20.02.1985
Efri deild: 45. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3055 í B-deild Alþingistíðinda. (2543)

281. mál, hagnýting Seðlabankahúss

Flm. (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Hæstv. forseti. Till. þessi til þál. er nú endurflutt. Hún var flutt á síðasta þingi en varð þá ekki útrædd. Raunar var hún þá flutt í Sþ. en nú hér í þessari hv. deild. Tillögugreinin skýrir sig sjálf:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta gera athugun á því hvernig æskilegast sé að nýta svonefnt Seðlabankahús. Sérstaklega verði athugað hvort það gæti hentað fyrir Stjórnarráð Íslands.

Framkvæmdir við bygginguna verði stöðvaðar meðan athugun þessi fer fram og hefjist ekki að nýju fyrr en Alþingi hefur ákveðið hvernig hagnýta beri húsið.“

Það er alkunna að bankakerfið hefur þanist út á undangengnum árum sérstaklega — og reyndar nokkuð á annan áratug hefur verið mikil aukning í byggingum á vegum bankanna samhliða því sem sparifé þjóðarinnar hefur verið að ganga til þurrðar. Ég hygg að sparifé hafi verið eitthvað um sem svaraði 40% þjóðarframleiðslu fyrir rúmum áratug. Það mun nú verið komið niður fyrir 20% þjóðarframleiðslunnar og allt að helmingur af því fjármagni er frystur, lokaður inni að hluta til ráðstöfunar eftir öðrum leiðum en nákvæmlega þeim sem æskilegast getur talist. Peningarnir hafa þess vegna nýst harla illa.

Það er enginn vafi á því að sú stefna, sem hér hefur verið fylgt í peningamálum, svokölluð peningamagnskenning hefur riðið hér húsum, monetarismi heitir það víst á erlendu máli, hefur stórskaðað þessa þjóð eins og raunar vestrænar þjóðir margar hverjar, sem reyndu að bregðast við svokallaðri olíukreppu með því að draga úr peningamagni í umferð, eins og það heitir á tæknimáli, frysta peningana, gefa ekki út ávísanir á þjóðarauð, sjá þjóðunum ekki fyrir starfsfé, til þess að stemma með þeim hætti stigu við verðbólgu. Það átti að vera hið algilda meðal við verðbólguþróun.

Reynslan varð raunar alls staðar þveröfug. Það var hægt að koma á kreppu, það var hægt að auka atvinnuleysi, draga úr framleiðslunni, en það var ekkert hægt að stöðva verðbólguna með þessum hætti. Við getum t.d. litið til Svisslands. Hefur ekki alltaf verið gífurleg verðbólga þar, þar sem bankastjórarnir standa á tröppunum og biðja fólk að taka lán, m.a.s. á lágum vöxtum? Varð verðbólga í Bandaríkjunum þegar fjármagn þjóða heims byrjaði að streyma þangað fyrir fjórum, fimm árum? Nei, hún hjaðnaði. Hefur verðbólga minnkað á Íslandi við það að peningarnir eru frystir? Nei, hún hefur farið vaxandi. Er kannske engin verðbólga í Suður-Ameríkuríkjum þar sem engir peningar eru til en gnótt af örbirgð og atvinnuleysi? Þar er verðbólgan mest.

Þessi kenning er með þeim hætti að frá henni verður að hverfa. Hvort sem þessi ríkisstj. ber gæfu til þess eða ekki þá hlýtur sú næsta að gera það. Og auðvitað vona ég að það verði þessi ríkisstj. Þessi stefna gengur ekki upp. Þetta er stefna sem allir íslenskir stjórnmálaflokkar hafa borið ábyrgð á nokkuð á annan áratug með þessum afleiðingum sem ég var að lýsa, að spariféð er uppurið og verðbólgan hefur ætt áfram.

Þessi till. er auðvitað angi af því að berjast gegn þessari þróun. Seðlabankinn hefur ekki neitt við þetta húsnæði að gera, nema mjög lítið af því, og sjálfsagt að sú virðulega stofnun hafi þar eitthvert aðsetur. En stjórnarráðið getur sem best hagnýtt þetta hús. Það færi mjög vel á því að t.d. ráðuneytin öll hefðu þar aðsetur nema forsrn. sem væri í hinu gamla virðulega húsi við næstu götu, þannig að æðstu starfsmenn ráðuneytanna a.m.k. gætu hist, verið undir sama þaki en ekki dreifðir út um allan bæ, og haft greiðan aðgang innan dyra. Þetta liggur svo beint við að það þarf varla að hafa um það mörg orð.

Það liggur reyndar fyrir þessari hv. deild frv. um það að færa starfsemi Seðlabankans að þessu leyti til þess horfs sem upphaflega var, þegar lög um hann voru sett í byrjun sjöunda áratugarins, þ.e. að Seðlabankinn hafi ekki heimildir til að frysta peninga nema í mjög litlum mæli. Raunar ætti enginn að hafa slíka heimild. Þessi kenning sem ég var að tala um, um skömmtun fjármagns, hefur gengið sér til húðar og alls staðar verið frá henni horfið enda hefur orðið fjörkippur í efnahagslífi vestrænna þjóða nú á síðustu árum. En því miður ekki hér.

