23.10.1984
Sameinað þing: 9. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 422 í B-deild Alþingistíðinda. (255)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Mér virðist óhjákvæmilegt að ég standi strax upp og leiðrétti ósannindi sem komu fram í ræðu hv. síðasta ræðumanns. Þm. leyfði sér að segja að forsrh. hefði gert samkomulag við borgarstjóra um samninga í Reykjavík. Ég lýsi furðu minni á slíkri yfirlýsingu. Ég hlýt að spyrja: Er þetta virkilega meining hv. þm. eða eru þetta vísvitandi ósannindi? Ég vísa þessu algerlega á bug. Það var ekkert slíkt samkomulag gert af neinu tagi.

Ég vísa því líka á bug að ég hafi lýst því yfir að lög verði sett um þessar deilur. Ég sagði við Dagblaðið, eins og hver maður getur lesið, að æðimargir væru farnir að krefjast þess að lög verði sett. Þetta er satt. Ótrúlega margir hafa samband við mig og fleiri og segja: Það er eina ráðið að því er virðist í þessu þjóðfélagi að lög verði sett. Ríkisstj. hefur hins vegar lýst því yfir að lög verði ekki sett og það stendur óhaggað.

Hv. þm. spyr um bréf fjmrn. Í síðasta bréfi, sem hann spurði um sérstaklega, 22. okt. 1984, segir, með leyfi forseta, í lokin:

„Með vísan til ákvæðis 106. og 107. gr. almennra hegningarlaga telur rn. eðlilegt að mál það sem hér um ræðir sæti opinberri rannsókn. Áður en ákvörðun um slíka aðgerð er tekin vill rn. hvetja Bandalag starfsmanna ríkis og bæja til að létta af þeim hindrunum sem settar hafa verið í veg tollvarða.“

Það er engin ákvörðun tekin í ríkisstj. um neinar stefnur og það verður engin stefna framkvæmd nema með ákvörðun ríkisstj. í heild. Hér er hins vegar verið að vekja athygli á því að menn eiga að fara að lögum í réttarríki og hér er Bandalag starfsmanna ríkis og bæja beðið að létta af þeirri lögleysu sem það hefur sannarlega að mati fjmrn. og margra fleiri framkvæmt með því að hindra tollverði í að sinna þeim verkum sem kjaradeilunefnd hefur úrskurðað að unnin skuli. (SvG: Er verkfallsvarslan í Sundahöfn lögleysa?) Verkfallsvarsla sem slík er ekki lögleysa. (SvG: Nú?) Nei, en ef verkfallsvarsla gengur út í það að hindra menn að sinna þeim störfum sem þeim ber skv. lögum er hún orðin lögleysa.

Hér er engin ákvörðun tekin um stefnu, ekki sú minnsta. Vitanlega er eðlilegt að dómstólar skeri úr og vitanlega ætti BSRB að vísa deilumálum til dómstóla, ef það telur að brotin séu lög, en ekki að taka lögin í sínar eigin hendur. Ég harma hve oft það er gert.

Hv. þm. spyr um vísitölubindingu. Ríkisstj. er ekki til viðtals um vísitölubindingu launa. Ríkisstj. tekur ekki þátt í því að steypa íslensku efnahagslífi út í það öngþveiti sem vísitölubindingin færði yfir íslenskt efnahagslíf t.d. eftir samningana 1974 og 1977. Ef það væri gert nú væru þessir samningar orðnir svo að segja þeir sömu og gerðir voru 1974 og hefðu eflaust sömu afleiðingar.

Hv. þm. segir ríkisstj. alltaf ræna fólkið þeim kaupmætti sem það hefur samið um. Ég held að hv. þm. ætti að kynna sér hvernig kaupmátturinn hrapaði frá miðju ári 1982. Það kemur glöggt fram í síðustu skýrslu Kjararannsóknarnefndar sem ég hygg að sé reyndar ekki komin út en auðvelt er að fá aðgang að. Þar kemur fram að kaupmátturinn byrjar að hrynja um mitt árið 1982 og mesta hrun kaupmáttar er komið fram þegar þessi ríkisstj. tekur við. (Gripið fram í: Hver var í henni?) Hverjir voru í þeirri ríkisstj.? Var það hv. þm. sem þá rændi launþega umsömdum kaupmætti? (Gripið fram í: En 2. þm. Vestf.?) Ég var líka í þeirri ríkisstj.

Staðreyndin er sú, að það er alveg sama hvað hver ríkisstj. gerir. Kaupmáttur sem ekki hefur að baki framleiðslu þjóðarbúsins verður aldrei varinn, það er útilokað. Það gerðist 1982. Þá hrundu þjóðartekjurnar og þá hlaut kaupmátturinn að hrynja einnig. Þetta er svo einfalt lögmál að hv. þm. ætti jafnvel að skilja það þegar hann er kominn í stjórnarandstöðu. Hann skildi það þegar hann var í ríkisstj. Kaupmátturinn hrundi hvað sem við hefðum gert til að viðhalda háum kaupmætti. Það var ekki hægt og það er ekki hægt enn þá.

Spurningin er sú: Standa undirstöðuatvinnuvegir þjóðarinnar, sjávarútvegurinn fyrst og fremst, sem hv. þm. hefur lýst hér að er í ákaflega slæmri stöðu, stendur sá atvinnuvegur undir 20% hækkun launa á sama tíma og talið er að bati þessarar atvinnugreinar geti í mesta lagi orðið 2% á næsta ári og á sama tíma og hún er rekin með tapi núna? Það getur vel verið að það megi lækka eitthvað þann kostnað sem er umfram fiskverð og vinnulaun, en það er ekki mikið. Ég þori að fullyrða að það nær hvergi nærri þeirri upphæð sem hér er verið að tala um í hækkun launa.

Ríkisstj. hefur engar ráðagerðir um að ræna fólk kaupmætti. Ríkisstj. mun stuðla að því, hverjir sem samningarnir verða, að áföllin verði sem minnst, en ríkisstj. mun líka líta á það sem skyldu sína að undirstöðuatvinnuvegir þjóðarinnar geti gengið og framleiðslan fái aukist og hagvöxtur hafist að nýju.