23.10.1984
Sameinað þing: 9. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 417 í B-deild Alþingistíðinda. (254)

Umræður utan dagskrár

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég er sammála hv. 3. þm. Reykn. um að það væri til þess að greiða fyrir þeirri kjaradeilu sem nú stendur yfir ef ríkisstj. kæmi með skýr svör við þeim spurningum sem hv. þm. Kjartan Jóhannsson bar fram áðan.

Það kom hins vegar ekkert af því fram í ræðu hæstv. forsrh. hér áðan. Hann endurtók aðeins það sem hann hefur oft sagt áður um þessi efni. Engar nýjar upplýsingar eða skýringar komu fram. Þess vegna er það enn svo að ríkisstj. er að tefja úrlausn kjaradeilnanna með óljósum yfirlýsingum til viðbótar við þær hótanir sem birst hafa frá einstökum talsmönnum stjórnarflokkanna og til viðbótar við það klúður sem einstakir ráðh. bera ábyrgð á og þá stirfni sem fram hefur komið í afstöðu hæstv. fjmrh. til opinberra starfsmanna undanfarna daga.

Í svari hæstv. forsrh. kom að mínu mati ekkert nýtt fram, en í tilefni af svari hans og stöðu kjaradeilunnar í dag er óhjákvæmilegt að spurt verði viðbótarspurninga sem ég legg nú fyrir hæstv. forsrh. Það er bersýnilegt að launafólk í landinu treystir ekki þessari ríkisstj. Staðan er þannig að ef það á að nást lausn í kjaradeilunni verður ríkisstj. að gefa yfirlýsingar um afstöðu sína til ýmissa mála.

Í fyrsta lagi: Er ríkisstj. reiðubúin til þess að beita sér fyrir því að samið verði um kaupmáttartryggingu í þeim samningum sem nú standa yfir m.a. við opinbera starfsmenn? Þetta er atriði númer eitt. Er ríkisstj. tilbúin til þess að beita sér fyrir því að samið verði um kaupmáttartryggingu sem þegar hefur reyndar verið vísað til með samningunum á Ísafirði og víðar?

Í öðru lagi: Er það ætlun ríkisstj. að stöðva kjaradeilurnar með lagasetningu, eins og hæstv. forsrh. hefur í hótunum um að gert verði í frétt í Dagblaðinu í dag? Er það ætlun ríkisstj. í þessari stöðu að stöðva kjaradeilurnar með lagasetningu og telja hæstv. forsrh. og hv. 1. þm. Suðurl. að það sé til að greiða fyrir samningum að hæstv. forsrh. landsins hafi uppi hótanir um lagasetningu á því stigi sem deilan er á núna?

Í þriðja lagi: Hæstv. forsrh. hefur lýst því yfir að ríkisstj. telji það nóg fyrir launafólk í landinu að hafa út allt næsta ár þann kaupmátt sem var á 4. ársfjórðungi 1983 og það megi ekkert fara yfir hann. Hæstv. forsrh. kallaði það hina glæstu mynd hér á dögunum. Ég spyr hæstv. forsrh.: Er það ætlun ríkisstj. að taka það aftur með lögum sem kann að semjast um umfram kaupmátt 4. ársfjórðungs 1983? Ég tel að yfirlýsingar ráðh. og einstakra talsmanna ríkisstj. til þessa, þar á meðal hótanir formanns Sjálfstfl. 14. sept. s.l., bendi til þess að ríkisstj. ætli sér að taka það aftur af launafólki sem kann að verða samið um umfram kaupmáttinn á 4. ársfjórðungi 1983. Það er eins gott að hér liggi alveg skýrt fyrir hvort það er í bígerð af hálfu ríkisstj. eða hvort hún er tilbúin til að beita sér fyrir því að gerðir verði samningar um kaupmáttartryggingu á árinu 1985.

Þessi atriði verða að vera alveg skýr, herra forseti, varðandi þá kjaradeilu sem nú stendur yfir. Ég tel að snúningspunktur deilunnar núna liggi í spurningunni um kaupmáttartrygginguna og ef ríkisstj. er ekki tilbúin til að taka af skarið með þennan þátt er ljóst að deilan getur tekið mikið lengri tíma en ella.

