21.02.1985
Sameinað þing: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3101 í B-deild Alþingistíðinda. (2592)

122. mál, sala á íslenskri sérþekkingu erlendis

Flm. (Guðmundur Bjarnason):

Herra forseti. Ég vil að gefnu tilefni biðja afsökunar á því að ég hef a.m.k. tvívegis á undanförnum dögum beðist undan því að mæla fyrir þáltill. þeirri sem nú hefur loks verið tekin fyrir. Það stafar ekki af því að ég telji málið ekki mikilvægt eða brýnt að það fái þinglega meðferð, heldur þvert á móti. Ég tel það mjög þýðingarmikið og legg áherslu á þá ósk mína að málið fái skjóta meðferð í nefnd og þingið sjái sér fært að samþykkja till. Ástæður fyrir töfinni voru hins vegar þær að ég vildi afla mér enn betri upplýsinga um hvað nýjast væri að gerast í þessum málum til að geta greint þinginu nánar frá því en gert er í grg. með þáltill. Ég bað því um að framsögu yrði frestað fram yfir ráðstefnu sem haldin var í gærdag og fjallaði um sama málefni og þáltill. Mun ég því í framsögu minni gera nokkra grein fyrir merkilegum upplýsingum sem þar komu fram.

Á þskj. 126 hef ég leyft mér að flytja till. til þál. um sölu á íslenskri sérþekkingu erlendis ásamt nokkrum öðrum þm. Framsfl. Till þessi hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að láta athuga með hvaða hætti unnt er að koma íslenskri ráðgjöf, sérfræðiþekkingu og reynslu í atvinnulífinu á markað erlendis og hvernig megi samræma vinnubrögð og aðstoða þá aðila sem hafa nú þegar kannað möguleika á útflutningi íslenskrar tækniþekkingar.“

Till. þessa fluttum við á síðasta þingi, en þá náði hún ekki fram að ganga. Því flytjum við hana aftur óbreytta. Ég vil í upphafi máls míns taka það skýrt fram til að fyrirbyggja allan misskilning að till. þessari er að sjálfsögðu ætlað að efla og auka atvinnulífið í landinu, nýta þá sérfræðiþekkingu sem við búum nú þegar yfir og efla hana og gefa þeim mönnum sem yfir þessari þekkingu ráða meiri starfsmöguleika en þeir e.t.v. að öðru leyti hafa ef þeir vinna aðeins fyrir okkar íslenska atvinnulíf.

Einhverjum kann að finnast að með till. af þessu tagi sé verið að flytja fólk úr landi og dýrmæta þekkingu sem við getum þá ekki notað okkur hér heldur missum til annarra þjóða sem síðar gætu keppt við okkur á hinum ýmsu mörkuðum þegar við værum búnir að afhenda þessa þekkingu okkar öðrum aðilum. Þetta er að sjálfsögðu ekki tilgangurinn, heldur eins og ég sagði áðan, að skapa sérfræðingum okkar og ráðgjöfum víðara verksvið. Ég hygg einnig að margvísleg rök megi færa fyrir því að þeir flytji inn í landið ýmiss konar atvinnustarfsemi svo og að sjálfsögðu nýja þekkingu og reynslu. Í því sambandi getum við litið í kringum okkur til nágrannaþjóða okkar og séð hvernig þær hafa brugðist við og hagað sér á þessu sviði. Þær hafa gert sérstakt átak í því að selja sína þekkingu og kunnáttu í atvinnulífinu til annarra þjóða í allt öðrum og miklu meira mæli en okkur hefur tekist að gera hingað til.

Við þurfum að skapa íslenskum aðilum með margvíslega þekkingu á hinum ýmsu sviðum aðstöðu til að flytja út hugvit sitt, reynslu og menntun. Erlend verkefni, sem unnin eru af íslenskum aðilum, stundum að verulegu leyti hér heima á Íslandi, eru vel til þess fallin að auka atvinnutækifærin og fjölbreytni starfsins og laða að hæfileikamenn sem annars mundu e.t.v. setjast að erlendis, t.d. að loknu námi sínu, hefðu þeir ekki starfsvettvang hér heima.

