21.02.1985
Sameinað þing: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3129 í B-deild Alþingistíðinda. (2612)

26. mál, framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins

Flm. (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Svar mitt við spurningu síðasta ræðumanns, hv. 2. þm. Austurl., er að ég álít að samstarfsnefndina megi leggja niður. Ég minni á að í smíðum er frv. til l. um Stjórnarráð Íslands og þar er gert ráð fyrir því að ábyrgð á framkvæmdum verði færð til viðkomandi ráðuneytis. Ég tel það eðlilegt þar sem þá er af löggjafans hálfu miklu hægara og auðveldara að draga einstaka ráðherra til ábyrgðar fyrir þær framkvæmdir sem þeir hafa staðið að.

Ég held að lýsing hv. 2. þm. Austurl. á samstarfi samstarfsnefndarinnar og framkvæmdadeildarinnar sé ein sér mjög sterk röksemd fyrir því að þessa stofnun megi leggja niður. Því að til hvers er að smíða undir mann fót sem ekki nær til jarðar og getur ekki gengið? M.ö.o. ef annars staðar í stjórnkerfinu er eitthvert það apparat, sem hreint og beint kemur í veg fyrir að viðkomandi stofnun geti starfað með eðlilegum hætti. þá er þar með búið að smíða tæki sem engum þjónar og engum gagnast.

Ég vil leggja áherslu á það að í þessari till. eins og öðrum sem ég hef flutt er ég ekki að veitast að mönnum. Menn geta verið misjafnir og þeir verða oft að nokkurs konar tákngervingum fyrir stofnanir. Þeir verða stofnanirnar persónugerðar þannig að menn nefna kannske menn með nöfnum og skilgreina þá, en eru að gagnrýna stofnunina. stjórnkerfið sjálft.

Ég held að þeir sem kynnst hafa starfsemi framkvæmdadeildarinnar af eigin raun hljóti að geta samsinnt mér í því að þetta fyrirtæki skilar nánast engu af þeim verkefnum sem því eru ætluð. Ég bendi bara á jafneinfalt atriði og það að þeir aðilar sem standa að opinberum framkvæmdum og eiga viðskipti við framkvæmdadeildina geta aldrei. ekki á ársgrundvelli. ekki á mánaðargrundvelli, ég tala nú ekki um vikugrundvelli, fengið upplýsingar um fjárhagslega stöðu sína gagnvart framkvæmdadeildinni. Þeir fá seint endanlegar upplýsingar um það. Í fyrsta lagi er reikningsleg staða þeirra við fyrirtækið ekki vituð fyrr en einhvern tíma eftir dúk og disk og þá ekki á grundvelli neins annars en annars vegar reikninga og hins vegar innborgana. Endanlegt skilamat. þ.e. verðmætamat eins og ég lýsti áðan, fer aldrei fram.