20.02.1985
Neðri deild: 43. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3072 í B-deild Alþingistíðinda. (2555)

111. mál, áfengislög

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um breyting á áfengislögum, nr. 82 2. júlí 1969, á þskj. 115. Frv. þetta er samhljóða frv. sem flutt var á síðasta Alþingi. Það var þá samþykkt í Ed. og vísað til n. hér í hv. Nd. en varð eigi útrætt.

Þetta frv. er nú endurflutt og það er til samræmis við breytingar á lögum um tollheimtu og tolleftirlit sem samþykktar voru með lögum nr. 46/1984. Var þá breytt reglum um meðferð varnings í skipum og öðrum farkostum er til landsins koma, þannig að ekki er skylt að innsigla tollskyldan varning sem er umfram það sem heimilt er að hafa til frjálsra afnota. Er þess í stað lögð á skipstjóra skylda til að setja slíkan varning undir lás og afhenda tollgæslu skrá yfir varninginn. Með ákvæði 1. gr. er lagt til að um áfengi gildi sams konar reglur og um annan tollskyldan varning samkvæmt lögum um tollheimtu og tolleftirlit, sbr. 25. gr. þeirra laga.

Með 2. gr. þessa frv. er lagt til að fellt verði úr gildi sérákvæði 2. málsgr. 6. gr. áfengislaga um víðáttu landhelgi. Er landhelgi þar ákveðin 4 sjómílur frá stórstraumsfjöruborði. Með breytingunni verður landhelgin samkvæmt áfengislögum hin sama og ákveðin er í lögum nr. 41/1979, um landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunn, þ.e. 12 sjómílur frá grunnlínu sem dregin er milli ystu annesja, eyja og skerja og þvert fyrir mynni flóa og fjarða. Samkvæmt lögum um tollheimtu og tolleftirlit, eins og þeim var breytt á síðasta Alþingi, fylgir tollalögsagan nú landhelgi.

Þetta frv. var lagt aftur fyrir Ed. á þessu þingi og hefur verið afgreitt þaðan. Vænti ég þess að hv. Nd. sjái sér fært að gera það einnig. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. allshn.