Herra forseti. Þegar núv. ríkisstj. var mynduð svipti hún launafólk kaupi og samningsrétti með brbl. Allur ferill hennar ber vott um skilningsleysi á lífskjörum launafólks og beinan fjandskap við verkalýðshreyfinguna. Þegar ljóst var s.l. sumar að kjarasamningar yrðu lausir í haust og að hugsanlega kæmi til vinnudeilna hélt ríkisstj. að sér höndum. Hún sá þá enga ástæðu til að bregðast við að öðru leyti en því að hún lét stórhækka vexti sem íþyngja enn afkomu heimilanna og draga úr möguleikum atvinnuveganna til þess að koma til móts við kröfur verkafólks og launamanna. Þegar vinnudeilan svo hófst mættu ráðh. kröfum verkalýðshreyfingarinnar með eindæma stirfni, málsóknum og hótunum, að ekki sé minnst á yfirlýsingar formanns Sjálfstfl. um gengisfellingu, verðbólgu og atvinnuleysi strax í kjölfar kjarasamninga sem gerðir yrðu á grundvelli sáttatillögu ríkissáttasemjara um 10% kauphækkun í tveimur áföngum.

Síðan hófst verkfall opinberra starfsmanna og fjmrh. talaði ekki við þá vikum saman þrátt fyrir verkfall. Þá reyndi forsrh. aðra leið fram hjá sínum fjmrh. Forsrh. gerði samkomulag við borgarstjórann í Reykjavík og formann Sjálfstfl. um að samið yrði á vegum borgarinnar. Þar með hafði ríkisstj. tekið ábyrgð á þeim kjarasamningi. Sá kjarasamningur leysti hins vegar engan vanda, heldur gerði illt verra. Það sá ríkisstj. reyndar nokkrum klukkutímum eftir að samningurinn lá fyrir. Þess vegna sendi hæstv. forsrh. yfirlýsingu í útvarpið um að ríkisstj. væri ekki aðili að þessum kjarasamningi og forsrh. sór samninginn af sér. Það var hins vegar fráleitt því að í raun hafði hann gert samninginn til þess að komast fram hjá fjmrh. sínum. Forsrh. lét ekki hér við sitja, heldur bætti hann því við í yfirlýsingu hér á Alþingi að það væri ekki hægt að standa við þennan kjarasamning sem hann hafði sjálfur borið ábyrgð á í samráði við Davíð Oddsson. Þannig stuðlaði forsrh. að því að samningurinn yrði felldur. Það var þakkargjörð forsrh. fyrir vinargreiða borgarstjórans sem var síðan flengdur í atkvæðagreiðslu borgarstarfsmanna.

Enn var komin sjálfhelda í samningana, en þá áttuðu bókagerðarmenn sig á nýrri stöðu, þeirri að einn stærsti og áhrifamesti samningsaðili þeirra, Morgunblaðið, var að gefa sig. Þar með skapaðist grundvöllur fyrir samninga bókagerðarmanna sem voru gerðir í gær.

Það liggur fyrir, eftir einhverja hörðustu kjaradeilu sem átt hefur sér stað á Íslandi, að í fyrsta lagi voru það aðilar að ríkisstj. sem beittu sér fyrir því að samningur borgarstarfsmanna var gerður og vísuðu þannig aðra leið í kjaradeilunni en þessir menn í orði kveðnu segja að þeir hefðu viljað fylgja. Í öðru lagi er ljóst að Morgunblaðið, málgagn Sjálfstæðisflokksins, var verulegur áhrifaaðili um það að samningar bókagerðarmanna voru gerðir og bókagerðarmönnum tókst að brjótast í gegn í deilunni. Niðurstaðan af þessu er sú að ríkisstj. ræður ekki neitt við neitt. Hún getur ekki stjórnað landinu og hún hefur nú bætt gráu ofan á svarta stefnu sína með eindæma klúðri á öllum sviðum og algeru ráðleysi.

Í utandagskrárumr. fyrir nokkrum dögum kom fram að forsrh. og ríkisstj. velta því nú alvarlega fyrir sér hvernig eigi að svipta launafólk árangri kjarasamninganna. Þess vegna eru þær spurningar bornar fram sem ég bar hér fram áðan. Það verða að fást skýrar yfirlýsingar um kaupmáttartryggingar af hendi ríkisstj. áður en unnt er að finna flöt á lausn þessara deilna.