Margt fleira má að sjálfsögðu benda á sem áhugavert kann að reynast ef okkur tekst að skapa okkur nýja markaði á þessu sviði. Í því sambandi vil ég nefna að í kjölfar ráðgjafar og verktakastarfsemi hvers konar fylgir aukin eftirspurn eftir ýmsum iðnaðarvörum frá því landi sem veitt hefur ráðgjöfina.

Í öðru lagi má nefna að við störf erlendis fæst reynsla á ýmsum sviðum atvinnulífsins sem síðar gæti komið að gagni við úrlausn verkefna innanlands.

Í þriðja lagi skapast samband við erlend fyrirtæki, verkfræðinga og fyrirtæki þeirra, svo og ýmiss konar sérfræðinga, bæði með samstarfi við þessa aðila og einnig í samkeppni við þá. Slík sambönd munu síðar styrkja aðstöðu íslenskra sérfræðinga'þegar leysa þarf af hendi vandasöm verkefni hér heima. Þau munu efla gæði íslenskrar verkfræði og verkmenningar, jafnframt því sem slíkt drægi úr áhrifum og störfum erlendra verkfræðinga að verkefnum hérlendis. Á þann hátt ætti að sparast gjaldeyrir og margvísleg útgjöld í tímans rás.

Í fjórða lagi má nefna að ef okkur tekst vel til má gera ráð fyrir því að sala á þessari sérþekkingu okkar erlendis sé arðvænlegri en vinna við ýmis sambærileg störf hér innanlands. Dæmi eru um meira en tvöfaldan þjónustutaxta á tímavinnu sérfræðinga eða um 60 Bandaríkjadali á klukkustund borið saman við 27 dali hér. Með einföldum dæmum sem byggð eru á reynslu nágranna okkar, t.d. Finna, á þessu sviði má reikna með að íslenskir verkfræðingar gætu skapað gjaldeyristekjur sem næmu hundruðum millj. kr. á ári hverju ef við gefum þessum málum nægan gaum og snúum okkar í alvöru að þessum mörkuðum.

Þá má til gamans velta því fyrir sér að kostnaður við verkfræðistörf er að langmestu leyti í íslenskum krónum, þannig að þóknunin fyrir þjónustu af þessu tagi skilar sér því sem næst öll í nettógjaldeyristekjum í þjóðarbúið ef undan er skilinn kostnaður við menntun verkfræðinga erlendis á námsárum. Hér er því sannarlega til einhvers að vinna. Á ráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Nairobi 1981 um nýjar og endurnýtanlegar orkulindir í heiminum kom m.a. fram að það fjármagn sem áætlað er að þurfi fram til ársins 1990 til að standa straum af kostnaði við rannsóknir, þjálfun, frumathuganir og verkhönnun við undirbúning að nýtingu orkulinda í þróunarlöndunum nemur samtals 14.2 milljörðum Bandaríkjadala. Hér er því gífurlega stór markaður fyrir verkfræðinga og aðra sérfræðinga. Starfsemi þessi ætti því að geta verið gjaldeyrisaflandi ekki síður en önnur útflutningsstarfsemi og sölustarfsemi á erlendum vettvangi.

Í fimmta lagi vil ég benda á að með útflutningi á hugviti er lagður grundvöllur að nýrri útflutningsatvinnugrein. Við Íslendingar höfum til skamms tíma litið svo á að lífsafkoma okkar byggðist fyrst og fremst á þeim auðlindum sem felast í landinu sjálfu og hafinu umhverfis það svo og orkunni sem við búum yfir, bæði í fallvötnum og jarðhita. Að undanförnu hefur athygli manna hins vegar beinst meira og meira að þeirri auðlindinni sem eðlilegast væri þó að telja upp fyrsta, þ.e. orkunni sem felst í manninum sjálfum, hugvitinu, þekkingunni og reynslunni.