Í þessu sambandi má kannske aðeins víkja að einni kenningunni í viðbót, sem er sú að erlendar skuldir eigi að fylgja þjóðarframleiðslu — megi ekki vera hærri en einhver ákveðin prósenta af henni. Nú er alltaf talað um 60% eða eitthvað slíkt af þjóðarframleiðslu. Þessi kenning er álíka vitlaus og allar hinar sem hagfræðingarnir hafa verið að boða okkur. Hvernig í ósköpunum ætti það í sveiflukenndu þjóðfélagi eins og á Íslandi að vera kappsmál að borga upp erlendu skuldirnar þegar þjóðarframleiðslan er minnst en auka þær upp úr öllu valdi þegar þjóðarframleiðslan er mikil, sem prósentu af þjóðarframleiðslu viðkomandi árs, og taka þá erlend lán í stórum stíl eins og gert var á árunum 1980, 1981, 1982? Þá var ausið inn erlendu fjármagni þegar þjóðarframleiðslan er meiri en nokkru sinni áður, metaflaár. Þá er allt í lagi að taka erlend lán og dengja þeim peningum út í þjóðlífið, leyfa Bandaríkjamönnum og Aröbum að fjármagna hér alla skapaða hluti, m.a.s. neyslu á raunvöxtum sem eru upp undir 20% eða eitthvað slíkt, á sama tíma sem vextir voru neikvæðir á íslensku sparifé. Þessar kenningar eru allar með þeim hætti að það á að draga úr þessu opinbera valdi og þessari ofstjórn á öllum sviðum. Þess vegna eigum við að hafa lítinn, virðulegan Seðlabanka og síðan auðvitað öfluga einkabanka og hugsa um okkar eigið fjármagn.

En það er líka dálítið athyglisvert að nú, þegar vextir eru hér óneitanlega mjög háir, svo að veldur atvinnuvegunum erfiðleikum, þá er hert á skömmtun peninga. Eins og það er nú gáfulegt að fara í tvær gagnstæðar áttir, annars vegar að láta vextina vera nokkuð frjálsa en hins vegar að frysta peningana. Sú kenning stenst ekki. Það verður að vera verulegt magn af peningum í umferð ef vextir eiga að vera frjálsir, til þess að þeir æði ekki upp úr öllu valdi og fari m.a.s. út úr bankakerfinu og allir inn á verðbréfaviðskipti, kannske á 15–20% raunvöxtum. Þetta er ein endaleysan í viðbót. Það má kannske segja að ef þjóðfélagið hefði efni á því að borga niður vexti, reka bæði eyðslu og fjárfestingar á neikvæðum vöxtum, þá væri það ósköp huggulegt, ef við ættum einhvern gullsjóð einhvers staðar sem við gætum bara grafið í. En að láta vextina vera lausa og taka svo alla peningana úr umferð, það er auðvitað hrein endaleysa. Peningar eiga ekki að vera annað en ávísanir á verðmæti og einhverjar stofnanir verða að vera til og hjálpa mönnum að gefa út ávísanir á sínar eignir.

Við skulum segja að mig langaði að leggja einhverja verulega upphæð, 1/2–1 milljón, í fiskirækt. Ég á að geta fengið þá milljón einhvers staðar ef ég veðset húsið mitt, tek áhættuna af því, set fullar tryggingar. Peningar eiga ekki að vera neitt annað en ávísanir á verðmæti. Það eina sem ekki má skammta, ef við ætlum að búa í lýðfrjálsu þjóðfélagi, er einmitt peningar. Það er út af fyrir sig allt í lagi að skammta sykur og kaffi. Við fengjum öll sama skammtinn og við gætum vel lifað af honum og kannske án hans. En þegar peningarnir eru skammtaðir þá er það ekki sá sem minna má sín sem fær þá peninga, ég tala nú ekki um þegar maður fær kannske styrk, 10, 20 eða 30% að auki, hreina gjöf.

Ég veit ósköp vel hvernig það er að berjast fyrir því að hjálpa fólki, sem bráðvantar 20, 30 eða 40 þús. kr., að ná þessari upphæð út úr banka. Það er sko ekki heiglum hent að ná því út. En svo velta milljónir, milljónatugir, milljarðar út með öðrum hætti. Ranglætið er auðvitað mest þegar peningarnir eru skammtaðir með þessum hætti. Það samræmist ekki í bókstaflegri merkingu lýðræðislegum hugsjónum.

Ef þjóðfélagið vill styrkja þá sem minna mega sín þá gerist það með öðrum hætti. Það gerir það með ýmiss konar félagslegum umbótum og það gerir það að vissu marki með styrkjum til þeirra sem ekki geta séð sér farborða. Það getur gert það t.d. með því að lána þeim, sem eru að byggja sína fyrstu íbúð, vaxtalaus lán eða vaxtalítil, eða með einhverjum slíkum hætti. En það á ekki að fela það einhverjum duttlungum einhverra skömmtunarstjóra hvort þessi má fá peninga, hvort þessi má byggja en ekki hinn. Það á auðvitað að ríkja þarna jafnrétti og jafnræði.

Þessi þáltill. er auk mín flutt af hv. þm. Eiði Guðnasyni og hv. þm. Stefáni Benediktssyni. Ég á von á því að hún njóti hér mikils stuðnings. Að lokinni þessari umr. legg ég til að till. verði vísað til hv. fjh.- og viðskn. Síðan kemur hún hér aftur til lokaafgreiðslu og þá treysti ég því að þingdeildarmenn geti að öllu leyti eða mestu sameinast um samþykkt hennar.