23.10.1984
Sameinað þing: 9. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 423 í B-deild Alþingistíðinda. (256)

Umræður utan dagskrár

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Herra forseti. Ég vil hnekkja þeirri fullyrðingu 3. þm. Reykv. að fjmrh. eða samninganefnd ríkisins hafi ekkert gert til að ná samningum eða hefja viðræður við samninganefnd BSRB fyrr en verkfall var skollið á. Ég er búinn að lýsa því hér úr þessum hv. ræðustól í umr., sem voru utan dagskrár og stofnað var til af hv. sama þm., 3. þm. Reykv. Ég las þar upp bréf, kröfugerð BSRB, dags. 24. júlí og gat þess þá um leið að ég óskaði eftir því við forustumenn BSRB að þá þegar yrðu hafnar viðræður. Þeir töldu það hins vegar ekki nauðsynlegt og sýndu mér bréf dags. sama dag, samþykkt á sama fundi deginum áður, 24. júlí, þar sem málinu er vísað beint til sáttasemjara ríkisins án viðræðna. Það var ekki hægt að komast að því að ræða þessi mál við BSRB, þeir töldu ekki ástæðu til þess. Ég skýrði frá því í umr. sem hv. þm. stofnaði til nú fyrir nokkrum dögum. BSRB taldi ekki ástæðu til að hefja þessa umr. fyrr en eftir að talning atkvæða um verkfallið hefði farið fram og síðan heldur ekki fyrr en verkfallið var skollið á. Þetta er því allt rangt sem hv. þm. fer með.

Samninganefnd ríkisins hefur hvað eftir annað og ítrekað á þessu tímabili fram að verkfalli og síðan verkfallið skall á reynt að koma af stað umr. Síðan umr. loksins hófust um samkomulag hefur BSRB lagt fram fjögur eða fimm tilboð eða gagntilboð. Ekkert þeirra er undir þeirri kröfu sem upphaflega var lögð fram þrátt fyrir að samninganefnd ríkisins og fjmrh. hafi reynt af veikum mætti að gera BSRB tillögur sem ríkissjóður hefur þó engin efni á að gera.

Hv. 3. þm. Reykv. gerði að umr. hér þau bréf fjmrh. og bréf sem ráðuneytisstjóri í fjmrn. hefur skrifað fyrir hönd ráðh. til BSRB. Hann hefur lesið þau upp þannig að ég sé ekki ástæðu til að lesa þau upp. Forsrh. hefur að miklu leyti svarað þeim spurningum sem til mín var beint. En ég vil leyfa mér, með leyfi forseta, að lesa hér upp annað bréf sem er frá fjmrn. og dags. 25. sept. 1984 til allra ráðuneyta um starfsskyldu forstöðumanna. Og það hljóðar svo:

„Með lögum nr. 31 frá 1976 voru tekin upp ákvæði í lög um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins er bönnuðu tilteknum starfsmönnum ríkisins þátttöku í verkfalli þrátt fyrir heimildir félaga í BSRB til að stofna til verkfalla. Meðal þessara starfsmanna eru forstöðumenn stjórnsýslustofnana ríkisins og staðgenglar þeirra og forstöðumenn atvinnurekstrar og þjónustufyrirtæki ríkisins og staðgenglar þeirra. Félagar innan BSRB, sem starfa sem verslunarstjórar eða skólastjórar almennra skóla, eru ekki taldir forstöðumenn í skilningi laganna og er þeim því heimilað að taka þátt í verkfalli.

Tilgangur með því að banna forstöðumönnum að fara í verkfall er sá að þeir haldi starfsemi stofnunarinnar gangandi eftir því sem tími og kraftar leyfa. Tilgangslaust er að hafa forstöðumenn við störf í verkfalli megi hann eða geti ekki sinnt störfum í stofnun sinni.

Fjmrn. telur að forstöðumönnum ríkisstofnana beri skylda til að gera allt sem í þeirra valdi stendur til að draga úr þeirri röskun er verkfall hefur á starfsemi stofnana þeirra. Forstöðumennirnir eru yfirmenn stofnana og geta þeir og staðgenglar þeirra gengið í hver þau verk sem undir verksvið stofnunar þeirra heyra og þeir bera ábyrgð á að komist í framkvæmd.

Beri svo við að forstöðumaður eða staðgengill hans geti ekki sinnt brýnum verkefnum er lúta að öryggisvörslu og heilsugæslu ber þeim að kynna kjaradeilunefnd þann vanda er af því leiðir. Í 26. gr. laga um kjarasamninga Bandalags starfsmanna ríkis og bæja nr. 29 1976 segir svo:

„Þótt löglegt verkfall sé hafið er starfsmönnum, sem í verkfalli eru, skylt að starfa svo að haldið verði uppi nauðsynlegri öryggisvörslu og heilsugæslu. Kjaradeilunefnd ákveður hvaða einstakir menn skuli vinna í verkfalli og hún skiptir vinnuskyldu á milli manna. Um laun og kjör þessara manna meðan á verkfalli stendur skal fara eftir þeim kjarasamningi sem gerður verður að loknu verkfalli.“