Eins og nú háttar í þjóðarbúskap okkar má telja að þeir atvinnuvegir, landbúnaður og sjávarútvegur, sem mest byggja á landsgæðum og hafinu, hafi nokkurn veginn nýtt þær auðlindir svo sem aðstæður leyfa, vonandi þó aðeins um stundarsakir. Við vitum að Ísland býr yfir mikilli orku og það má teljast með ólíkindum í þessum orkusvelta heimi ef okkur tekst ekki fyrr en síðar að afla markaða fyrir þessa orku okkar á erlendum vettvangi, en eins og sakir standa virðist ekki um auðugan garð að gresja á því sviði. Það virðist því ýmislegt vera mótdrægt okkur í atvinnulegu tilliti um þessar mundir og því full ástæða og nauðsyn að hefja af miklum krafti nýsköpun í uppbyggingu atvinnulífsins á sem flestum sviðum. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um það að þessu sinni utan það sem snertir beint efni þessarar þáltill. og þar vil ég leggja áherslu á að við verðum að leita markaða fyrir það sem ég hef leyft mér að kalla hugvit.

Hugvitið er sú auðlind sem við höfum, a.m.k. hingað til, lítt hugleitt að geti verið markaðsvara eitt og sér. Aðrar þjóðir hafa hins vegar komist að þeirri niðurstöðu að miklir möguleikar séu fyrir sölu á hugviti, þ.e. reynslu og þekkingu sem menn hafa skapað sér í gegnum tíðina. Við Íslendingar höfum ekki gefið því nægan gaum að selja okkar reynslu og þekkingu en höfum hins vegar á undanförnum árum keypt erlendis frá margvíslega þekkingu sem í mörgum tilfellum hefur ekki verið til staðar hér á landi. Þó gæti verið álitamál í sumum tilvikum a.m.k., t.d. á sviði tækniþekkingar, hvort ekki hafi verið leitað langt yfir skammt. Þó við eigum enn eftir að sækja margvíslega þekkingu til annarra landa er mál til komið að brjóta í blað og huga að því með hvaða hætti við getum gert okkar hugvit að markaðsvöru erlendis. Merkileg þekking er lítils virði ef enginn vill nýta hana og okkur tekst ekki að selja hana.

Ekki leikur nokkur vafi á því að Íslendingar búa yfir reynslu og þekkingu á ýmsum sviðum sem hagnýta mætti í þágu annarra þjóða. Þetta á áreiðanlega bæði við um útgerð og fiskvinnslu og ekki síst um hvers konar tækniþekkingu á sviði jarðhita. Einnig má nefna þá reynslu sem við höfum fengið vegna framkvæmda við vatnsaflsvirkjanir á undanförnum árum. Þá hafa einnig orðið miklar framfarir í almennum iðnaði, t.d. við úrvinnslu landbúnaðarafurða, í prjónaiðnaði, skinnaiðnaði og sútun. Veiðarfæragerð er vel þróuð og komin á hana mikil reynsla. Þá vil ég benda á að í þessu harðbýla landi okkar höfum við rekið öflugan landbúnað við hin erfiðustu skilyrði og í landbúnaði höfum við hvað mesta og lengsta reynslu. Ég er ekki í nokkrum vafa um að íslenskir landbúnaðarráðunautar hafa öðlast mjög góða þekkingu og dýrmæta reynslu í störfum sínum sem án efa gæti nýst öðrum þjóðum og einmitt við þær aðstæður sem nú eru í okkar landbúnaði, þegar við þurfum að draga úr þeim greinum sem við höfum stundum kallað hefðbundnar, þ.e. sauðfjárrækt og nautgriparækt, þá finnst mér ekki ólíklegt að þekkingu og starfsreynslu ráðunautanna okkar á þessu sviði mætti nýta í þágu annarra þjóða þó að skilyrði þar geti að sjálfsögðu verið nokkuð með öðrum hætti en hér á landi.

