23.10.1984
Sameinað þing: 9. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 433 í B-deild Alþingistíðinda. (261)

Umræður utan dagskrár

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Þeir kjarasamningar sem nú standa yfir undir þrýstingi verkfalla hafa mótast af tvennu. Annars vegar kröfum um miklar kauphækkanir og hins vegar — og þá einkum hjá Verkamannasambandinu — viðleitni til að fara nýja leið þar sem reynt yrði að tryggja kaupmáttinn, tryggja að það sem um yrði samið færi ekki beint út í verðlagið og að okkar félagar héldu því sem um væri samið. Hin ýmsu sambönd eða samtök geta valið sér leiðir en við höfum valið þessa leið og við höfum trúað á það að unnt væri að fara hana ef menn hefðu ríkan vilja til þess. Við höfum hafnað gömlu leiðinni, leiðinni sem er reynsla fyrir og við teljum að hafi ekki fært verkalýðshreyfingunni þær kjarabætur sem þurft hefði að vera.

Þegar þær hugmyndir fæddust að fara þessa nýju leið þá lagði Verkamannasambandið til umræðugrundvöll í tíu liðum, þar sem rætt var í fyrsta lagi um afnám tvöfalda kerfisins og áhrif þess, uppstokkun flokkakerfisins og almenna launahækkun, um tekjuskattslækkun og útsvarslækkun. Við vissum að það voru ekki allir sammála, hvorki í okkar herbúðum né herbúðum vinnuveitenda, um tekjuskattslækkun. Það fer eftir ýmsu hvaða skoðanir menn hafa á því. En við vildum samt reyna þessa leið. Í sjötta lagi vildum við ræða afnám allra vísitalna og áhrif þess. Og við sögðum dálítið, sem er nýtt í þessari umræðu, að við vildum ekki fá vísitölu sem við bjuggum við áður. Verkamannasambandið lýsti því yfir að við viljum ekki slíka vísitölu.

Við vildum ræða um húsnæðismál og arðbærari fjárfestingu, um sjávarútvegsmál og það hvernig þeim útvegi er komið, um landbúnaðarmál og þá hvernig mætti breyta til þar, og í tíunda lagi hvernig mætti finna aðrar tryggingar fyrir gerðum samningi en þá vísitölu sem menn hafa áður trúað á og hefur reynst okkur illa.

Það er skemmst frá því að segja að Vinnuveitendasambandið var mjög sammála okkur í mörgum atriðum og við ræddum þessi mál í miklu bróðerni. Þar var áhugi fyrir því að fara nýja leið. Þar var áhugi fyrir því að kasta aftur fyrir sig þeim gömlu leiðum sem við höfum fetað til þessa. Einkum var staðnæmst við skattalækkunarleiðina og það hvernig mætti lækka vexti og afnema lánskjaravísitölu. Þetta hefur verið kölluð skattalækkunarleið. Hér hafa menn átalið ríkisstj. fyrir að leggja það ekki hreint og klárt fyrir hvernig ætti að útdeila þessum 1100 millj. sem talað var um í skattalækkun og 300 millj. í útsvarslækkun. Ég get tekið undir það að ég tel að ríkisstj. hefði átt að vera betur undirbúin í þeim umr. En ég tel einnig að það sé rangt að ríkisvaldið eða ríkisstj. setji fram beinharða úrslitakosti um það hvernig að málum skuli standa. Það verður að vinnast í samkomulagi og sátt við aðila, þannig að þegar upp verður staðið hafi verkalýðshreyfingin og aðrir aðilar mótað það í sameiningu sem niðurstaða yrði um. Það held ég að séu bestu vinnubrögðin og það var ætlunin að fara þannig að.

Við í Verkamannasambandinu höfum fundið það greinilega að það er bullandi fylgi fyrir þessari leið okkar, bullandi fylgi fyrir því að fara þessa skattalækkunarleið. Við höfum verið hvattir mjög af verkafólki að fara þessa nýju leið ef við gætum tryggt það að þeir samningar sem við gerðum héldu. Því fólk er hrætt við verðbólgu og fólk er hrætt við þau spor sem aðrir hafa markað í þessum efnum, líka þessi ríkisstj.

Í þessum umr. var um það talað að við settum niður ákveðin atriði sem við teldum að mætti draga saman í ríkisrekstrinum. Þessi nefnd, skattanefndin, tíndi það til og það hefur verið mjög í umræðu þar, en það er vandi að tína slíkt til. Við erum ekki heldur vissir um að þegar þær hugmyndir kæmu til Alþingis að Alþingi eða stjórnarmeirihluti væri sammála þeim tillögum sem þar væru lagðar fram. Ég efa það stórlega t.d. að hv. þm. Þórarinn Sigurjónsson vildi taka þátt í því að lækka útflutningsbætur. Og ég efa það stórlega að hv. þm. Þórarinn Sigurjónsson mundi vilja taka þátt í því að lækka framlög til landbúnaðarmála um 200–300 millj. Það má því búast við að þrátt fyrir þessi tilboð ríkisstj. um skattalækkanir þá yrði það erfiðleikum bundið fyrir hana að koma því í gegnum þingið. Og það mætti nefna ýmislegt fleira sem því veldur.

