20.02.1985
Neðri deild: 43. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3083 í B-deild Alþingistíðinda. (2571)

279. mál, ráðstafanir í húsnæðismálum

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um ráðstafanir í húsnæðismálum. Þetta er 279. mál á þskj. 459. Flutningsmenn eru ásamt mér hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, 7. þm. Reykv., hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, 5. þm. Austurl., hv. þm. Geir Gunnarsson, 5. þm. Reykn., og hv. 3. þm. Reykv. Svavar Gestsson.

Meginefni þessa frv. felst í tekjuöflun og ráðstöfun þeirra tekna samkv. 1.–4. gr. frv. með ákveðnum ákvæðum í 6. og 7. gr. Í 5. gr. er fjallað um það hvernig tekna skuli aflað til að standa undir þeim ráðstöfunum sem frv. kveður á um og er það í stuttu máli á þann hátt að lagður skuli sérstakur tímabundinn veltuskattur á verslun og skipafélög og þannig aflað um 500 millj. kr., að lagður skuli sérstakur tímabundinn veltuskattur á banka samtals 300 millj. kr., með skatti á skrifstofu- og verslunarhúsnæði og stóreignaskatti alls um 200 millj. kr., með skatti af vaxtatekjum af innistæðum sem hærri eru en 4 millj. kr. á verðlagi í lok ársins 1984, með gjaldi af skuldabréfum og viðskiptum verðbréfasala og með því að fasteignasalan skili fjórðungi sölutekna sinna í ríkissjóð samtals um 100 millj. kr. og með framlögum úr ríkissjóði samkv. nánari ákvörðun í fjárlögum hverju sinni þannig að heildarfjárhæðin samkv. 1.-6. tölul. verði 1400 millj. kr. árið 1985 á verðlagi þess árs. Eru allar tölur sem ég hér las, að undanskyldri 4. gr., miðaðar við verðlag þessa árs.

Fjármagn þetta, sem þannig aflast og lánað skal út skv. þessum lögum, á að vera eign byggingarsjóðanna, renna til þeirra sem framlög, enda annist þeir alla innheimtu og útborganir skv. þessum lögum.

Gert er ráð fyrir að gildistími þessara sérstöku laga um ráðstafanir í húsnæðismálum verði fimm ár og skal tekna aflað með þeim hætti sem hér var rakið öll þau fimm ár og framreiknast miðað við hækkanir verðlags hverju sinni.

Ráðstöfun þessa fjár er í megindráttum á þá lund sem kveður á um í 1–4. gr. og er það þannig að Byggingarsjóður ríkisins skal verja árlega 400 millj. kr., miðað við verðlag ársins 1985, frá og með því ári sem nú er að líða til þess að koma til móts við þá sem byggt eða keypt hafa íbúðir til eigin nota eftir árið 1980.

Byggingarsjóður ríkisins og Byggingarsjóður verkamanna skulu síðan verja þeim 1000 millj. kr. sem þá eru eftir til að auka framboð á hóflegum íbúðum í nýju húsnæði til húsnæðissamvinnufélaga, byggingarsamvinnufélaga og til leiguíbúða eftir nánari ákvæðum húsnæðisstjórnar í samræmi við ákvæði þessara laga.

Lán samkv. 2. gr., sem ég hef nú lesið, skulu veitt samkv. eftirfarandi meginatriðum, að þeir sem hafi eignast húsnæði í fyrsta sinn á umræddu fimm ára tímabili, þ.e. frá árinu 1980 að telja, skuli hafa forgang að lánunum, að þeir sem hafa miðlungstekjur eða lægri með hliðsjón af fjölskyldustærð hafi forgang og skulu þeir sem telja verður í hátekjuflokki og/eða búa við mikil efni mæta afgangi. Lánin verði þá og því aðeins veitt að ljóst sé að viðkomandi geti því aðeins haldið íbúð sinni að hann fái sérstaka aðstoð. Miða skal þessar lánveitingar við það að um 800 fjölskyldur á ári fái lán samkv. fyrri málsgr. 2. gr. eða alls um 4 þús. fjölskyldur á gildistíma þessara laga. Heimilt skal að veita þessi lán beint til viðkomandi aðila, en þau er einnig heimilt að veita sem endurkaupalán til viðskiptabanka til breytinga á skammtímaskuldum íbúðareigenda. Þá er húsnæðisstjórn einnig heimilt að verja hluta af þessum 400 millj. kr., sem kveðið er á um í fyrri málsgr. 2. gr., til þess að fresta greiðslum og lengja lán sé greiðslubyrði afborgana vaxta og verðbóta af þeim lánum, sem hlutaðeigandi hefur hjá byggingarsjóðunum, óeðlilega hátt hlutfall af tekjum viðkomandi fjölskyldu.