Íslendingar eiga aðild að Norræna verkefnaútflutningssjóðnum sem stofnaður var árið 1982 og starfar í náinni samvinnu við Norræna fjárfestingarbankann. Sjóðurinn veitir norrænum fyrirtækjum áhættufjármagn til að kanna möguleika þeirra á að komast inn á markaði í þróunarlöndunum. Áhersla hefur einkum verið lögð á þrjú svið í starfsemi sjóðsins. Það eru tæki og búnaður til sjávarútvegs, landbúnaðar og orkumála. Íslendingar hafa ýmislegt fram að færa á öllum þessum sviðum og getur sjóðurinn því orðið þýðingarmikill íslenskum hagsmunum. Grundvallarþáttur í starfsemi sjóðsins er að styðja norræn fyrirtæki og samtök við gerð skilyrða- og arðsemisathugana í tengslum við alþjóðleg verkefni. Til að styrkja fyrirtæki við öflun nýrra verkefna í þróunarlöndunum gefur sjóðurinn þeim kost á áhættufjármagni, allt að helmingi kostnaðar. Ef verkefni tekst endurgreiðir fyrirtækið það fé sem sjóðurinn veitti. Leiði athugun fyrirtækisins hins vegar ekki til neins fellur endurgreiðslan niður, þ.e. fyrirgreiðslan breytist í beinan styrk.

Nokkrir íslenskir aðilar hafa þegar fengið styrk eða stuðning frá Norræna verkefnaútflutningssjóðnum. Má þar nefna verkfræðifyrirtækið Virki sem er hlutafélag nokkurra verkfræðistofnana, Ráðgjöf og hönnun hf. og Slippstöðina á Akureyri svo að eitthvað sé nefnt. Auk þessa hefur Útflutningsmiðstöð iðnaðarins svo og einstakir verkfræðingar hlotið styrki úr þessum sjóði.

Framkvæmdastjóri Virkis hf., Andrés Svanbergsson verkfræðingur, hefur sagt mér að fjölmargir Íslendingar hafi þegar haft vinnu af þessum verkefnum og sú vinna hafi að meiri hluta til verið innt af hendi hér heima á Íslandi. Það staðfestir það, sem ég lagði áherslu á í upphafi máls míns, að útflutningur á þekkingu þarf ekki að þýða útflutning á mannafla, heldur skapar þvert á móti ný atvinnutækifæri hér á landi og aukna fjölbreytni í atvinnulífinu á ýmsan máta. Kem ég betur að því síðar.

Telja má líklegt að á sviði jarðhita standi Íslendingar best að vígi til að flytja út sína tækniþekkingu. Eðlilegt er að Orkustofnun fylgist vel með þessum málum þar sem flestir jarðvísindamenn landsins með reynslu á sviði jarðhitarannsókna starfa einmitt hjá þeirri stofnun. Undir handarjaðri Orkustofnunar, ef svo má að orði komast, starfar merk stofnun sem heitir Jarðhitaskóli háskóla Sameinuðu þjóðanna á Íslandi. Orkustofnun sér um rekstur skólans og kennarar eru sérfræðingar frá Orkustofnun, Háskóla Íslands, Náttúrufræðistofnun Íslands og verkfræðistofnunum. Styrkþegar Háskóla Sameinuðu þjóðanna fá sérhæfða starfsþjálfun á hinum ýmsu sviðum jarðhitarannsókna og nýtingar. Skóli þessi var stofnaður árið 1979 og síðan hafa fjölmargir styrkþegar frá orkustofnunum og leiðandi virkjunaraðilum í Afríku, Asíu og Mið-Ameríku verið hér í þjálfun 6–8 mánuði hver um sig. Skólinn er kostaður af Sameinuðu þjóðunum og íslenska ríkinu.

