23.10.1984
Sameinað þing: 9. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 430 í B-deild Alþingistíðinda. (260)

Umræður utan dagskrár

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Það er rétt, sem hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson segir, að ég væri vís til að tala í hálftíma. Svo alvarlegir tímar eru í landinu af ýmsum ástæðum, ekki bara vegna þeirra sem nú sitja við völd heldur og annarra sem á undan hafa verið, að full ástæða væri til að tala lengi. En ég skal ekkert um það segja í byrjun hversu langorður ég verð. Ég skal reyna, herra forseti, að hafa ekki um þetta mjög mörg orð.

Það væri auðvitað hægt að segja ýmislegt í sambandi við þá þróun í samningsgerð og kjaramálum sem orðið hefur síðustu vikur. Ég er þeirrar skoðunar að það sé skylda hverrar þeirrar ríkisstj. sem vill rísa undir nafni að beita sér fyrir lausn og hafa áhrif á að sættir takist á vinnumarkaði, ekki síst undir þeim kringumstæðum sem verið hafa í þjóðfélaginu og eru nú. Ég dreg hins vegar mjög í efa að það hafi verið vilji núv. hæstv. ríkisstj. að stuðla að slíkri sátt. Það ætti ekki að þurfa að rifja hér upp með mörgum orðum það sem út var látið ganga að hálfu stjórnarherra: Ástandið væri þess eðlis að hógværar kauphækkanir væri einvörðungu hægt að láta í té launafólki. Hins vegar ætti að grípa til ýmissa annarra aðgerða til þess að tryggja kjör og bæta laun. — Það má kannske segja að við Vestfirðingar höfum verið of auðtrúa þegar við mátum stöðuna svo að hér væri rétt frá skýrt.

Það liggur ljóst fyrir að kröfugerð af hálfu launþegasamtaka í yfirstandandi deilum hefur verið með misjöfnum hætti. Mér hefur fundist á skorta í allri þeirri miklu umræðu sem átt hefur sér stað um samningamálin og um kjaramálin almennt að getið væri þeirrar kröfu sem var talin af öllum þeim sem um slíkt hafa tjáð sig hvað skynsamlegust í stöðunni eins og málum var háttað. Þá á ég við þá kröfugerð sem Alþýðusamband Vestfjarða lét frá sér fara — kröfugerð um að haldið yrði kaupmætti þeirra samninga sem gerðir voru í febr. s.l., einvörðungu kröfu um að staðið væri við þá samningsgerð sem hæstv. ríkisstj. var aðili að.

Maður skyldi ætla að í svo alvarlegri stöðu efnahagsmála gripu menn slíkan bjarghring fengins hendi. (Gripið fram í.) Auðvitað kemur flest skynsamlegt að vestan, hv. þm. Guðmundur J. Guðmundsson, hafir þú ekki vitað það fyrr. (Gripið fram í: Hann er að vestan. Láttu ekki svona.) Það er langt fram í ættir og varla teljandi orðið sem eimir eftir af því. — Eigi að síður standa menn frammi fyrir þeirri staðreynd að talsvert á annan mánuð hefur ekki verið rætt við þá samningsaðila sem gerðu kröfurnar á þessum nótum. Kannske á ég ekki að segja það, en eigi að síður er það svo, að mínu mati, að sú kröfugerð hafi verið nokkuð á þeirri línu sem hæstv. ríkisstj. taldi að væri mögulegt að semja um við þær kringumstæður sem nú eru. Nú er það svo að dauðvona maður grípur yfirleitt í björgunarlínu eða bjarghring. Núv. hæstv. ríkisstj. er ekki einu sinni með því lífsmarki að hún sjái sér fært að grípa í þann bjarghring eða þá björgunarlínu sem henni var send, á neyðarstundu kannske, þó að vestan væri. Svo aumt er það lífsmark, sá andardráttur sem nú er með núv. hæstv. ríkisstj., að það er ekki einu sinni svo að hún grípi til þessa hrings í sinni neyð. Út af fyrir sig má segja að stjórnarandstæðingur ætti ekki að harma það, en auðvitað hlýt ég sem jafnaðarmaður að setja þjóðarhagsmuni ofar öðru Ég er þeirrar skoðunar að hefðu stjórnvöld og vinnuveitendasambandsforustan viljað semja á skynsamlegum nótum hefði verið hægt að gera það fyrir tveimur mánuðum. Þetta sannar ásamt mörgu öðru að ekki var vilji fyrir því innan hæstv. ríkisstj. sjálfrar að semja á þeim nótum sem hún sjálf hafði talið að ætti að gera samninga á.

