20.02.1985
Efri deild: 45. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3061 í B-deild Alþingistíðinda. (2546)

281. mál, hagnýting Seðlabankahúss

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst þakka hv. 5. þm. Vesturl. og bankaráðsmanni í Seðlabankanum, Davíð Aðalsteinssyni, fyrir glöggar upplýsingar um nýtingu á Seðlabankahúsinu. Það er ekki algengt að óumbeðið komi menn frá því valdi sem þar er saman komið og upplýsi Alþingi svo rækilega sem hann gerði áðan og er það vissulega þakkar vert. (Fjmrh.: Er bankavaldið komið í hár saman?) Nei, aldeilis ekki, hæstv. fyrrverandi bankaráðsmaður Útvegsbankans, aldeilis ekki, því að ef hæstv. ráðh. hefur lagt grannt að eyru hefur hann heyrt að þetta var þakkarkvak mitt til hv. bankaráðsmanns Davíðs Aðalsteinssonar fyrir að hafa gefið upplýsingar hér sem ekki liggja alltaf á lausu, jafnvel þó um þær sé spurt í beinum fsp.

Það má segja að byltingin geri það ekki endasleppt hér. Það kemur hvert byltingarfrv. á fætur öðru í kjölfar þess að byltingin var boðuð um daginn af hv. þm. Eyjólfi Konráð Jónssyni og fer vel á því að hann haldi þeirri iðju áfram þó að ég efist um að allir í hans herbúðum séu jafnhrifnir af þeim byltingarkenndu hugmyndum sem hann hefur og ég er, svo maður noti venjulegt orð, býsna skotinn í mörgum hverjum.

Hans ræða hér áðan var merkileg ádeila á vissa kenningu sem tröllríður hér húsum. Eflaust er það rétt hjá honum að allir hafa verið andvaralausir gagnvart peningamagnskenningunni. Ég hygg hins vegar að hv. þm. yrði að verða hæstv. ráðh. til þess að eitthvað gerðist nú í þessum efnum á þann veg sem hann var að lýsa þó að hann gerði sér örlitlar vonir — þær voru mjög veikar — um að núverandi ríkisstj. mundi eitthvað fara að hans ráðum í þessum efnum. Þó var hann ekki alveg úrkula vonar um það.

Ég tek hins vegar undir það að það er auðvitað breyting á lögum seðlabankans sjálfs og endurskoðun á lögum um Seðlabankann sjálfan sem gildir í þessum efnum. Það er talað um völd og áhrif Seðlabankans og vissulega er það rétt að þau völd og áhrif eru allt of mikil, sumpart lögbundin, en að öðru leyti er það óneitanlega rétt, sem kom fram hjá hv. 5. þm. Vesturl., að stjórnvöld eiga að hafa síðasta orðið og geta haft það og eiga ekki að þurfa að láta neina segja sér fyrir verkum.

Það er svo annað mál að það er með ódæmum hvað ríkisstj. almennt láta hagspekinga ýmiss konar í Seðlabanka og í Þjóðhagsstofnun reikna allt út af fyrir sig og reikna sig nánast til fjandans, ef ég má orða það svo hér úr þessum ræðustól, í nær öllum greinum. Það er alveg með undrum. Og ekki er ástandið best núna, enda vitum við að hæstv. ríkisstj. hefur tröllatrú á þessum aðilum. En það hafa því miður miklu fleiri og það svo að þessi hagspeki ræður öllu. Þessi hagspeki sem margsinnis hefur sýnt sig að vera röng. Niðurstöður hennar eru kolrangar. Heilbrigð skynsemi er hreinlega lögð til hliðar. Kannske hún hafi verið sett í þessa margfrægu skúffu í Landsbankanum á sínum tíma, heilbrigð skynsemi, en hagspekin tekin upp í staðinn og breitt jafnrækilega úr sér og raun ber vitni.

Ég tek líka undir það með hv. 5. þm. Vesturl. að vitanlega geta stjórnmálamenn ekki notað Seðlabankann sem allsherjar blóraböggul. En hitt er annað að sá ágæti maður, sem ekki hefur nú tækifæri til að svara fyrir sig hér og stjórnar Seðlabankanum í flestum greinum skulum við segja, sá ágæti maður hefur náð til sín býsna miklum völdum í þessu þjóðfélagi og menn hafa lítt þorað þar upp að rísa. Fólk spyr mann gjarnan að því hvernig á þessu ægivaldi stendur sem við öll berum að vissu leyti einhverja ábyrgð á og notum sem blóraböggul.

Varðandi þessa till. er rétt að um fátt er meira rætt meðal fólks en einmitt þetta hús. Þó að nokkrar skýringar hafi komið á því að það eigi nú að nýta það á einhvern skynsamari máta að hluta til en menn höfðu reiknað með, eins og kom fram í upplýsingum hv. þm. Davíðs Aðalsteinssonar, er það svo að fólk rekur upp stór augu ævinlega þegar byggingarmeistarinn mikli, sem ekki er hér til andsvara eins og ég sagði áðan, kemur fram á sjónvarpsskerminum og segir fólki að herða sultarólina, segir fólki að það séu engir peningar til nema þetta margfræga eigið fé Seðlabankans sem hv. þm. Sigríður Dúna kom réttilega inn á áðan, engir aðrir peningar til nema þetta eigið fé Seðlabankans. Þá auðvitað er von að fólk spyrji hvað við séum að hugsa og hvað við séum að gera.

Ég vil benda á að till. um þetta mál hafa komið fram áður. Ég man eftir frv. frá hv. 3. þm. Vestf. Karvel Pálmasyni o.fl. í Nd. á sínum tíma og ég man eftir till. frá hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur um stöðvun byggingarframkvæmda. Ég man sömuleiðis eftir þar sem þetta mál hefur kannske komist lengst, till. í ríkisstj. frá Alþb. í tengslum við efnahagsráðstafanir 1982, á sumardögum þá. Hún var um ákveðnar ráðstafanir varðandi þetta margfræga hús. En allt hefur komið fyrir ekki.

Ég hlýt að styðja það að látin sé fara fram athugun á því hvernig æskilegast sé að nýta Seðlabankahúsið, þetta hús sem skattgreiðendur í landinu, hinir almennu borgarar í landinu, eiga með réttu eins og allir vita. seðlabankinn á náttúrlega ekkert í þessu húsi sjálfur. Við eigum það öll og aðrir þjóðfélagsþegnar og eigum þess vegna að hafa það til ráðstöfunar á skynsamlegasta máta sem hægt er að finna.

Aðeins út af því sem hv. þm. Davíð Aðalsteinsson sagði um það að menn ættu ekki að vera að miklast yfir byggingum af þessu tagi vegna þess að þegar menn voru bláfátækir hafi menn byggt reisulegar og góðar byggingar hér á landi. Rétt er það og ber að meta. En ég vil aðeins bæta við: Menn byggðu þær byggingar, blessunarlega, yfir önnur og meiri og betri verðmæti en Seðlabankinn er að byggja yfir.