Jafnframt er nú að mínu mati, herra forseti, lífsnauðsyn að skapa samstöðu um nýja stjórnarstefnu, róttæka umbótastefnu sem tryggi árangur kjarasamninga án verðbólgu, stjórnarstefnu sem treystir framleiðsluna og er jafnframt reiðubúin til þess að taka miskunnarlaust á meinsemdum hagkerfisins með tilfærslum frá þeim sem rakað hafa saman gróða á undanförnum misserum. Verulegur hluti atvinnurekenda, t.d. í verslun og þjónustu, getur greitt og greiðir þegar mun hærra kaup en kjarasamningar segja til um og með því að létta vaxtaokri og þjónustugjöldum af sjávarútveginum er unnt að skapa þar svigrúm fyrir kauphækkanir. Það er því rangt að ekki sé unnt að hækka kaupið. Þjóðin þolir ekki hið lága kaup. Og alls staðar sjást þess merki að nóg er til. Verðmætunum er aðeins misskipt og misskiptingin fer vaxandi í tíð þessarar ríkisstj. Ríkisstjórn Framsfl. og Sjálfstfl. 1974–1978 mistókst öll efnahagsstjórn vegna þess að hún beitti öllu afli sínu gegn verkalýðshreyfingunni og vegna þess að hún snerti ekki á neinum vanda. Hún lækkaði aðeins kaupið. Núverandi ríkisstj. hefur þegar sýnt að hún er ófær á sama hátt. Reynslan frá 1977 og 1978 og aftur 1983 og 1984 sýnir svo ekki verður um villst að stjórnarsamstarf Sjálfstfl. og Framsfl. getur ekki skapað grundvöll til úrlausnar á þeim brýnu vandamálum sem þjóðin stendur frammi fyrir. Það er kjarni málsins. Það er meginniðurstaða þeirra átaka sem standa yfir í okkar þjóðfélagi í dag.

Að lokum þetta: Hæstv. fjmrh. hefur verið iðinn við að skrifa bréf að undanförnu. Hann skrifar bréf svo að segja á hverjum degi og ekki verður nú sagt að þau séu full af skilningi á hinni flóknu og viðkvæmu stöðu sem nú er uppi. Síðasta bréfið, þar sem hann hótar forystumönnum BSRB átta ára tukthúsi, er mjög vafasamt að skili jákvæðri niðurstöðu í þeirri kjaradeilu sem nú stendur yfir. Það er sérkennilegt innlegg fjmrh. verð ég að segja.

Fyrir nokkrum dögum rakti ég hér utan dagskrár bréf frá Höskuldi Jónssyni, dagsett 8. okt., og kom þá fram að ríkisstj. bar ábyrgð á því bréfi. Í bréfi dags. 22. okt. til Bandalags starfsmanna ríkis og bæja segja þeir Albert Guðmundsson og Höskuldur Jónsson á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:

„Þann 3. okt. s.l. kvað Kjaradeilunefnd upp svofelldan úrskurð, sbr. ákvæði 26. gr. laga nr. 29/1976: „Samþykkt að lágmarksstarfsliði, tveir menn á vakt, úr vöruskoðunardeild og skipa- og flugvéladeild Tollgæslunnar í Reykjavík, sé skylt að starfa við eftirfarandi þrátt fyrir verkfall:

a) Skoðun farangurs farþega og áhafna skv. verklagsreglum stofnunarinnar hjá þeim sem ætla má að flytji til landsins eiturlyf eða vopn í farangri sínum.

b) Afgreiðslu neyðarsendinga, svo sem lyfja og lækningatækja.

Ekki er ætlast til að starfsmenn þessir vinni að tollafgreiðslu á birgðum og farmi“. — Þetta er alveg skýrt.

Síðan segir í bréfi fjmrn.: „Tollstjórinn í Reykjavík hefur tjáð ráðuneytinu að tollverðir hafi þann 17. okt. s.l. farið til skyldustarfa sinna í m/s Álafossi, þar sem skipið lá í Sundahöfn, en verið meinað af svonefndum verkfallsvörðum BSRB að komast um borð“.

Það er ekki hægt að nefna verkfallsverði BSRB í hæstv. fjmrn. öðruvísi en að því fylgi alveg sérstök einkunn í leiðinni. — Og áfram heldur bréfið:

„Þann 18. okt. s.l. reyndu tollverðir að komast um borð í m/s Selá þar sem skipið lá við Austurbakkann í Reykjavíkurhöfn, en sem fyrr meinuðu verkfallsverðir tollvörðum að sinna störfum sínum“.