Ég skal taka það strax fram að ég hef verið og er fylgjandi því að reyndar verði nýjar leiðir í samningamálum. Ég er þeirrar skoðunar að það hefði, ekki hvað síst við þær kringumstæður sem nú eru, átt að reyna til þrautar leiðir skattalækkunar sem hefði verið hægt að úttæra á þann veg að tryggja betur en ég hygg að gert verði með háum prósentuhækkunum í kaupi raunhæfar kjarabætur — kjarabætur sem núv. ríkisstj. ætti a.m.k. erfiðara um vik að taka til baka um leið og samningar væru gerðir.

Núv. hæstv. ríkisstj. er ekki ein um það að ógilda kjarasamninga. Það hafa flestar ríkisstjórnir gert. En síst treysti ég því að undir handarjaðri núverandi forustumanna innan hæstv. ríkisstj. verði mikið kapp á það lagt að raungildi samninga haldist. Þess vegna held ég og er sannfærður um það að mikill meiri hluti launafólks, a.m.k. launafólks innan Alþýðusambands Íslands og Verkamannasambandsins, hefði fremur kosið að reyndar yrðu nýjar leiðir í samningamálum við þessar kringumstæður, leiðir skattalækkunar, leiðir sem hægt væri a.m.k. að gera sér vonir um að tryggðu betur kaupmátt og kjör þess fólks sem er verið að semja fyrir nú.

Mér sýnist að hæstv. ríkisstj. og Vinnuveitendasambandið samanlagt hafi lagt þær línur í samningsgerð nú sem a.m.k. torvelda mjög að hægt verði að fara þessa leið. Vinnuveitendasamband Íslands hlýtur að hafa lagt blessun sína yfir samningagerð bókagerðarmanna. Það getur vart annað verið. Með því er Vinnuveitendasambandið búið að hafna skattalækkunarleiðinni nema þá því aðeins að það líti svo á að hæstv. ríkisstj. sé reiðubúin til skattalækkunar umfram þá 20–25% kauphækkun sem samningar bókagerðarmanna innifela. Fróðlegt væri að fá um það upplýsingar frá hæstv. ríkisstj., frá t.d. hv. þm. Þorsteini Pálssyni sem ég veit að enn á mjög innangengt í herbúðir Vinnuveitendasambands Íslands, hvort menn líta svo á að það komi til, ef Vinnuveitendasambandið er búið að undirskrifa samninga bókagerðarmanna um 20–25% launahækkun, að ríkisstj. sé til viðræðu um skattalækkun umfram þetta. Ég held nefnilega, a.m.k. blasir málið þannig við mér, að Vinnuveitendasambandið ásamt ríkisstj. sé búið að hafna þessari leið, en það standi ekki á verkalýðshreyfingunni eða Verkamannasambandinu að fara þá leið til enda og fá úr því skorið hvað út úr slíku kynni að koma.

Ég spyr enn og vil beina máli mínu til hæstv. fjmrh. og hæstv. iðnrh. sem ekki eru í salnum, en kannske getur hæstv. forsrh. svarað fyrir þá báða: Er það ekki svo að fulltrúar, annars vegar fjmrn. og hins vegar iðnrn., í stjórn Orkubús Vestfjarða séu aðilar að þeim samningi sem gerður var á Ísafirði á dögunum? Ég vildi gjarnan fá svar við því, já eða nei. Þar er um að ræða, að ég held, þá kauptryggingu eða hvað sem menn vilja nefna slíkt sem hvað hagstæðust hefur náðst, skulum við segja, af þeim samningum sem mér vitanlega hafa verið gerðir núna. Og sé það svo að fulltrúar iðnrn. og fjmrn. séu í umboði hæstv. ríkisstj. aðilar að slíkum samningi er forskriftin gefin af hæstv. ríkisstj. Ég trúi því ekki fyrr en þá að ég stend frammi fyrir þeirri staðreynd að hæstv. ríkisstj. ætli fiskvinnslufólki, sjómönnum og öðru almennu verkafólki til lands og sjávar að búa við önnur kjör en þau sem búið er að semja um við bæjarstarfsmenn víðs vegar um landið og, ef rétt er, í umboði hæstv. ríkisstj. Það verður fróðlegt að fá úr því skorið með yfirlýsingu annaðhvort hæstv. forsrh. hér á eftir eða einhverra annarra hæstv. ráðh. hvort ekki sé rétt að líta svo á að fulltrúar ríkisvaldsins séu aðilar að þeim kjarasamningi sem gerður var á Ísafirði á dögunum og þá í gegnum stjórn Orkubús Vestfjarða. Ég veit ekki betur en a.m.k. starfsmenn séu búnir að samþykkja þennan samning, en ég skal ekkert um fullyrða hvort gagnaðilinn hefur um hann fjallað eða er búinn að afgreiða hann formlega. Eigi að síður ættu hæstv. ráðh. að geta upplýst hvort fulltrúar þeirra eru ekki aðilar að honum.