Tvímælalaust má telja starfsemi Jarðhitaskóla háskóla Sameinuðu þjóðanna eina bestu auglýsingu og markvissasta framtak íslenskra stjórnvalda til að auka hróður íslenskrar jarðhitaþekkingar erlendis. Á ferðum sínum víðs vegar um heim við val á styrkþegum hafa forstöðumaður og starfsmenn skólans fengið glögga mynd af því hvernig aðrar þjóðir fara að því að koma sérfræðiþekkingu sinni á markað. Reynt var að koma þessari vitneskju á framfæri við opinbera aðila og einkafyrirtæki hér á landi, sem vinna að því að afla markaðar erlendis fyrir tækniþekkingu á sviði jarðhita, og stuðla að samstarfi þeirra um útflutning á jarðhitaþekkingu. Því gekkst Orkustofnun fyrir fundi um þessi málefni hinn 8. febr. 1984. Á fundi þessum komu fram margar athyglisverðar upplýsingar sem rétt er að gefa nánari gætur.

M.a. kom þar fram að ráðgjafarfyrirtæki á Norðurlöndunum hafa sótt mjög á erlenda markaði undanfarin 15 ár með góðum árangri. Um 40% verkefna finnskra verkfræðinga eru erlendis, mest í Sovétríkjunum, en 25–30% verkefna verkfræðinga annars staðar á Norðurlöndum eru erlendis. Íslenskar verkfræðiskrifstofur eru hins vegar langt á eftir í þessu tilliti þrátt fyrir góða viðleitni einstakra aðila.

Meðal ýmissa þjóða hefur tíðkast að veita þróunaraðstoð með fjárframlögum eða hagstæðum lánum með skilyrðum um að sérfræðivinna og tækjabúnaður séu keypt frá viðkomandi þjóð. Á fyrrnefndum fundi Orkustofnunar kom fram að þetta er ýmist gert með tvíhliða samningum milli þjóða um þróunaraðstoð eða með því að styrktarþjóðin leggur ákveðna fjárhæð til alþjóðastofnunar til sérstaks verkefnis í tilteknu þróunarlandi, en á móti kemur fjárframlag frá alþjóðastofnuninni og þróunarlandinu. Oft skipta upphæðir í slíkum þróunarverkefnum milljónum dollara og eru því töluvert hærri en þær takmörkuðu fjárveitingar sem Íslendingar veita til þróunaraðstoðar. Slík þróunarverkefni koma þróunarlandinu að sjálfsögðu mjög til góða, skapa umtalsverð verkefni fyrir ráðgjafarfyrirtæki, verktaka og iðnfyrirtæki í þróaða landinu, en gera fyrirtækjum í öðrum löndum, eins og t.d. Íslandi, illmögulegt að koma tækniþekkingu sinni á markað. E.t.v. ættu Íslendingar að hugleiða að eyrnamerkja framlög til alþjóðastofnana jafnframt því að auka þarf slík framlög. Dæmi frá löndum eins og Nýja-Sjálandi benda til þess að þegar til lengri tíma er litið geti framlög til þróunarlanda skilað sér að fullu til baka í formi viðskipta. En það er nauðsynlegt að íslensk fyrirtæki leiti uppi slík verkefni á erlendri grund því að þau fást ekki að öðrum kosti. Það kom fram á fundinum að danska hitaveitusambandið hefur siglt í kjölfar styrkþega Jarðhitaskóla háskóla Sameinuðu þjóðanna frá Kína eftir þjálfun þeirra hér á Íslandi til að afla verkefna fyrir dönsk ráðgjafarfyrirtæki og iðnfyrirtæki við hönnun og byggingu hitaveitna í Kína.

Á þessu sviði verðum við að efla okkar starfsemi að miklum mun. Nauðsynlegt er að íslensk fyrirtæki hafi samstarf um verkefnaöflun erlendis fremur en samkeppni vegna þess hvað við erum fáir og smáir og hversu verkefnið er brýnt fyrir okkur og nauðsynlegt að vel takist til þegar við reynum að koma okkur á framfæri á þessum erlendu mörkuðum. Einnig er mikilvægt að fyrirtækin hafi gott samstarf við Orkustofnun og að Orkustofnun láti í té sérfræðinga og jafnvel tæki til þátttöku í verkefnum erlendis.

