20.02.1985
Neðri deild: 43. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3073 í B-deild Alþingistíðinda. (2556)

111. mál, áfengislög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég hef ekkert nema gott um það frv. að segja sem hér er til umr. en vil vekja á því athygli, fyrst opnaðar eru umræður um áfengislög, að það var samþykkt þáltill. á Alþingi Íslendinga þar sem sú skylda var lögð á hendur opinberum stjórnvöldum að marka áfengisstefnu. Og ég vil spyrja hæstv. dómsmrh. hvort þess sé einhver von að vilji þingsins verði virtur og að slík stefnumörkun verði framkvæmd. Því að frekar er það nú þunnur þrettándi í breytingum á áfengislögunum ef þetta er það eina sem fram kemur, miðað við áður samþykkta þáltill. Alþingis.