Og síðan kemur: „Með vísan til ákvæða 106. og 107. gr. almennra hegningarlaga telur ráðuneytið eðlilegt að mál það sem hér um ræðir sæti opinberri rannsókn. Áður en ákvörðun um slíka aðgerð er tekin vill ráðuneytið hvetja Bandalag starfsmanna ríkis og bæja til að létta af þeim hindrunum sem settar hafa verið í veg tollvarða“. Undir þetta rita Albert Guðmundsson og Höskuldur Jónsson.

Í beinu framhaldi af þessu bréfi hefur stjórn BSRB sent öllum alþm. svofellt bréf, með leyfi hæstv. forseta: „Eftirfarandi tillaga var.samþykkt með öllum atkv. á fundi stjórnar BSRB í dag:

„Stjórn Bandalags starfsmanna ríkis og bæja mótmælir harðlega þeirri einræðislegu framkvæmd fjmrh., sem er sjálfur annar aðilinn í kjaradeilu BSRB, sem fram kemur í þremur bréfum fjmrh., dags. 25. 9., 8. 10. og 22. 10. 1984, sem hér með fylgja í ljósriti.

Bandalagsstjórnin vekur athygli á því, að með bréfum þessum er stefnt að því að afnema þau mannréttindi og það lýðfrelsi sem íslenskt þjóðfélag byggir á.

Í bréfunum felst:

1. Fyrirskipun til forstöðumanna ríkisstofnana að ganga í verk undirmanna, sem eru í verkfalli, og þar með fremja verkfallsbrot.“ Þetta bréf hef ég þegar gert áður að umtalsefni í utandagskrárumr. Það stríðir gegn vinnulöggjöfinni með afgerandi hætti.

„2. Ögrun við félagsmenn um skrásetningu á gjörðum þeirra og framkomu að viðlögðum brottrekstri síðar.“ Þetta er bréfið um persónunjósnirnar sem var rætt hér í síðustu viku;

„3. Hótun um beitingu hegningarlaga samkv. lagagr. er varðað geta margra ára fangelsi.“ Þetta er það bréf sem hér er núna verið að ræða um.

„Því er beint til alþm. hvort þeir telji að í löggjöf, sem Alþingi hefur samþykkt, felist þessi stefna og hvort það sé vilji Alþingis að réttarríkið sé afnumið með þessum hætti af framkvæmdavaldinu.“

Undir þetta rita Kristján Thorlacius, formaður BSRB, Albert Kristinsson, 1. varaformaður BSRB, og Haraldur Steinþórsson, 2. varaformaður BSRB.

Ég spyr hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh.: Telja þessir ráðherrar að þessi vinnubrögð séu í samræmi við þær almennu reglur sem tíðkast hafa í samskiptum milli aðila vinnumarkaðarins? Telja þeir að þetta greiði fyrir lausn á þeirri erfiðu kjaradeilu sem nú stendur yfir? Hér segir BSRB að með þessum bréfum sé stefnt að því að afnema þau mannréttindi og það lýðfrelsi sem íslenskt þjóðfélag byggi á. Ég fullyrði fyrir mitt leyti að þessi bréf stefna gegn þeim megingrundvallarhugsjónum sem reynt hefur verið að leiða í lög á mörgum undanförnum áratugum hér í þessum sal. Og ég spyr: Hefur hæstv. forsrh. samþykkt þessi bréf? Hefur ríkisstj. samþykkt þetta bréf frá 22. okt. 1984 eins og bréfið um persónunjósnirnar frá 8. okt. 1984? Ég geri kröfu til þess að forsrh. greini skilmerkilega frá því hvort hann tekur undir þessa atlögu að réttarríkinu og okkar samskiptaháttum í þessu þjóðfélagi sem bréfið felur í sér.

Herra forseti. Ég hef lagt hér fyrir hæstv. forsrh. nokkrar spurningar og til að rifja þær upp, þá voru þær þessar:

1. Er ríkisstj. reiðubúin til þess að beita sér fyrir því að samið verði um einhvers konar kaupmáttartryggingu?

2. Ætlar ríkisstj. að stöðva kjaradeilurnar með lögum skv. þeirri hótun sem birtist eftir forsrh. í Dagblaðinu í dag?

3. Ætlar ríkisstj. að taka það aftur með lögum sem kann að verða samið um umfram kaupmátt 4. ársfjórðungs 1983?

4. Ber ríkisstj. öll ábyrgð á síðustu bréfaskriftum hæstv. fjmrh.?