21.02.1985
Sameinað þing: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3108 í B-deild Alþingistíðinda. (2593)

122. mál, sala á íslenskri sérþekkingu erlendis

Björn Dagbjartsson:

Herra forseti. Ég legg hér nokkur orð í belg til að taka undir meginefni þessara till. Ég álít að hér sé mjög merkilegur vaxtarbroddur íslenskrar atvinnustarfsemi á ferðinni og að það beri að styðja hann með öllu afli. Ég hef fengist við það nokkra undanfarna mánuði að undirbúa félagsstofnun sem hefur það að markmiði að flytja út íslenska sérþekkingu á sviði sjávarútvegs. Fyrirtæki þessu, sem á undirbúningsstigi hefur hlotið nafnið Icelandic Fisheries Consultants, ICEFISCO, er ætlað að gera verðmæti á erlendum vettvangi úr þeirri þekkingu og reynslu sem við Íslendingar höfum yfir að ráða. Þessa þekkingu viljum við láta af hendi án þess þó að skaða hagsmuni íslenskra atvinnuvega. Meginhugmyndin á bak við það er að við höldum engri þekkingu fyrir okkur eina nú orðið og það sé skynsamlegra að selja hana þar sem og þegar markaður er fyrir hendi en að láta hana af hendi ókeypis eins og nú tíðkast. Eins og bráðabirgðanafn fyrirtækisins bendir til var í upphafi gert ráð fyrir að fyrst og fremst verði um að ræða þekkingu á íslenskum sjávarútvegsmálum. Það er þó ekkert því til fyrirstöðu að taka fleiri greinar með ef ástæða þykir til og þeim möguleikum verður að sjálfsögðu haldið opnum.

Á undanförnum árum hefur iðulega verið spurst fyrir um hvort íslensk fyrirtæki gætu tekið að sér ákveðin verkefni erlendis. Að jafnaði hafa þau verkefni verið þannig að þau íslensku ráðgjafarfyrirtæki sem til eru hafa ekki haft nægjanlega breitt reynslusvið og ekki nægjanlegan mannafla til að taka þau að sér. Þess vegna kom upp sú hugmynd að ráðgjafarfyrirtæki og einstaklingar með sérþekkingu mynduðu starfshóp sem gæti sameiginlega tekið að sér slík verkefni. Nánari athugun leiddi í ljós að slíkt samstarf þarf að bindast í fyrirtæki. Til þess að svona fyrirtæki geti tekið að sér veigamikil verkefni í sjávarútvegi er nauðsynlegt að ráða yfir þekkingu á mjög mörgum sviðum, eins og t.d. í haffræði, sjávarlíffræði, veiðitækni og á tækjum, skipagerðum, hafnaraðstöðu, fiskvinnslu, vörudreifingu, markaðssetningu o.fl. Þeir einstaklingar sem tekið hafa þátt í undirbúningi þessa fyrirtækis hafa þekkingu á öllum þessum sviðum nema það vantar e.t.v. enn þá nokkuð á að bestu ráðgjafar á sviði markaðsmála séu til reiðu. Það er ekkert því til fyrirstöðu að bæta við fleiri þátttakendum ef þurfa þykir.

Þess er ekki að vænta að um samfellt starf yrði að ræða hjá þessu fyrirtæki á erlendum vettvangi. Þess vegna er gert ráð fyrir að allir þeir sem taka þátt í þessu fyrirtæki gegni áfram störfum hver hjá sínu fyrirtæki, en ICEFISCO gæti tímabundið náð saman þeim starfshópi sem nauðsynlegur.er hverju sinni.

