21.02.1985
Sameinað þing: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3131 í B-deild Alþingistíðinda. (2614)

26. mál, framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það væri náttúrulega hægt að segja ýmislegt um þessa till. Við höfum sjálfsagt mörg okkar misjafna reynslu af Innkaupastofnunni eða framkvæmdadeild hennar. Ég hef stundum hugsað henni þegjandi þörfina út af ýmsum töfum sem orðið hafa frá hennar hendi. Ég held að hv. flm. hefði kannske átt að flytja sitt mál á annan veg. Það þarf auðvitað að byrja á því að breyta lögum um opinberar framkvæmdir eða þá að flytja þáltill. um að það skuli gert.

Þegar Alþingi er búið að ákveða fjárveitingu til að byggja eitthvert mannvirki er óeðlilegt að einhverjir menn úti í bæ geti hindrað það fleiri vikur eða mánuði eða jafnvel ár að byrjað sé á því verki. En það er það sem hefur skeð. Ef Alþingi samþykkir það á annað borð að byggt skuli og leggur til fjármagn til þess, þá eiga náttúrlega þeir aðilar, sem þetta mannvirki á að þjóna, að hafa leyfi til þess að fara af stað. Hitt er svo annað mál, að það er kannske ekki óeðlilegt að einhver á vegum ríkisins hafi eftirlit með því að fullnægt sé ákveðnum skilyrðum um það sem þarf að gera og undirbúning allan undir slíka byggingu. En að hægt sé að tefja þetta á þennan hátt er alveg óþolandi að búa við.

Það væri hægt að segja margt um þetta. Við gætum sjálfsagt öll, a.m.k. við sem erum búin að vera hér um nokkurn tíma, sagt frá reynslu okkar í þessu efni. Og sumt er ansi hastarlegt. En eins og síðasti hv. þm. ræðumaður rakti hér áðan höfum við líka orðið að búa við það að þurfa að leita til hönnuða, til arkitekta til að teikna þessar byggingar og það hefur ekki heldur verið allt í sómanum oft og tíðum. Bæði hafa þeir tafið fyrir, ekki staðið í skilum gagnvart tímalengd, hafa teiknað þessar byggingar á þann veg að maður er rasandi, kannske meira að segja í mörg ár, að slíkir hlutir skuli geta skeð sem sumar þessar byggingar eru. Og það er alveg rétt, sem hv. þm. sagði sem hér var í ræðustól á undan mér, að það væri hægt að benda á byggingar sem hafa orðið af þessum völdum helmingi dýrari en þurft hefði að vera. Ég vil auðvitað ekki hér á þessum stað benda á slíkar byggingar og þá arkitekta sem hafa teiknað þær. En það væri hægt að benda á slíkt.

Ég tala nú ekki um mistök eins og flötu þökin og margt fleira sem hefur valdið ýmsum miklum skaða og erfiðleikum á undanförnum árum. Sú árátta sumra arkitekta að vilja alltaf vera að byggja einhvers konar minnisvarða, eitthvað sem stingur í augu, eitthvað sem er allt öðruvísi, hugsa ekki um hagkvæmnina, ekki um kostnaðinn, hún er náttúrlega alveg óþolandi. Það þyrfti að setja á þessa menn einhver bönd. Það er það sem þyrfti að vera. En ég vil taka undir það að þessi mál eru þannig vaxin að eðlilegt er að Alþingi reyni að breyta þarna um, ekki einungis í sambandi við framkvæmdadeild Innkaupastofnunar, heldur þessi mál öll og setja um þau skorður, setja t.d. ákveðinn ramma sem arkitektar eða hvaða hönnuðir sem eru verða að fara eftir.