Ég hef hér að framan einkum rætt um útflutning á þekkingu á sviði jarðhita og jarðhitarannsókna og markað fyrir slíka þekkingu í þróunarlöndunum. En þróunarlöndin leita eftir margvíslegri annarri þekkingu en á þessu sviði. Má þar að sjálfsögðu nefna fiskveiðarnar og fiskvinnsluna sem við ættum að hafa góða möguleika á að veita þeim upplýsingar um. Þar vantar einnig þekkingu á sviði heilbrigðisþjónustu, uppbyggingu menntastofnana, vegagerð, hafnargerð, flugumferðarþjónustu, símaþjónustu og margt fleira mætti upp telja. Ekki er vafi á því að Íslendingar búa yfir mjög góðri þekkingu á flestum þessum sviðum og ættu því einnig þar að hafa góða möguleika til að selja sína þekkingu.

Þá er það jafnvel svo, að þróunarlöndin vilja helst kaupa alla þessa þætti í einum pakka, ef svo má segja. Pakkinn felst þá í því að kenna fiskveiðarnar og fiskvinnsluna, útvega til þess skip og báta, byggja upp fiskvinnslustöðvarnar, tækjavæða þær, fá upplýsingar um hvernig vinna á afurðirnar og síðast en ekki síst hvernig á að koma þeim á markaðinn. Þetta má kalla allsherjarúttekt á öllum þáttum atvinnugreinarinnar, allt frá fiskrannsóknum til markaðsmála.

Þá er einnig til í dæminu að byggja þurfi höfnina, leggja þurfi vegi, byggja þjónustustofnanir, svo sem fyrir heilbrigðisþjónustu og skóla, jafnvel íbúðarhús og nánast allt sem til þarf svo að mannlífið geti gengið eðlilega fyrir sig á þessum stöðum. Vafalaust er þetta nokkuð stór pakki fyrir íslenska aðila að takast á við, en þó má vel hugsa sér, með góðri samvinnu og samstarfi margra aðila sem þekkingu hafa á hinum margvíslegu sviðum og jafnvel samstarfi við fyrirtæki og stofnanir í nágrannalöndunum, að takast megi að leysa verkefni af þessu tagi.

Ef Íslendingar tækju að sér verkefni eins og hér hefur verið lýst þarf að koma til samstarf opinberra stofnanna, svo sem Hafrannsóknastofnunar, Vita- og hafnamálastofnunar, Vegagerðarinnar, menntastofnana, svo sem Sjómannaskólans, annarra hagsmuna- og áhugaaðila, eins og bankastofnana, verkfræðistofnana, frystihúsa og fjölmargra verktaka sem síðar ynnu að framkvæmd og framgangi málsins.

Vissulega væri þetta mjög áhugavert verkefni og staðreyndin er að þau eru fyrir hendi. Með útflutningsstarfsemi af þessu tagi má að sjálfsögðu segja að farið sé að selja fleira en sjálfa þekkinguna og reynsluna þó að vafalaust sé einnig erfitt að draga þar skýr mörk á milli — hvað er þekking og hvað er reynsla og hver er sú starfsemi önnur sem af hugvitinu leiðir? — en vissulega er það allt af hinu góða ef okkur tekst að koma sem flestum þáttum íslensks atvinnulífs á markað erlendis.

Sannleikurinn er sá að okkar heimamarkaður er mjög lítill og því brýnt fyrir okkur að leita allra tiltækra leiða til að stækka hann og auka. Við búum yfir þekkingunni. Við höfum í allflestum tilfellum nægan tækjakost til að sinna hinum ýmsu verkefnum þó stærri tæki til meiri háttar mannvirkjagerðar sé trúlega ekki skynsamlegt að flytja milli landa.

