20.02.1985
Neðri deild: 43. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3075 í B-deild Alþingistíðinda. (2561)

111. mál, áfengislög

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. dómsmrh. fyrir það sem hann útskýrði í máli þessu. En ég vil lýsa þeirri skoðun minni að ríkissaksóknari hefur að mínu viti brugðist því trausti sem lögin setja honum varðandi embættisskyldur í afskiptum af áfengismálum. Látið hefur verið kyrrt liggja að búið er að kæra það að bjór er fluttur inn í landið skv. reglugerð frá fjmrh. Málið er svæft suður með sjó. Það er staðreynd að verið er að selja bjór á bjórstofum hér á landinu. Og það svar sem gefið er er að það sé heimilt að blanda brennivín með hverju sem er, þynna það upp og selja það þannig. Sú venja hefur verið á skemmtistöðum að sérstakir sjússmælar hafa verið notaðir til þess að veita leiðbeinandi upplýsingar um það hversu mikið er verið að selja af áfengi. Þarna á sér stað aftur á móti blöndun og bruggun og svo er varan seld. Það eru ekki neinir sjússmælar sem notaðir eru til að staðfesta það í hverju tilfelli að verið sé að setja þetta eða hitt vínið í þessa blöndu. Bruggunin á sér stað áður og svo er allt selt.

Það var mikið gæfuleysi hjá þinginu, þegar lögin um saksóknara voru samþykkt, að eftirlitsskylda dómsmrn. yfir embættinu, eins og er á Norðurlöndum, skyldi ekki vera til staðar. Þetta embætti er svo sjálfstætt að það er eins og ríki í ríkinu. Það verður nú að segjast eins og er að menn geta forpokast í starfi. Og ekki verður annað séð en að ríkissaksóknari hafi tapað áttum í þessu máli.

Ég vil líka bæta því við að ég skil ekki á hvaða forsendum jafnstórt mál eins og áfengismálin fá jafnhæga umfjöllun hjá ríkisstj. Þáltill. þingsins er löngu samþykkt nefndin er búin að skila áfangaskýrslu. Þetta mjakast áfram en engu að síður hafa ráðh. ekki talið sér skylt að gera þinginu grein fyrir stöðu málsins. Mig undrar þetta. Mér finnst það óvirðing við Alþingi Íslendinga að standa svona að þessu máli. Á sama tíma og vitað er að áfengisneysla Íslendinga hefur verið að aukast er vaxandi þrýstingur á það að rýmka þessa löggjöf. Mér er óskiljanlegt hvers vegna hæstv. dómsmrh. er að afgreiða þessi leyfi til að opna bjórstofur út um hvippinn og hvappinn. Mér er það óskiljanlegt.