Annar megintilgangur með stofnun þessa fyrirtækis er að safna þekkingu og reynslu erlendis til hagsbóta fyrir íslenskt atvinnulíf og þá ekki síst fyrir íslenskan sjávarútveg. Það færi ekki hjá því að þeir sem kunna að starfa fyrir fyrirtækið öfluðu sér margs konar reynslu og þekkingar sem ekki væri auðvelt að afla á annan hátt. Það má nefna þar til veiðar og vinnslu á ýmsum sjávarafla sem við ekki þekkjum hér. Þá reynslu og þekkingu væri síðar hægt að nota sér við undirbúning og vinnslu ónýttra fisktegunda sem tekin yrði upp eða vegna veiða á fjarlægum miðum sem oft hafa komið hér til umræðu.

Það fer ekki hjá því að stofnun fyrirtækis eins og þessa kostar peninga. Því er í undirbúningi ásamt því að stofna fyrirtækið, sem væntanlega gerist á næstu vikum, stofnun eins konar fjármögnunarfyrirtækis sem mundi hafa að markmiði að fylgja þessari starfsemi úr hlaði með fjárframlögum. Því er ekki að neita að þá höfum við horft vissum vonaraugum til þess þróunarfyrirtækis sem stjórnarflokkarnir hafa nefnt í sínum viðræðum undanfarna mánuði að til stæði að stofna og taka ætti þátt í nýsköpun atvinnulífsins.

Leggja má á það meiri áherslu en gert hefur verið að markaðssetning á sérþekkingu er hvað veigamestur þáttur í því að þess háttar atvinnustarfsemi geti tekist. Ég vildi mega ljúka máli mínu með því að vitna í erindi sem Steinar Berg Björnsson forstjóri Lýsis hf. flutti í gær á fundi Stjórnunarfélagsins og fjallaði um þátt fyrirtækja í nýsköpun atvinnuveganna. Hann segir m.a., með leyfi forseta:

„Ég get ekki skilið við þetta verkefni án þess að hamra enn á mikilvægi sölumála fyrir nýsköpun í atvinnurekstri. Það er sama hversu miklu fjármagni er varið í rannsóknarstarfsemi og vöruþróun, að án öflugrar og skipulegrar markaðsstarfsemi skilar þessi fjárveiting sér aldrei. Við verðum alltaf að hafa það í huga að varan er einskis virði ef við fáum engan til þess að kaupa hana á því verði sem við þurfum að fá fyrir hana til þess að geta haldið sömu lífskjörum og þær þjóðir sem við viljum vera samstíga.

Það er mér líka umhugsunarefni,“ segir Steinar Berg Björnsson, „að ég heyrði einhvers staðar að um það bil 6 þús. manns ynnu við innflutningsverslun landsmanna, en aðeins 250–300 manns ynnu við okkar útflutningsstarfsemi. Nýsköpun verður að gerast í fyrirtækjunum sjálfum. Hún tekur langan tíma og mikla vinnu og henni lýkur aldrei. Hins vegar verður ekki um neina nýsköpun að ræða nema við nýtum þá þekkingu sem skólakerfi landsins og rannsóknir og þróunarstofnanir þess hafa upp á að bjóða. Í nýsköpun atvinnulífsins eru engar töfralausnir til, eins og loðdýrarækt, fiskrækt, lífefnatækni, svo að eitthvað sé nefnt. Þessir atvinnuvegir fara ekki að skila arði fyrr en eftir margra ára skipulegt þróunar- og uppbyggingarstarf og þá því aðeins að við nýtum á kerfisbundinn hátt alla þá þekkingu, bæði tæknilega, stjórnunarlega og markaðslega, sem við höfum yfir að ráða.

Raunhæfasti þáttur atvinnuveganna í nýsköpun tel ég að sé að breyta þekkingu í söluhæfa vöru, einbeita sér að verkefnum sem við ráðum við og eru framhald og viðbót við þá þekkingu og reynslu sem þegar er fyrir hendi. Jafnframt tel ég að raunhæfasti þáttur hins opinbera sé að skapa það umhverfi fyrir þessa þróun sem nauðsynlegt er, en gera sem minnst af því að marka stefnu í þessum efnum.“

Ég vil, herra forseti, gera þessi síðustu orð Steinars Berg að mínum.