Þó að við séum fámenn þjóð á eyju langt norður í höfum er það svo að við búum yfir góðum samgöngum sem gera okkur kleift að hafa samskipti við aðrar þjóðir. Sannleikurinn er einnig sá að ýmsir aðilar, einkum í hinum svokallaða nýfrjálsa heimi, vilja frekar samskipti við smáþjóðir fremur en stórar þar sem þeir telja að þá séu minni líkur á tilraunum til einhvers konar íhlutunar um innanríkismálefni.

E.t.v. lítum við einnig langt yfir skammt ef við einblínum á verkefni í þróunarlöndunum og gætum litið okkur nær í markaðsöflun fyrir okkar kunnáttu og þekkingu. Við höfum t.d. átt fremur lítil samskipti við næstu nágranna okkar, Grænlendinga og Færeyinga, þó að e.t.v. megi segja að nokkur breyting hafi orðið þar á á allra seinustu árum. Við eigum að sjálfsögðu sameiginlega hagsmuni með þessum þjóðum hvað varðar fiskveiðar og fiskvinnslu og sölu sjávarafurða. En það er ekki síður hinn tæknilegi þáttur fiskveiðanna og fiskvinnslunnar sem hér gæti skipt máli.

Grænlendingar og Færeyingar sækja tækniþjónustu hvað mest til Danmerkur. Ég tel ekki nokkurn vafa leika á því að við Íslendingar gætum veitt þessum nágrönnum okkar verulegan hluta af þeirri tækniþjónustu. Þessari þjónustu mundu fljótt fylgja aðrir þættir samskipta, svo sem á sviði verslunar og viðskipta. Jafnvel kæmi til greina samskipti á sviði heilbrigðisþjónustu og menntamála svo eitthvað sé nefnt. Mér er kunnugt um að leitað hefur verið eftir samvinnu við Grænlendinga. Þar hafa verið uppi hugmyndir um þjónustu og ráðgjöf á sviði fiskveiða og fiskvinnslu, einnig varðandi skipasmíðar og skipaviðgerðir svo og upplýsingamiðlun og ráðgjöf varðandi úrvinnslu á landbúnaðarafurðum, bæði vinnslu úr ull og skinnasútun.

Samgöngur eru auðvitað lykilatriði í samvinnu á þessu sviði. Þyrfti að efla og bæta samgöngurnar milli Íslands og Grænlands til að þessi fyrirhugaða samvinna, sem vissulega yrði báðum aðilum til góðs, gæti orðið að veruleika.

Í gær, hinn 20. febr., stóð Stjórnunarfélag Íslands fyrir ráðstefnu sem hafði yfirskriftina „Sala á íslenskri þekkingu og hugviti erlendis.“ Ráðstefna þessi var í alla staði hin fróðlegasta. Þar voru haldin mörg framsöguerindi og síðan voru pallborðsumræður um stöðu þessara mála og hvað helst mætti verða til úrbóta til að efla þessa starfsemi sem allir voru sammála um að væri mjög þýðingarmikill þáttur í eflingu íslensks atvinnulífs og aukinni útflutningsstarfsemi. Þar kom m.a. fram að nokkur íslensk fyrirtæki hafa þegar haslað sér völl á erlendum mörkuðum með sölu á sinni þjónustu.

Verkfræðifyrirtækið Virkir, sem áður hefur verið nefnt, hefur t.d. unnið við hönnun og ráðgjöf suður í Asíu og Afríku og einnig bæði í Ungverjalandi og Grikklandi og hefur þessi starfsemi þegar skilað af sér verulegum gjaldeyristekjum. Þá má einnig nefna að fyrirtækið Ráðgjöf og hönnun hf. hefur verið í samstarfi við ýmis finnsk fyrirtæki og finnska aðila og selt sína þjónustu og ráðgjöf í Austur-Evrópu og Rússlandi. Einkum hafa þeir haft samskipti við fyrirtækið Rauma-Repola í Finnlandi sem er mjög stórt, með um 20 000 manns í vinnu og viðskiptasambönd um allan heim. Vinna þeir nú við sameiginlegt markaðsátak í Austur-Evrópu með öðrum fyrirtækjum frá Finnlandi, Svíþjóð og Noregi og nýtur það verkefni aðstoðar Norræna verkefnaútflutningssjóðsins. Í þessu verkefni er það íslenski aðilinn sem er mest ráðandi bæði um frumkvæðið og stjórnunina. Þetta sýnir að nú þegar hafa íslenskir verkfræðingar hafið brautryðjendastarf á þessu sviði og ber að virða það framtak.

