21.02.1985
Sameinað þing: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3119 í B-deild Alþingistíðinda. (2599)

168. mál, langtímaáætlun um jarðgangagerð

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Eins og hv. flm. þessarar till. kom að í máli sínu er hér um stórmál að ræða og mál sem vissulega verður ekki leyst á næstu árum. Áhugi manna á jarðgöngum er að vaxa og er þó mikill fyrir, t.d. á Austurlandi.

Ég vil taka undir þessa till. efnislega og tel að hér sé hreyft þörfu máli. Hér á landi hafa verið grafin tvenn jarðgöng á síðari árum og þar hefur verið við ýmsa byrjunarörðugleika að etja. E.t.v. hafa þeir byrjunarörðugleikar dregið kjarkinn úr mönnum til áframhaldandi framkvæmda. En hitt er víst að þær kostnaðartölur sem sést hafa yfir jarðgangagerð liggja langt ofan við þær upphæðir sem hefur verið varið til vegamála til þessa. Það má nefna sem dæmi að áætlaður kostnaður við jarðgöng til Vopnafjarðar frá Héraði er um 600 millj. kr. Eðlilegt er að mönnum vaxi það nokkuð í augum. Hitt er svo annað mál að kostnaðurinn má ekki verða til þess að sá möguleiki sé afskrifaður. Nauðsynlegt er einnig að halda rannsóknum og allri öflun upplýsinga í gangi eins og mögulegt er og fá upplýsingar um notagildi jarðganga, fá upplýsingar um viðhald þeirra, hvað jarðgöng spara í snjómokstri og síðast en ekki síst að fylgjast með öllum þeim tækjabúnaði sem tiltækur er til slíkra framkvæmda, fylgjast með tækninýjungum hvað varðar jarðgangagerð og fylgjast með þeirri reynslu sem við höfum fengið á seinni árum við virkjanaframkvæmdir, en þar höfum við fengið dýrmæta reynslu á þessu sviði sem ætti að nýtast okkur. Ég er sannfærður um að verkkunnátta á þessu sviði hefur vaxið mjög á síðari árum.

Ég vil taka sérstaklega undir þann kafla í till. sem fjallar um byggðaþróun og félagsleg sjónarmið. Sá þáttur er mjög afgerandi í þessu máli. Þannig hagar til á Austurlandi að erfiðir fjallvegir skera sundur fjölmenn byggðarlög. Við vitum það vel, sem þurfum að ferðast um þessar byggðir á öllum tímum árs, og kannske ekki síst við stjórnmálamenn sem þurfum oft að ferðast um á veturna, að þetta slítur byggðarlögin sundur félagslega.

Á Austurlandi eru ein jarðgöng, Oddsskarðsgöngin.

Ég tek undir það, sem kom fram hjá hv. 2. þm. Austurl. áðan, að Oddsskarðsgöngin hafa þegar sannað gildi sitt og stóraukið samskipti milli byggðarlaga á Austurlandi í venjulegu árferði.

Jarðgangagerð á Austurlandi mundi þjappa byggðarlögunum þar mjög mikið saman. Aðstæður eru þannig þar. Hins vegar er hér um framtíðarmál að ræða. Eigi að síður er nauðsynlegt að halda vel vöku sinni í þessu efni og nauðsynlegt að einbeita sér að verkefnaröð í þessum málum. Þess vegna vildi ég taka efnislega undir till. sem hér er fram komin.