21.02.1985
Sameinað þing: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3130 í B-deild Alþingistíðinda. (2613)

26. mál, framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Aðeins örfá orð vegna þessarar fram komnu till. Ég held að það sé rétt sem hv. 2. þm. Austurl. sagði hér áðan að breyta þarf lögum um framkvæmd opinberra bygginga. Það er alveg ljóst að allt eftirlit með þeim er oft fyrir neðan allar hellur. Til þess liggja ýmsar ástæður sem sumar hverjar hafa verið hér raktar. En vegna þess að hv. flm. tilheyrir stétt manna. sem bera starfsheitið arkitektar. tel ég ástæðu til að minnast aðeins á hlut þeirra við gerð opinberra bygginga.

Ég hef ekki mikla reynslu af framkvæmd við ríkisbyggingar öðruvísi en sem hluta af byggingum sem sveitarfélög einnig fjármagna. Eftir fjögurra ára veru mína í borgastjórn Reykjavíkur undraðist ég oft hvernig þessum málum var háttað. Í stuttu máli virðist arkitektinum, sem húsið teiknaði. vera það nokkuð í mun — flm. leiðréttir mig ef ég hef rangt fyrir mér — að húsið sé nokkuð vel dýrt vegna þess að prósenta af byggingarkostnaði hússins rennur til arkitektsins. Og því hærri sem hún er. því betra fyrir hann væntanlega. Þetta er þó nokkurt atriði.

Oft er um að ræða byggingar sem eru fjármagnaðar bæði af ríki og sveitarfélögum. Og þá er oft. a.m.k. af hálfu sveitarstjórna. reynt að hrúga því sem mögulegt er inn í húsið strax í byrjun. nauðsynlegu sem ónauðsynlegu, til þess að geta gert reikning ríkisins sem hæstan. Sveitarstjórnarmenn sögðu alveg blákalt: Þetta er stofnkostnaður. Við skulum kaupa þetta vegna þess að þetta er stofnkostnaður og þar með greitt að hluta af ríkinu. — Ég gæti talið upp mörg dæmi. dæmi um hnausþykk gólfteppi í tugum fermetra á gólf sem aðallega átti að aka um í hjólastólum. Og svo þykk voru gólfteppin að gangandi fólki. vel gangandi. var varla fært um húsið. Ég get talið upp dæmi um eldavélar á dagheimili. sem áttu að þjóna 24 börnum + starfsliði, sem voru á stærð við eldavélar á Hótel Sögu. En þegar kvartað var yfir þessu af hálfu þeirra sem þóttust hafa eitthvað með málið að gera, þá var svarið: Þetta er stofnkostnaður. Og arkitektinn dró svo sannarlega ekki úr því að hann yrði sem allra hæstur. Ég held því að hér sé oft býsna slungið samspil.

Öll þekkjum við að einstöku arkitektar virðast komast að, ef svo má segja, jafnt hjá ríki sem sveitarfélögum og fá fyrirhafnarlítið að annast hönnun hvers stórhýsisins á fætur öðru. Og það er nokkuð hægt að rekja það, því að menn læra auðvitað af reynslunni, að síðasta húsið er ævinlega það allra dýrasta og íburðarmesta. Auðvitað hefur lítil þjóð eins og við engin efni á þessu, það er svo langt í frá. Bruðlið og íburðurinn í opinberar byggingar eru löngu farin fram úr öllu hófi.

Sams konar dæmi er einnig hægt að taka úr viðskiptum við Innkaupastofnun ríkisins, óheyrilegur dráttur á því að koma útboðum af stað, annar eins dráttur við að ganga frá þeim og velja úr þeim. Þetta hleypir upp kostnaði þannig að í fæstum tilfellum standast nokkrar kostnaðaráætlanir, jafnvel þó að tillit sé tekið til óstöðugs verðlags í landinu. Kostnaður fór oft langt fram úr því öllu saman. Ég get tekið undir orð hv. flm. þó að það sé kannske ákveðinn glannaskapur: Leggjum embætti húsameistara ríkisins niður. Leggjum framkvæmdadeild Innkaupastofnunar niður.

Það er a.m.k. alveg ljóst að einhverjar breytingar þurfa að verða þarna á. Og ég tek undir það með hv. flm. að það er fráleitt að háttsettir embættismenn, sem eiga að stjórna opinberum framkvæmdum, séu svo jafnvel sjálfir að teikna og hanna stórhýsi út um allt land. Þetta nær auðvitað ekki nokkurri átt. Hér er um stjórnunarstarf að ræða sem ætti að samræma til að koma einhverju viti í framkvæmd opinberra bygginga. Ég get því lofað hv. flm. að ég mun hugsa mig vandlega um áður en ég treysti mér til að leggjast harkalega gegn þessari framkomnu till.