19.02.1985
Sameinað þing: 50. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3040 í B-deild Alþingistíðinda. (2515)

296. mál, innheimta erfðafjárskatts

Fyrirspyrjandi (Helgi Seljan):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. svörin. Það er alveg rétt að erfðafjársjóður heyrir undir félmrh., en innheimta erfðafjárskattsins, sem ég spyr þarna beint um, og hver skil hafi orðið á þeirri innheimtu heyrir undir fjmrn. Varðandi það er rétt að taka fram að þar er hæstv. ráðh. réttur aðili til svara.

Það kemur í ljós að skv. bráðabirgðauppgjöri er hérna um 46 millj. að ræða. Það sýnir að 6 millj. í það minnsta hafa innheimst umfram það sem fjárlög gerðu ráð fyrir. Ég vil aðeins segja um það að í fjármálaráðherratíð hv. þm. Ragnars Arnalds var ævinlega bætt við ákveðinni upphæð ef innheimta fór fram úr áætlaðri fjárlagaupphæð. Þetta gat skipt nokkrum milljónum þá og var mjög mikils virði fyrir þá starfsemi sem var þá á vegum endurhæfingarráðs en voru svipuð verkefni og Framkvæmdasjóður fatlaðra sér um núna. Mér hefur ævinlega þótt sanngjarnt að bæta þannig við ef meira hefur innheimst þó ég taki fram að vitanlega eigi öll upphæðin að fara beint í Framkvæmdasjóð, svo sem fjárlög nú segja til um, því að nú er innheimtur erfðafjárskattur 25 millj. eins og hæstv. ráðh. kom inn á og í gegnum erfðafjársjóð fara 25 millj. einnig. Eins og ég tók fram áðan er hæstv. ráðh. búinn að gera vel, eins og ég þakkaði honum fyrir áðan, varðandi Framkvæmdasjóð fatlaðra. En ég bið hann samt að huga hér að, ef unnt væri að greiða enn betur fyrir þeim brýnu verkefnum sem bíða, því að ef skerðingin væri sú sama af þeim viðbótarmilljónum sem þarna hafa innheimst í ríkissjóð, þessum 6 millj., þá mundi það þýða 3 millj. til viðbótar til Framkvæmdasjóðs fatlaðra.