21.02.1985
Sameinað þing: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3120 í B-deild Alþingistíðinda. (2600)

168. mál, langtímaáætlun um jarðgangagerð

Flm. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég þakka þann stuðning sem till. hefur fengið. Ég held einmitt að ástæða sé til að leggja sérstaklega áherslu á það hér, þegar til umræðu eru þau svæði á landinu sem horfa mest til jarðgangagerðar til lausnar á sínum samgöngumálum, að það er mikil þjóðarnauðsyn að góð samstaða náist um framkvæmdaröð í þessum efnum sem menn geti sætt sig við og menn þannig einbeiti kröftunum í sameiningu til að útvega fjármagn og verja því í þessar framkvæmdir, en stígi ekki skóinn hver niður af öðrum í kapphlaupi um hverjir eigi að koma fyrst. Ég held að það sé mikil nauðsyn að stjórnmálamenn og sérfræðingar og aðrir þeir sem málið varðar verði ásáttir um ákveðna framkvæmdaröð sem síðan verði bundin í langtímaætlun um þessar framkvæmdir. Það hefur sýnt sig, og ég hygg að enginn mæli því mót, að langtímaáætlun um vegagerð hefur haft sérstaklega góð áhrif einmitt hvað þetta varðar. Þegar fyrir liggur samþykkt áætlun, þar sem forgangsröðun verkefna er bundin, sætta menn sig við það sem orðinn hlut og samhæfa kraftana til að ýta henni áfram í staðinn fyrir hitt, sem er því miður allt of algengt um fjárveitingar af hálfu hins opinbera, að nægilega skýr stefnumörkun og framkvæmdaröð liggur ekki fyrir og menn bítast um þær krónur sem til skiptanna eru hverju sinni. Þess vegna legg ég á það áherslu að hér er um stórt og mikið langtímaverkefni að ræða sem ég held að væri mikil gæfa ef menn næðu að sameinast um, þannig að t.a.m. Austfirðingar og Vestfirðingar þyrftu ekki að berast á banaspjótum um það hver fengi fjárveitingar hverju sinni, fyrir nú utan það að slík vinnubrögð eru ákaflega óhagkvæm og óheppileg og engum til framdráttar þegar til lengdar lætur.

Ég tel mig mega fullyrða að viðhorf, ekki bara almennings heldur og sérfræðinga, hafi breyst á allra síðustu árum hvað möguleika okkar til jarðgangagerðar varðar. Í ljósi nýrrar tækni og í ljósi þess árangurs sem náðst hefur í að lækka kostnað hafa margir sérfræðingar um vegamál, jarðfræðingar og aðrir sem þessum málum eru kunnugir, að verulegu leyti skipt um skoðun og telja nú að það standi okkur miklu nær en kannske áður var talið að leysa samgöngumál okkar einmitt á þennan hátt. Ég vil nefna það sem dæmi, þegar talað er um kostnað af lægri eða hærri stærðargráðunni sem ég nefndi, að jarðgöng um Ólafsfjarðarmúla, þau sem menn helst hallast nú að að þar verði lögð til að leysa samgöngumálin þar, eru 3.2 km á lengd og þar hafa menn nefnt kostnaðartölur allt frá 120 millj. kr. og upp í 400 og jafnvel þar yfir. Þannig er ljóst að miklu máli skiptir hvort raunverulegt kostnaðarverð liggur þarna í lægri eða efri kantinum eða hvar það liggur þarna á milli.

Ég held að aldrei verði lögð of mikil áhersla á það í þessu sambandi að það sem kannske þyngst vegur í afstöðu manna og ræður mestu um áhuga heimamanna í mörgum byggðarlögum um þessi mál er það öryggisleysi og sú gífurlega áhætta sem hvílir eins og mara á því fólki sem býr við hættulegar og ótryggar vegasamgöngur. Það hafa orðið hroðaleg slys á undanförnum árum á mörgum þeim vegum sem einmitt falla undir þetta mál. Ég nefni þar Ólafsfjarðarmúla sérstaklega. Þeir sem kunnugir eru aðstæðum á þeim stað og þekkja til fólks sem þar býr vita að þetta er í langflestum tilfellum, eða nær undantekningarlaust, hagsmunamál númer eitt þegar það fólk nefnir það sem það telur byggðarlagið mestu varða. Kemur það jafnvel á undan heilsugæslu, skólamálum og öðru slíku sem gjarnan er þó haft á oddinum.

Ég hygg að menn þyrftu ekki að óttast fjárskort svo mjög ef við berum gæfu til þess — eða má ég kannske segja, herra forseti, ef við höfum manndóm til þess að standa við okkar áætlanir um langtímamarkmið í vegagerð og verja ákveðnu hlutfalli okkar þjóðartekna í þessu skyni, þeim 2.4% sem ég hygg að náðst hafi á sínum tíma samkomulag um að verja í þessu skyni. Þá þyrfti í raun ekki nema tiltölulega mjög lítinn hluta af þeim fjármunum ár hvert til að halda uppi allmyndarlegu átaki í jarðgangagerð ár frá ári sem dygði til þess að ein tækjasamstæða og einn vinnuflokkur gætu unnið á fullum afköstum við þetta mál.

Ég ætla þá ekki að lengja þess umr. frekar en þakka aftur þær undirtektir sem till. hefur fengið og vona að hún hljóti eins og öll önnur mál góða meðhöndlun þingsins. Ég vil þó nota þetta tækifæri til að hrósa sérstaklega einni opinberri stofnun sem lagt hefur sitt af mörkum í þessu efni, en það er Vinnueftirlit ríkisins. Það hefur af miklum myndarskap látið útbúa sérrit um jarðgangagerð. Þar eru á ferðinni leiðbeiningar um aðbúnað, hollustuhætti og öryggi þeirra sem við jarðgangagerð vinna og er þetta rit nr. 5. Ég vil hrósa þeim sérstaklega fyrir framsýnina og framtakið. Þar með liggur ljóst fyrir að ekki verður Vinnueftirlitið til að tefja framkvæmdir í þessu máli.