19.02.1985
Sameinað þing: 50. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3037 í B-deild Alþingistíðinda. (2510)

276. mál, veiði á smokkfiski

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Sem svar við fyrstu spurningunni vil ég greina frá því að á síðasta hausti voru veitt leyfi til þess að gera tilraunir til veiða á smokki, bæði í flottroll og í hringnót fyrir Vestfjörðum. Það varð lítill árangur af þessum tilraunum en þó fengust einhver tonn í hringnótina. Þessar tilraunir sættu miklum andmælum. Margir hringdu frá Vestfjörðum og mótmæltu því mjög harðlega að slíkt væri gert. Við leyfðum það hins vegar og fyrst í stað var ákveðið að aðeins einn togari fengi slíkt leyfi. Var talið rétt að láta á það reyna hvort hann næði einhverjum árangri áður en fleiri slíkar heimildir væru gefnar út. Eins og ég sagði varð af þessu lítill árangur. En þeir sem drógu smokkfiskinn á handfæri voru mjög andsnúnir því að heimila öðrum að koma þar nærri. Þess má geta að það voru greiddar 7% uppbætur á smokkfisk úr almennu deild Aflatryggingarsjóðs á s.l. hausti.

Sem svar við 1. b. liggur það fyrir að tæpar 1500 lestir voru veiddar og frystar.

Sem svar við c. er þess að geta að flutt hefur verið út óverulegt magn frosið í tilraunaskyni. Það eru gerðar tilraunir með niðursuðu hjá ORA í Kópavogi. Markaðir eru einhverjir fyrir hendi en vandinn liggur fyrst og fremst í því að göngur smokkfisksins eru mjög óvissar og það er að sjálfsögðu mjög erfitt að byggja upp markaði fyrir afurð ef framleiðslan getur síðan dottið niður um mjög langt skeið. Hann kom sem sagt í fyrra smokkfiskurinn en þar áður munu hafa liðið 14 ár frá því að hann veiddist hér. Við finnum fyrir því t.d. að því er varðar loðnuna. Það að við hættum að veiða loðnu í nokkurn tíma varð til þess að við eigum í erfiðleikum að vinna þá markaði upp aftur. Einhverjir markaðir eru fyrir hendi en vandinn er fyrst og fremst þessi.

Svar við annarri spurningu, a-lið: Á árinu 1983 voru fluttar inn 2 050 lestir og verðmæti er gefið upp 38.2 millj. kr.

Ég treysti mér nú ekki til að svara b-lið þessarar spurningar nákvæmlega. En ef ekki verður veiddur smokkur næsta haust má áætla að flytja þurfi inn 1500–2000 tonn. Eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda eru menn nú fremur bjartsýnir um það að smokkfiskur muni ganga á miðin aftur vegna þess hvað mikil hlýindi eru í sjónum. Vonandi kemur því ekki til þess að svona mikið þurfi að flytja inn. Ég hef ekki nákvæmar upplýsingar um það sem muni þurfi að flytja inn núna alveg á næstunni, sem hv. fyrirspyrjandi gat hér um. Skv. mínum upplýsingum er gefið upp verðið 25 kr. pr. kg. Það eru þær upplýsingar sem aflað var fyrir mig í mínu rn. Ég hef ekki neinar upplýsingar um það verð sem hv. fyrirspyrjandi nefndi, 40 kr. á kg.

Það má að sjálfsögðu alltaf um það deila hve mikil afskipti rn. skal hafa af slíkum málum sem þessum. Það er að sjálfsögðu fyrst og fremst verkefni þeirra sem þurfa að afla sér beitu að gera viðeigandi ráðstafanir. Það kom okkur mjög á óvart hvað menn voru viðkvæmir fyrir því á s.l. hausti að reyna aðrar aðferðir en tíðkast höfðu til að veiða smokkfisk, m.a. með trolli. Ég tel sjálfsagt að halda því áfram því að hér er um mikil verðmæti að tefla og mjög slæmt að menn skuli standa frammi fyrir því sumir hverjir að fá ekki þennan verðmæta fisk til beitu á sama tíma og — ja ég vil nú leyfa mér að segja sömu aðilar vildu með öllu móti koma í veg fyrir það að nýjungar yrðu reyndar í sambandi við þessar veiðar. En sem betur fer tókum við nú ekki tillit til þess og vonandi tekst betur til næst.