21.02.1985
Sameinað þing: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3125 í B-deild Alþingistíðinda. (2606)

28. mál, Fasteignamat ríkisins

Flm. (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir 28. máli Sþ. á þskj. 28 þar sem lagt er til að starfsemi Fasteignamats ríkisins verði lögð niður. Framsaga mín í þessu máli þarf ekki að vera löng. Hún er grunduð á því að hjá Fasteignamati ríkisins fer fram verðmætamat á fasteignum sem grundvöllur að skattfæti eða álagningargrundvöllur. Ég tel þessa starfsemi óþarfa í ljósi þess að verðmætamat á fasteignum fer fram á öðrum stöðum í stjórnsýslunni. Annars vegar er um að ræða brunabótamat og hins vegar mat á lóðaverði hjá byggingarfulltrúaembættum. Þar tel ég þar með álagningargrundvöllinn vera fyrir hendi, sem hægt er að nota við álagningu fasteignagjalda, og að allt annað starf Fasteignamats ríkisins þjóni í raun engum tilgangi, skili engum árangri sem mælanlegur er til hagsbóta fyrir samfélagið.