Síðan segir að lán skv. fyrri málsgr. 2. gr. skuli veita fyrir 1. ágúst ár hvert og í fyrsta sinn á þessu ári, árinu 1985, og skuli lánin veitt í einu lagi. Húsnæðisstofnun skal gefa viðkomandi einstaklingi kost á fjárhagslegri ráðgjöf í tengslum við afgreiðslu þessara lána. Félmrh. setji síðan nánari reglur um framkvæmdir þessa lagaákvæða að höfðu samráði við félmn. Alþingis.

Fyrri málsgr. 2. gr. frv. og 3. gr., sem kveður nánar á um úthlutun þessa fjármagns, eru til þess fallnar að leysa brýnasta vanda þess fólks sem byggt hefur eða keypt húsnæði á síðustu fimm árum og er nú, eins og hv. þm. eflaust vita, margt hvað í mjög miklum vanda statt. Ég ætla ekki, herra forseti, að rekja þá sögu nánar að sinni, en kem aftur að vanda húsnæðismálanna almennt síðar.

Í 4. gr. er kveðið á um úthlutun þeirra 1000 millj. kr. sem nefndar eru í síðari málsgr. 2. gr. og skal þeim skipt upp milli Byggingarsjóðs ríkisins sem fái 400 millj. kr. og Byggingarsjóðs verkamanna sem fái 600 millj. kr. á verðlagi ársins 1985 og sömu upphæðir næstu fjögur ár, framreiknað eftir verðlagi ársins 1985. Byggingarsjóður ríkisins skal miða nýtingu þess fjármagns sem í hans hlut kemur við eftirfarandi meginatriði: að unnt verði að byggja 1000 íbúðir á ári með láni sem nemur 75% af kostnaði íbúðar samkvæmt nánari ákvörðun félmrh.; að íbúðirnar séu af hóflegri stærð fyrir viðkomandi fjölskyldu og eigi stærri en 140 fermetrar; að byggingarsamvinnufélög eigi forgang að lánum samkv. þessum lagaákvæðum; að lánin gangi að jafnaði til þeirra sem hafa miðlungstekjur eða lægri samkv. nánari ákvörðun húsnæðismálastjórnar; að framkvæmdir í byggingu nýs íbúðarhúsnæðis dreifist eðlilega um landið samkvæmt þessum lögum.

Byggingarsjóður verkamanna skal leggja áherslu á eftirfarandi atriði við úthlutun þess fjármagns sem í hans hlut kemur sem er 600 millj. kr.:

Húsnæðissamvinnufélög fái óskerta aðild að sjóðnum fyrir það nýja fjármagn sem lögin kveða á um. Miða skal við að á árinu 1985 verði 300 millj. kr. varið til húsnæðissamvinnufélaga og síðan sömu upphæð árlega á verðlagi ársins 1985. Síðan skuli lána sérstakt fjármagn, allt að 100 millj. kr. á ári, til byggingar leiguhúsnæðis. Annað fjármagn, þ.e. þær 200 millj. kr. sem þá eru eftir, skuli skv. lögum þessum vera hagnýtt til að auka byggingar verkamannabústaða frá því sem gert er ráð fyrir í lánsfjáráætlun ríkisstj. fyrir árið 1985.

Þetta eru, herra forseti, í meginatriðum þær reglur sem frv. kveður á um notkun þess fjármagns sem aflað skal skv. 5. gr.

