19.02.1985
Sameinað þing: 51. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3054 í B-deild Alþingistíðinda. (2536)

266. mál, kennslukostnaður

Fyrirspurnin hljóðar svo:

Hver er heildarkostnaður (þar með talinn stjórnkerfiskostnaður) ríkissjóðs árin 1983, 1984 og 1985 (skv. fjárlögum):

1. Af hverjum bóknámsnemanda í fullu námi

a. á grunnskólastigi,

b. á öðrum skólastigum?

2. Af hverjum verknámsnemanda í fullu námi?

Svar:

1. a. Kostnaður vegna nemenda á grunnskólastigi er til jafnaðar sem hér segir:

kr.

Samkvæmt ríkisreikningi 1983 . . . . . . . 20 320

Samkvæmt bráðabirgðareikningi 1984 . 23 400

Samkvæmt fjárlögum 1985 . . . . . . . . . . 30 810

Tölur þessar taka til alls launa- og rekstrarkostnaðar ríkissjóðs, svo sem vegna kennslu, stjórnunar, námsbóka o.s.frv. Stofnkostnaður vegna skólahúsnæðis er þó ekki meðtalinn.

Fjöldi nemenda í grunnskólum, þar með taldir forskólanemendur, eru á þessu árabili milli 40 600–40 700. Kostnaður þessi ár var sem hér segir: Árið 1983 tæpar 827 millj. kr. samkvæmt ríkisreikningi. Samkvæmt bráðabirgðatölum fyrir árið 1984 950 milljónir kr. og samkvæmt fjárlögum 1985 1253 milljónir kr.

Rétt er að benda á að hér er um meðaltalskostnað að ræða. Kostnaður er misjafn eftir landshlutum, skólum, aldri nemenda o.s.frv.

b. Kostnaður ríkissjóðs vegna nemenda í fjölbrauta- og menntaskólum er sem hér segir, til jafnaðar á nemanda:

kr.

Samkvæmt ríkisreikningi 1983 . . . . . . . 31 660

Samkvæmt bráðabirgðareikningi 1984 . 38 240

Samkvæmt fjárlögum 1985 . . . . . . . . . . 45 630

Nemendur í mennta- og fjölbrautaskólum eru á þessu árabili frá 8400–8600 sem er um 75% allra nemenda á framhaldsskólastigi. Meginþorri þeirra, eða tæp 90%, er skilgreindur sem bóknámsnemendur.

Kostnaður ríkissjóðs við mennta- og fjölbrautaskólanemendur var alls um:

267 millj. kr. árið 1983,

323 millj. kr. árið 1984 samkvæmt bráðabirgðareikningi og

386 millj. kr. samkvæmt fjárlögum 1985.

Kostnaður ríkissjóðs er, með sama hætti og í grunnskólum, misjafn á framhaldsskólastigi. Kemur þar til stærð skóla, staðsetning, umfang og tegund náms, svo og mismikil hlutdeild ríkissjóðs í rekstri skóla.

2. Kostnaður ríkissjóðs vegna verknámsnemenda er til jafnaðar sem hér segir:

kr.

Samkvæmt ríkisreikningi 1983 . . . . . . . . 38 840

Samkvæmt bráðabirgðareikningi 1984 . . 44 340

Samkvæmt fjárlögum 1985 . . . . . . . . . . . 52 950

Tölur þessar taka til alls kostnaðar ríkissjóðs í nokkrum verkmenntaskólum. Í skólum þessum stunda um 1500–1600 nemendur nám og er það um helmingur allra verknámsnemenda.