20.02.1985
Efri deild: 45. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3064 í B-deild Alþingistíðinda. (2548)

281. mál, hagnýting Seðlabankahúss

Valdimar Indriðason:

Virðulegi forseti. Sú till. til þál. sem hér liggur fyrir um hvernig hagnýta skuli Seðlabankahús hefur orðið orsök allmikillar umræðu og kannske er það eðlilegt þar sem málið hefur verið á döfinni í alllangan tíma eða allt frá því að þessi bygging hófst.

Það verður skoðað nánar í n. hvað við leggjum til í þessum efnum. En um þetta er mjög deilt. Það hlýtur að blasa við hverjum manni að þarna er mjög ríflega byggt yfir peningastofnun, þarna er peningamusteri okkar með tóman kassa að byggja stórhýsi.

Ég þakka hv. 5. þm. Vesturlands Davíð Aðalsteinssyni fyrir að gefa okkur hér upplýsingar um það hve þetta hús er stórt, hvernig það skuli nýtast o.s.frv. En ég hjó eftir einu hjá hv. þm. Sigríði Dúnu áðan. Hv. þm. spurði: Fyrir hvað er Seðlabankinn að byggja? Þannig getum við áreiðanlega spurt. Ég ligg ekki á þeirri skoðun minni að ég held að Seðlabankinn sé að stærstum hluta að byggja fyrir vanskila- og refsivexti viðskiptabankanna við Seðlabankann. Þetta er gert þegar undirstöðuatvinnuvegir okkar, eins og sjávarútvegurinn sem hefur þurft á miklu fjármagni að halda vegna afurðalána og fyrirgreiðslu viðskiptabankanna, hafa teygt sig langt fram yfir þau mörk sem sæmileg eru til þess að halda atvinnulífinu gangandi. Seðlabankinn hefur aftur hirt arðinn af þeim yfirdrætti sem myndast hefur í formi refsivaxta. Ef ég man rétt hefur meginhlutinn af tekjuafgangi Seðlabankans myndast fyrir refsivexti frá viðskiptabönkunum. Ég held að fyrir þetta fé sé byggt. Þá getum við spurt: Er rétt farið að í þessum efnum? Ég segi nei.

Þá kem ég inn á hitt málið sem hefur fléttast inn í þessar umr. Það er till. okkar hv. þm. Eyjólfs Konráðs og mín í sambandi við bindiskylduna sem mjög hefur verið til umræðu og á eftir að ræða hér síðar. Hér hefur verið dregið í efa að réttlætanlegt væri að minnka bindiskylduna. Ef ég man rétt er heimildin í dag upp á 38% bindiskyldu, er sennilega í kringum 30% í dag. Ég tel þetta óþarft vegna þess að afurðalán sjávarútvegsins eru öll komin út úr bindiskyldunni í Seðlabankanum. Þau eru fjármögnuð með erlendum lánum. Eftir eru þá landbúnaðurinn og hluti iðnaðarins með endursölu á afurðalánum og léttir það bindiskylduna.

En það er eitt í viðbót. Þeir bankar sem harðast eru keyrðir gagnvart atvinnuvegunum með kaupum, hvort heldur í erlendum eða innlendum afurðalánum, þ.e. að stærstum hluta Landsbanki, Útvegsbanki og Búnaðarbanki, verða að inna af hendi bindiskylduna þrátt fyrir að þeir sjái um útlánin, en aðrar peningastofnanir, sem spila frjálsar, ef svo má segja, í vinsælli lánum, eru ekki bundnar af afurðalánum. Þannig verður þetta mjög erfitt dæmi og verður ekki leiðrétt nema með því að bindiskyldan sé verulega lækkuð. Það mun koma til nánari umræðu þegar við ræðum frv. sem ég nefndi áðan. En ég tel mjög eðlilegt að rætt sé hér á hvern hátt Seðlabankabyggingin verði sem best nýtt. Ég sé ekki að Seðlabankinn nýti nema hluta af henni sjálfur. En hvort hagkvæmt er að taka hana undir aðra starfsemi, skulum við skoða nánar.