Í þeim tillögum sem menn voru að ræða um var ekki aðeins rætt um landbúnaðarmál og niðurskurð þar, heldur á sem flestum þáttum í þjóðlífinu, eins og t.d. ferðakostnaði embættismanna og mörgu fleira.

En við vorum það bláeygir að við töldum að ástæða væri til þess að halda áfram. Og við trúðum því að þetta væri hægt ef menn vildu fara þessa nýju leið, færa peninga frá ríkinu til heimilanna. Það mætti um stundarsakir reyna þetta til þess að koma á jafnvægi og hjálpa til við lækkun verðbólgu. Og við vorum að mínu mati komnir langt með að gera þessa hluti.

Þá er það að það fara að ske undur mikil hér í þjóðfélaginu. Þeir aðilar sem hvað harðast hafa talið að rétt væri að fara þessa leið, þeir ganga í það, í því skyni að eyðileggja stöðu Bandalags starfsmanna ríkis og bæja í þeirra verkfalli, að gera sérsamning við starfsmenn Reykjavíkurborgar. Borgarstjórinn í Reykjavík gerir slíkt. Og auðvitað er það gert með vitund og vilja ríkisstj., kannske til þess að komast hjá þeirri leið sem áður hafði verið lofað. Þegar ljóst varð að sá samningur hafði orðið til eina nóttina þá töldum við í Verkamannasambandinu að boltinn væri kominn frá okkur og ekki væri lengur rætt um skattalækkunarleiðina. Við töldum að þar með væri búið að loka fyrir það. En í umr. hér á Alþingi kom það fram að enn stæði þetta tilboð. Og við vildum enn halda áfram, fullvissir um að legðu menn sig alla fram væri hægt að gera stóra hluti.

En hvað kemur svo í ljós? Það er ekki aðeins Reykjavíkurborg sem semur, heldur hin ýmsu bæjarfélög um landið og nú síðast bókagerðarmenn. En það vakti undrun mína, þegar mér barst nú fyrir skömmu bréf með svörum og athugasemdum við ellefu efnisatriðum BSRB á blaði frá 15. þ.m., þetta eru svör frá samninganefnd ríkisins daginn eftir, að þar segir í 11. lið — (Gripið fram í: Hvenær er það dagsett?) Það er dagsett 16. okt. Og takið nú eftir að þrátt fyrir yfirlýsingar hér úr ræðustóli frá forsrh. o.fl. um að þetta tilboð stæði enn þá, segir hér með leyfi forseta:

„Með hliðsjón af þeim þáttaskilum sem orðið hafa í samningamálum undanfarin dægur telur ríkisstj. að ekki séu forsendur fyrir tekjuskattslækkunum umfram það sem ráðgert er í fjárlagafrv. Ríkisstj. mun fljótlega leggja till. sínar um skattamál fyrir Alþingi.“

Á meðan okkur er sagt að halda áfram þá er BSRB sagt þetta. Og ég spyr: Líta menn svo á að hér búi tvær þjóðir í landinu? Líta menn svo á að það eigi að vera sérstakt skattakerfi fyrir verkamenn og annað fyrir opinbera starfsmenn? Eða átti að blekkja Verkamannasambandið til þess að semja um lægri kaupprósentu út á skattalækkun? Var það meiningin að koma aftan að okkur sem lögðum okkur alla fram til að fara þessa nýju leið, leið sem við trúðum á og leið sem við trúum á enn, sé hún ekki eyðilögð af þeim aðilum sem við erum að ræða við? Ég spyr forsrh.: Er það hans skoðun að verkafólk eigi að hafa lægra kaup en þjónustugreinarnar út á skattalækkun sem allir fá? Það stendur hér svart á hvítu að ríkisstj. er búin að lýsa því yfir að það komi ekki til greina að lækka skattana um það sem okkur hafði verið boðið samtímis. Ég átel þessi vinnubrögð, þetta eru kauðaleg vinnubrögð. Þetta eru vinnubrögð sem eru í því fólgin að koma aftan að fólki. Ég lýsi vonbrigðum mínum með þessi vinnubrögð. Og því sýnist mér, og vil lýsa því hér yfir fyrir hönd Verkamannasambandsins, að úr því sem nú er komið séum við neyddir til að hverfa af þeirri leið sem við helst hefðum viljað fara. Bæði er búið að semja þá leið undan okkur og svo hefur ríkisstj. hér lýst því yfir við fjölmenn stéttarsamtök, sem eru í verkfalli, að ekki séu neinar forsendur lengur fyrir tekjuskattslækkunum umfram það sem ráðgert er í fjárlagafrv.

Því miður stöndum við nú hér á tímamótum og því miður verður að fara í gamla farið. Verkamannasambandið gerir það vegna þess að við höfum verið neyddir til þess. Við teljum okkur skilja vel hvernig atvinnulífið í landinu er statt, betur en margir aðrir því við erum nær því og við hefðum talið að sú leið sem um var talað dygði betur til þess að vernda kjör launþega og til þess að byggja upp heilbrigt atvinnulíf. Hér var lag fyrir þeirri uppbyggingu sem þarf að eiga sér stað. En það hefur verið frá okkur tekið.