Í 6. gr. er sérstakt ákvæði um vexti og verðtryggingar húsnæðisstjórnarlána, en hún er svohljóðandi:

„Frá og með gildistöku laga þessara skal verðtrygging vaxta og afborgana verðtryggðra húsnæðislána ætíð bundin við þá af vísitölunum tveimur, kaupgjaldsvísitölu (skv. útreikningum kjararannsóknanefndar) og lánskjaravísitölu, sem er lægri. Eftirstöðvar lána skulu hins vegar reiknaðar upp eftir lánskjaravísitölu og lánin lengd eftir þörfum sem nemur þessum mismun.“

Í 7. gr. er sagt að ráðh. skuli setja reglugerð um nánari framkvæmd laga þessara og um samræmingu við önnur lög og reglugerðir um húsnæðismál, sem nauðsynlegt verður að telja.

Það sem gerst hefur í málum húsbyggjenda á síðustu misserum og sérstökum vanda veldur má segja að sé tvíþætt. Það er í fyrsta lagi sú gífurlega lækkun á tekjum fólks í samanburði við hækkanir á byggingarkostnaði og framfærslukostnaði sem raun ber vitni og hins vegar sú skerðing á fjármagni til verkamannabústaðakerfisins og félagslegra íbúðabygginga og óvissa um húsnæðislánakerfið í heild sem glöggt kemur fram í umfjöllun fjölmiðla um þessi mál þessa dagana. Þetta frv. okkar þm. Alþb. er flutt til að svara þessum vanda. Kjarni þess er sú tekjuöflun, sem ég hóf mál mitt á að gera grein fyrir, upp á 1.4 milljarða kr. á verðlagi ársins 1985 og sem síðan skal gilda þau fimm ár sem lögin gildi. Áhrif af slíkri tekjuöflun ættu að verða þau, sem kveðið er á um í frv., að unnt yrði að reisa a.m.k. 1000 íbúðir af hóflegri stærð fyrir það fólk sem er að eignast húsnæði í fyrsta sinn og lána því allt að 75% af byggingarkostnaði. Einnig mundi átak hjá Byggingarsjóði verkamanna hafa mikil áhrif í þá átt að leysa húsnæðisvanda þeirra sem verst eru staddir. Auk þess fengju um 800 fjölskyldur, sem keypt hafa eða byggt húsnæði eftir 1980, sérstök lán til lengri tíma í stað þeirra skammtímalána og víxla sem það margt hvert fleytir sér á með ærnum kostnaði þessa dagana.

Það hefur verið upplýst í umr. hér á hv. Alþingi nýverið að við ærin greiðsluvanda sé að stríða þessa dagana hjá byggingarsjóðunum og einkum Byggingarsjóði ríkisins. Hæstv. félmrh. upplýsti í umr. í hv. Nd. á mánudaginn var að ekki minna en 185 millj. kr. hefðu staðið út af um áramót og væri sá vandi óleystur og hefði einungis færst milli áranna 1984 og 1985.

Í Dagblaðinu Vísi í dag, miðvikudaginn 20. febr., eru nýjar upplýsingar sem hafðar eru eftir Húsnæðisstofnun og blaðið hefur aflað sér þar. Þar er talið að um 1500 manns bíði nú eftir láni og þar vanti ekki 185 millj. heldur um 350 millj. kr. til þess að gera upp þann hala, eins og það er orðað, sem hjá stofnuninni sé, til þess að allir, sem nú ættu að fá lán eða ættu í þann vegin að vera að fá lán hjá stofnuninni, fengju sitt. Jafnframt er upplýst að líklegt sé skv. upplýsingum frá Húsnæðisstofnun að enn verði tveggja til þriggja mánaða bið hjá mörgum þeirra sem ættu að vera að fá lán sín um þessar mundir.

Það þarf í sjálfu sér ekki fleiri vitnanna við um það ástand sem ríkir í húsnæðismálunum þessa dagana og þessar vikurnar. Það var einnig athyglisvert að á fyrsta hálftímanum eða svo sem nýstofnuð ráðgjafarþjónusta Húsnæðisstofnunar starfaði rauðhitnuðu allar símalínur til stofnunarinnar og upp voru pantaðir allir viðtalstímar hjá ráðgjöfunum fyrsta hálfan mánuðinn. Þurfa menn varla fleiri vitnanna við um þá þörf sem er á skjótum aðgerðum í þessu máli.

