20.02.1985
Neðri deild: 43. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3091 í B-deild Alþingistíðinda. (2573)

279. mál, ráðstafanir í húsnæðismálum

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða þetta frv. neitt efnislega þótt það sé sannarlega allrar umr. vert. En af því að vísitöluskammirnar komu mjög eðlilega til umr. hérna, þá vildi ég aðeins minnast á till. okkar Kvennalistans í þeim efnum. Hv. þm. Svavar Gestsson ræddi hér um þessar vísitölur og hélt fram hlut byggingarvísitölunnar fremur en lánskjaravísitölunnar, sem er snöggtum skárra að sjálfsögðu. En nú hefur Kvennalistinn lagt til að miða verðtryggingu við vísitölu kauptaxta og er hugsunin að baki þeirrar till. að eðlilegast og réttlátast sé að miða við jafnvirði í vinnustundum, það sé eina tryggingin sem dugi almennu launafólki sem hefur ekki aðra tekjuöflunarleið en sölu vinnu sinnar, og þetta er að okkar mati eina leiðin sem firrt getur almenna lántakendur þeim skakkaföllum sem þeir verða fyrir þegar slíkt misgengi verður í þróun mála sem hefur komið á daginn. Að öðru leyti ætla ég að geyma mér frekari ræðuhöld þangað til sú till. kemur til umr.