og ítarleg svör við þeim fsp. sem ég hef hér lagt fram. Satt að segja kom sú upphæð sem hæstv. viðskrh. nefndi um skuldbindingar viðskiptabankanna erlendis mér mjög á óvart. Hér er um geysilega háa upphæð að ræða, tæpa 16 milljarða kr. Því vaknar sú spurning hvort þessar skuldbindingar séu allar gerðar með vitund og ábyrgð ríkisstj. Um það vil ég spyrja. Það er líka ljóst að hæstv. ríkisstj. hefur þótt full ástæða til að setja erlendum lántökum bankanna ákveðnar skorður. Í hinum svokölluðu efnahagsaðgerðum ríkisstj. kemur eftirfarandi fram, með leyfi forseta:

„Heimildir banka til ábyrgða og erlendrar lántöku. til að endurlána einstaklingum eða fyrirtækjum. taki m.a. mið af eiginfjárstöðu viðkomandi banka.“

Því hefði auðvitað verið fróðlegt að fá svar við því. um leið og við ræðum þessa fsp. um erlendar lántökur. hver sé eiginfjárstaða bankanna. Bæði vegna erlendrar lántöku og ekki síst með tilliti til þess sem hv. 3. þm. Reykn. Kjartan Jóhannsson kom inn á. tryggingar sparifjáreigenda fyrir sínum innstæðum þar sem hún ræðst mikið af því hver eiginfjárstaða bankanna er.

Það er ljóst að útþensla bankakerfisins hefur verið meiri en góðu hófi gegnir. Nauðsynlegt er að fram komi hve mikið t.d. af eiginfé bankanna er bundið í fasteignum. Sú spurning hlýtur að vakna hvort bankarnir hafi gengið á innlánsfé sparifjáreigenda til að fjármagna fasteignamyndun sína. En það er kannske annað mál og um það fáum við tækifæri til að fjalla síðar. En þegar það er ljóst að sparifjáreigendur verða að treysta á það sem ábyrgð fyrir sínum innstæðum að eiginfjárstaða bankanna sé nokkuð traust, þá er rétt að upplýsa það að í skýrslu um efnahag og rekstur bankanna fyrir árið 1982, sem útgefin er af Seðlabanka, kom það fram t.d. að eigið fé eins viðskiptabankans, að frádregnum fasteignum og áhöldum, var ekkert í árslok 1982 og að bankinn hafði fjárfest töluvert umfram eiginfjárstöðu. Var varanleg fjármunamyndun í þeim banka 33% umfram eigið fé. Sömu sögu er að segja um tvo aðra banka þetta ár, að eiginfjárstaða þeirra var í núlli í árslok. Það er því vissulega full ástæða til að setja þessu ákveðnar skorður og um það virðist mér vera nokkur vilyrði uppi af hálfu ríkisstj. í þessum svokölluðu efnahagsaðgerðum hennar, en þar kemur þetta ákvæði fram.

En ég ítreka spurningu mína til hæstv. ráðh.: Er það með vitund ríkisstj. að þessar skuldbindingar eru gerðar? Og þá spyr ég um ábyrgðina í leiðinni.