Þannig má segja að ríkisstj. sjálf og hennar aðalstuðningsaðili, Vinnuveitendasambandið, hafi hafnað þeirri leið sem almennt launafólk var vissulega reiðubúið að reyna til þess að halda eftir einhverju af hugsanlegum kjarabótum sem um yrði samið í þessum samningum. Það verður því að skrifa þá verðbólgusamninga, sem menn nú eru að tala um, á hæstv. ríkisstj. og Vinnuveitendasambandið, þeir verða ekki skrifaðir á aðra en þá sem ráða ferðinni í samningamálunum. Það sem af er hafa það gert hæstv. ríkisstj. og Vinnuveitendasambandið. Allt tal um að verkalýðshreyfingin hafi verið talsmaður verðbólgusamninga með óeðlilega háum kaupkröfum er út í hött.

Ég efast um að nokkurri ríkisstj., a.m.k. ekki í langan tíma, hafi verið sýnt jafnmikið umburðarlyndi af hálfu verkalýðssamtakanna og núv. hæstv. ríkisstj. Eigi að síður er svarið þetta: Það má nánast segja að ríkisstj. og Vinnuveitendasambandið hafi slegið á framrétta hönd launafólks í landinu sem bauð að söðlað yrði yfir og tekin upp skynsamlegri vinnubrögð í samningsgerð. Það er því haldlítið, hvort sem um er að ræða hæstv. ráðh. eða hv. þm. Þorstein Pálsson, formann Sjálfstfl., að koma í ræðustól á Alþingi og ætla að vísa þessum gjörðum yfir á aðra en ég hef hér greint frá að séu ábyrgir Ég trúi því ekki að hv. þm. Þorsteinn Pálsson vilji sverja bókagerðarsamninginn af Vinnuveitendasambandinu. Menn virðast nú sem oft áður hafa leikið tveim skjöldum í þessari stöðu.

Ég skal, herra forseti, ekki hafa fleiri orð um þetta. Um þetta mætti þó margt fleira segja. Niðurstaða mín er sú: Það tal hæstv. ríkisstj. að hún vildi hóflega kauphækkunarsamninga nú er á misskilningi byggt. Hún hefur sjálf rutt brautina fyrir meiri kauphækkunum í prósentum talið en nokkur, að ég hygg, hefur gert sér vonir um innan launþegasamtakanna að náð yrði.

Það er líka mesti misskilningur og fráleitt að ætla að trúa því tali forsvarsmanna Vinnuveitendasambands Íslands að allt sé á heljarþröm ef kaup hækkar fram yfir ákveðna tölu, þá eru menn að tala um 3.5–4%. Þeir halda því fram að allt hrynji til grunna verði samið um meira en 3–4% kauphækkun, en semja síðan sjálfir um 25% hækkun. Öllu slíku tali úr munni slíkra manna ber vægast sagt að vara fólk við. Það á ekki að taka alvarlega.

Nú er mér ljóst að það er lítill vandi fyrir t.d. gagnaðila bókagerðarmanna, sem hala inn frá viðskiptavinunum til að standa undir kauphækkunum, en eigi að síður er það Vinnuveitendasambandið sem ryður brautina fyrir þá. Það er erfiðara fyrir framleiðslugreinarnar að standa undir slíku. En til þess virðast ekki horfa hæstv. ríkisstj. eða Vinnuveitendasambandið. Þau láta skeika að sköpuðu. Og líka er það rétt, sem sagt hefur verið, að því aðeins voru líkur — þó litlar — til þess að hæstv. ríkisstj. ynni stríðið við BSRB að Morgunblaðið færi að koma út aftur.