20.02.1985
Neðri deild: 43. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3077 í B-deild Alþingistíðinda. (2565)

230. mál, tekjustofnar sveitarfélaga

Flm. (Gunnar G. Schram):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga á þskj. 289 um breyting á lögum nr. 73/1980, um tekjustofna sveitarfélaga, með síðari breytingum. Meðflutningsmenn á þessu frv. eru hv. þm. Friðrik Sophusson, Ólafur G. Einarsson og Pétur Sigurðsson.

Efni þessa frv. er að með því er lagt til að úr lögunum frá 1980 um tekjustofna sveitarfélaga verði felld niður málsgrein úr 3. gr. þar sem fjallað er um fasteignaskatta. Álagningu er þannig háttað í dag að sveitarstjórnum er heimilt að leggja skatt á hlunnindi, sem eru í eign utansveitarmanna, sem nemur 4% af virðingarverði þeirra.

Með frv. þessu er lagt til að þetta ákvæði verði fellt úr lögunum af eftirtöldum ástæðum: Þessi 4% hlunnindaskattur mismunar þegnum eftir búsetu í landinu. Flm. telja að hann brjóti á þann hátt í bága við viðurkenndar grundvallarreglur skattaréttar. Má jafnvel telja að slíkur skattur, slík mismunun skattborgaranna, brjóti í báta við eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar. Um það álitaefni var einmitt nýlega fjallað í úrskurði sem yfirfasteignamatsnefnd ríkisins kvað upp 26. júlí 1982. Í því máli var einmitt deilt um réttmæti þessarar skattlagningar.

Í þeim úrskurði sínum segir yfirfasteignamatsnefnd orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:

„Nefndin fellst á það með kærendum að umræddur 4% hlunnindaskattur sé óeðlilegur og hæpinn frá sjónarmiði 67. gr. stjórnarskrárinnar. Hann byggist hins vegar á lagareglu sem eigi hefur verið hnekkt af dómstólum og verður því ekki komist hjá því að leggja hana til grundvallar í úrskurði þessum.“

Hér kemur mjög glöggt fram hvert er álit yfirfasteignamatsnefndar á þessari skattheimtu. En þar er undirstrikað að þar sem skatturinn byggist á lagareglu sem hafi ekki verið hnekkt af dómstólum hljóti yfirfasteignamatsnefnd að beita henni í úrskurði sínum þó hún telji skattinn bæði óeðlilegan og hæpinn frá sjónarmiði 67. gr. stjórnarskrárinnar. Þar er einmitt um eignarréttarákvæði stjórnarskrárinnar að ræða.

Í þessu sambandi má benda á það að fyrir utan þá mismunun sem í þessu ákvæði laganna um tekjustofna sveitarfélaga felst er hér raunverulega um ákaflega háan skatt að ræða. Í framkvæmd er það svo að við skattálagningu er fasteignaskattstofn af hlunnindum metinn sem tífaldar árstekjur af þeim. Það hefur í för með sér að þessi 4% skattur, eins og hann er í lögunum, verður í framkvæmd í rauninni 40% skattur af hlunnindatekjum árlega. Síðan greiða hlutaðeigendur vitanlega tekjuskatt og útsvar af hlunnindatekjum í heimabyggð. Lokaskattgreiðslan eða upphæðin fer svo eftir því hvort heimilað er að draga hlunnindaskattinn frá. Ef það er heimilað yrði heildarskattgreiðslan 75–80%, en ef ekki fæst að draga hlunnindaskattinn frá tekjuskattstofni getur heildargreiðslan farið yfir 100%. Það telja flm. fráleita skattlagningu.

Hér er vitanlega um ýmis hlunnindi að ræða, svo sem lax- og silungsveiði, jarðhita og annað slíkt. Á það er bent í grg. að þessi skattur getur í raun haft mjög óæskileg áhrif og neikvæð í framkvæmd. Á síðari árum hefur áhugi manna á fiskirækt og ylrækt farið mjög vaxandi. Á það vitanlega jafnt við um innansveitarmenn sem utansveitarmenn. Miklum fjármunum hefur verið varið til seiðasleppingar, fiskiræktar og laxastigagerðar í ám landsins. Þessi hlunnindaskattur leggst á veiðiár, séu þær ekki í eigu innansveitarmanna, og á jarðvarma á sama hátt. Það ætti því að liggja í augum uppi hve þessi skattur hlýtur að draga úr fjárhagslegu bolmagni eigenda til þess að standa í slíkri ræktun og uppbyggingu sem öllu byggðarlaginu hlýtur þó að koma til óða.

Ég hef hér tíundað rökin með því að fella niður þennan sérstaka skatt. Hins vegar er úf af fyrir sig skiljanlegt, hvers vegna menn töldu á sínum tíma ástæðu til að setja hann í lög. Það var vitanlega gert til þess að auka tekjur sveitarfélaganna sem mörg hver eru fjárvana. Út af fyrir sig er það vel skiljanlegt að þau vilji auka sínar tekjur. Það er ekki heldur ætlun flm. með þessu frv. að ganga gegn þeirri fjármagnsþörf. Hins vegar telja þeir að hér sé ranglega að tekjuöfluninni staðið og þess vegna beri að afla tekna á annan máta. Ein leið í því sambandi væri að hækka fasteignamatið og endurmeta fasteignir í sveitarfélögum landsins. Þær yrðu þá ríflegri tekjustofn en þær eru í dag. Slíkt endurmat fasteigna gæfi þá meiri tekjur í aðra hönd fyrir hreppa og sveitarfélög. Aðrar leiðir mætti vitanlega benda á í því efni.

En megintilgangurinn með flutningi þessa frv. er hins vegar, eins og ég sagði áðan, að afnema það misrétti í skattlagningu sem hér er um að ræða. Flm. eru hins vegar tvímælalaust fúsir til að ræða aðrar tekjuöflunarleiðir sem til greina kæmu og ekki fela í sér slíka mismunun sem um er að ræða í þessu tilviki.