Við þm. Alþb., sem stöndum að þessu frv., erum þeirrar skoðunar að eina lausnin í húsnæðismálunum, sem raunhæf sé og varanleg geti talist, sé tvíþætt. Í fyrsta lagi eigi að afla tekna sem renni til byggingarsjóðanna sem framlög og verði þeirra eign og þannig byggi þeir upp sitt eigið fé á næstu árum og verði fjárhagslega sjálfstæðari en nú er og til þess færir að standa undir hlutverki sínu í framtíðinni. Hin hlið ráðstafananna er sú að létta greiðslubyrði þeirra viðskiptamanna stofnunarinnar sem nú eru að kikna undan þeim kjörum sem þeim er boðið upp á af hálfu Húsnæðisstofnunar og vegna þeirra ráðstafana í kaupgjaldsmálum sem hæstv. ríkisstj. hefur beitt sér fyrir á undanförnum misserum og verða ekki slitnar úr samhengi í umræðum um húsnæðismál. Er þar auðvitað fyrst að telja þá harkalegu kjaraskerðingu sem gripið var til strax á fyrstu lífdögum þessarar ríkisstj., að afnema verðtryggingu launa, en halda hins vegar fullri verðtryggingu lána og annarra skuldbindinga launafólks sem síðan hefur valdið því að greiðslubyrði viðkomandi fólks hefur þyngst gífurlega á undanförnum mánuðum og misserum svo að gjarnan sjá menn nú á eftir 10–20% hærra hlutfalli af launum sínum í afborganir slíkra lána en var fyrir einu og hálfu ári.

Herra forseti. Það væri út af fyrir sig hægt að hafa hér langt mál um ástand húsnæðismála, um framgöngu hæstv. ríkisstj. í þeim efnum, um þær miklu og digru yfirlýsingar sem stjórnarflokkarnir gáfu hvor í sínu lagi fyrir síðustu alþingiskosningar sem og ríkisstj. í málefnasamningi sínum hafði í þessum efnum og um ýmsar samþykktir stjórnarinnar síðar í húsnæðismálum, en efndirnar á öllu þessu hafa eins og kunnugt er verið mjög í skötulíki. Húsnæðismál hafa hins vegar komið til umr. nýlega á hv. Alþingi og eiga trúlega eftir að gera það enn og aftur og því tel ég ekki ástæðu til að lengja mál mitt með miklum umræðum.

Alvarlegasta hlið þeirra mála er að mínu mati sú staðreynd að fjöldi fólks hefur, vegna þess að það hefur treyst yfirlýsingum og loforðum hæstv. ríkisstj. í sambandi við húsnæðismál, lent í verulegum vandræðum og vanskilum vegna þess að þessar yfirlýsingar hafa ekki staðist. Það er viðurkennt af hæstv. félmrh. og flestum öðrum talsmönnum ríkisstj. að efndir hafa ekki orðið á ýmsum þessum yfirlýsingum. Er það að mörgu leyti alvarlegasti og ljótasti kafli þessa máls þar sem grandvart fólk er iðulega gert að vanskilamanneskjum sökum þess að það treysti yfirlýsingum og samþykktum hæstv. ríkisstj. í þessum efnum. Er skemmst að minnast þess í hvert óefni er komið eða í það minnsta var komið fyrir fyrirtæki hér um slóðir sem Byggung nefnist. Það fyrirtæki hafði eins og fleiri treyst því að afgreiðsla lána yrði í samræmi við samþykktir hæstv. ríkisstj. Svo hefur ekki orðið sem kunnugt er og þarf ekki að rekja það mál frekar.

Herra forseti. Ég ætla þá ekki að hafa um þetta fleiri orð. Ég legg á það áherslu að hér er lagt fram frv. sem tekur heildstætt á þessum málum. Hér er ekki um að ræða sýndarmennsku, eyðslutill. eins og því miður stundum sjást í þessum efnum. Við leggjum í það metnað okkar, flm. þessa frv., að áætlanir um útgjöld og tekjur standist á og að þær séu raunhæfar og við teljum að svo sé og tekið er hér á vandanum eins og hann birtist á raunsæjan hátt og bent á leiðir til úrlausnar. Ég vona að hæstv. ríkisstj. og sú n. sem fær þetta mál til umfjöllunar virði það framlag sem hér er innt af höndum af hálfu okkar flm. til lausnar þessara miklu vandamála og taki fullt tillit til þeirra uppástungna sem hér eru gerðar um lausn á þessum málum.

Ég legg svo til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til hv. félmn.