Fjmrn. leggur á það áherslu að forstöðumaður leiti ávallt til kjaradeilunefndar um milligöngu telji hann að leggja þurfi vinnuskyldu á mann er ella væri í verkfalli. Telur rn. að meðan á verkfallinu stendur taki ábyrgð ríkissjóðs sem vinnuveitanda til þeirra félaga innan BSRB er kvaddir hafa verið til starfa af kjaradeilunefnd eða eru undanþegnir verkfalli sbr. 1. mgr. þessa bréfs. Kjaradeilunefnd hefur aðsetur í Borgartúni 6. Þess er hér með óskað að rn. komi erindi þessu á framfæri við stofnanir á þeirra vegum.“ Hér eru skyldur forstöðumanna. Í því bréfi, sem vitnað hefur verið til og var skrifað 8. okt. og undirritað af ráðuneytisstjóranum, Höskuldi Jónssyni er bent á skyldur starfsmanna og þær afleiðingar sem það kynni að hafa ef opinberir starfsmenn yrðu hindraðir í störfum sínum eða á annan hátt ríkissjóði valdið tjóni. Það eru varnaðarorð og þar er bent á að hugsanlega gætu menn orðið bótaskyldir ef aðrar afleiðingar kynni að leiða af gerðum þeirra.

En í því bréfi sem nú er vitnað til eru talin upp ákveðin dæmi um að opinberum embættismönnum hafi verið meinað að gegna sínum störfum. Bent er á að það eru brot gegn ákveðnum ákvæðum eða greinum hegningarlaga nr. 106 og 107. Þar er Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja bent á hvaða afleiðingar það gæti hugsanlega haft ef því léttir ekki. Síðan kemur það bréf frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, sem vitnað var til og dags. er 23. okt., þar sem segir, með leyfi forseta, að stjórn BSRB mótmæli harðlega þeirri einræðislegu framkvæmd fjmrh., sem er sjálfur annar aðili í kjaradeilu BSRB, sem kemur fram í þrem bréfum sem fjmrh. hefur skrifað.

Hvaða mannsbarni er ekki ljóst það gerræði sem hefur verið unnið af verkfallsmönnum og BSRB í þessu verkfalli og lamað hefur þjóðfélagið allt langt út fyrir það sem lög heimila? Það verður að benda á afleiðingarnar af því að halda áfram að brjóta lög. Framkvæmdavaldið setur ekki lögin. Það er Alþingi sem setur lögin. Framkvæmdavaldið starfar ekki sem dómsvald. Það er þriðji aðilinn. En framkvæmdavaldinu ber skylda til að fara að lögum og eitt af því sem því ber skylda til er að benda á lögbrot til þess að dómsvaldið geti fjallað um þessi lögbrot og tekið ákvörðun um refsingar eða ekki refsingar. Menn verða þá bara að átta sig á því hvaða lög þeir eru að brjóta. Ef það er rétt að menn eru viljandi að brjóta lög sem kostar þá kannske átta ár í fangelsi eða meira, þá er eins gott að þeir viti a.m.k. hvaða lög þeir eru að brjóta og hvaða afleiðingar það getur haft.

Ég ætla, með leyfi forseta að vitna í niðurlag bréfs fjmrh. frá 22. okt. Þar segir: „Áður en ákvörðun um slíka aðgerð er tekin vill rn. hvetja Bandalag starfsmanna ríkis og bæja til að létta af þeim hindrunum sem settar hafa verið í veg tollvarða“ - eða þá bara annarra embættismanna sem eru við skyldustörf. Bara það eitt að verkfall er í gangi leyfir ekki verkfallsaðilum að brjóta lög. Verkfallsaðili getur ekki fellt úr gildi lög í landinu. Þeir verða að fara að lögum um verkföllin eins og aðrir borgarar. (Gripið fram í: ... Sjálfstfl. gerði það í Valhöll með útvarpsrekstri.) Herra forseti. Það varð mér þó nokkuð dýrkeypt síðast þegar frammíköll voru svo að ég ætla að biðja — (Forseti: Ég vil biðja hv. þm. að gefa hæstv. fjmrh. gott hljóð.) Virðulegi forseti. Ég vil þakka alveg sérstaklega fyrir þetta.

Ég sé ekki hvað af spurningum hv. 3. þm. Reykv. er ekki svarað af þeim sem hann beindi til mín. En hann lætur hér stór orð falla í tilefni af verkfalli. Það ástand, sem nú er í þjóðfélaginu eða yfirleitt, má ekki hræða nokkurn mann — og síst af öllu þá sem taka á sig þá ábyrgð að gegna ráðherrastöðu — né hindra hann í því að gera það sem hann álítur rétt og fara að lögum. Það er ekki verðugt hlutverk leiðtoga stjórnmálaflokks að reyna að leita að einhverju ímynduðu valdi sem hann þykist hafa og hótunum gegn fylkingum sem hann hefur alls ekki verið kosinn til þess að leiða. Meðan fjmrh. telur að hann fari að lögum og er öruggur um að hann fari að lögum þá hræðir hann enginn annar þm. til að fara öðruvísi að, það hræðir hann enginn frá því að gera rétt, það hræðir hann enginn frá því að þola ekki órétt.