Þá komu einnig fram á ráðstefnu þessari mjög merkilegar upplýsingar um hversu margfalda mætti útflutningsverðmæti á ýmsum þeim framleiðsluvörum sem við seljum lítt unnar úr landi. Stendur þar kannske fyrst og fremst á því að efla sölumennskuna eða markaðsmálin. Aðrir þættir, svo sem þekkingin og tækjakosturinn, fyrir utan sjálft hráefnið, eru fyrir hendi, en markaðssetninguna vantar.

Að lokun vil ég draga saman nokkra þá þætti sem ég held að helst þurfi að leggja áherslu á í þeirri athugun sem þáltill. gerir ráð fyrir að ríkisstj. láti framkvæma. Það þarf fyrst og fremst gott samstarf hins opinbera við þá aðila sem þegar hafa haslað sér völl á þessu sviði eða eru nú að kanna möguleika á sölu íslenskrar þekkingar og hugvits erlendis. Nauðsynlegt er að þar vinni saman fulltrúar frá viðskrn., utanrrn., iðnrn. svo og sjútvrn. og landbrn. og sérfræðingar á hinum ýmsu sviðum sem vinna í opinberri þjónustu. Ríkisvaldið þarf að skapa aðstæður fyrir þessa starfsemi, en þarf ekki endilega að vera beinn þátttakandi. Stjórnkerfið þarf að vera aðgengilegt. Ákvarðanir þurfa að vera skjótar og afgreiðsla mála fljótvirk. Skipuleggja þarf síðan samstarf þessara tilkvöddu stjórnvalda og útflutningsaðilanna, þ.e. annarra hagsmuna- og áhugaaðila, um verkefnið. Þá er og nauðsynlegt að hafa góðan aðgang að fjármagni sem jafnframt þarf að hluta til að vera áhættufjármagn. Til þess þarf að efla aðild Íslendinga að alþjóðastofnunum, svo sem þróunarbönkum og bönkum og þróunarsjóðum hvers konar. Þjálfa þarf mannafla í alþjóðlegum samskiptum. Taka þarf til athugunar skattamál fyrirtækja og einstaklinga sem starfa erlendis í því skyni því ávallt er hætta á tvísköttun og trúlega þyrftu að koma til sérstakir samningar til að koma í veg fyrir tvísköttunina. Þá þarf að endurskipuleggja og aðlaga menntakerfið að þörfum atvinnulífsins á þessu sviði. Jafnvel þyrfti að koma á kennslu í sölu- og markaðsmálum erlendis sem því miður virðist hafa verið nokkur hornreka í íslensku menntakerfi á undanförnum árum. Þá þarf tungumálakennsla einnig að vera mjög góð, þannig að við séum vel undir það búin að taka þátt í keppni um þessa mikilvægu markaði og vinna við þau verkefni sem til kunna að falla. Að lokum verður svo að leggja áherslu á nauðsyn þess að jafnvægi sé í efnahags- og atvinnulífinu, að gjaldmiðillinn okkar sé traustur. Vafalaust væri vel varið hluta af því fjármagni sem nú er talað um að verja í nýsköpun í atvinnulífinu til að efla markaðs- og sölumál okkar Íslendinga á erlendum vettvangi.

Herra forseti. Að loknum þessum hluta umr. legg ég til að till. verði vísað til hv. atvmn.