21.02.1985
Sameinað þing: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3133 í B-deild Alþingistíðinda. (2616)

26. mál, framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins

Guðmundur Bjarnason:

Herra forseti. Það eru nokkur orð út af þáltill. sem hér er til umr. Ég verð að játa á mig þá sök að hafa ekki verið í sal þegar 1. flm. flutti framsöguræðu sína fyrir till., en af þeim umr. sem síðan hafa spunnist heyrist mér að hér sé rætt um starfsemi framkvæmdadeildar Innkaupastofnunar og þó ekki síður starfsemi svokallaðrar samstarfsnefndar um opinberar framkvæmdir sem stundum gengur einnig undir nafninu bremsunefnd. Það er einkum vegna þeirra ummæla sem ég kem í ræðustól, þar sem ég hef um tíma skipað sæti fulltrúa fjvn. í þessari samstarfsnefnd.

Ég held að það sé óráð hið mesta að leggja þessa samstarfsnefnd niður. Hitt skal ég taka undir að það er full ástæða til að endurskoða starfsemi hennar og gera það starf allt skilvirkara og hraðvirkara. Ég held samt að nafnið bremsunefnd, sem þessari ágætu samstarfsnefnd hefur stundum verið gefið, sé af ýmsum toga til orðið og ekki sé ávallt því um að kenna að það sé starfsemi nefndarinnar sem tefur fyrir framkvæmdum, og því að vilja Alþingis sé framfylgt sem auðvitað kemur fram þegar Alþingi veitir fjármagn til ákveðinna framkvæmda. Samstarfsnefndinni er falið það hlutverk að fylgjast með þessum framkvæmdum, sjá um að þær séu unnar á réttan og eðlilegan hátt og jafnframt að reyna að gæta þess að dregið sé úr bruðli og óhófi í opinberum byggingarframkvæmdum eins og hér kom fram áðan.

Ég held að þetta bruðl og þetta óhóf væri oft og tíðum meira ef samstarfsnefndin kæmi þar hvergi nærri. Mér er kunnugt um að samstarfsnefndin hefur iðulega gert aths. við teikningar og hönnun á opinberum byggingum sem á að fara að hefja framkvæmdir við, einmitt í því skyni að reyna að draga úr því bruðli sem fulltrúum í þeirri nefnd hefur virst vera í uppsiglingu. Þetta kann að tefja framkvæmdir eitthvað. En ég álít þó að það sé sjaldnast svo að ef framkvæmdir fara ekki af stað sé það fyrir tilstuðlan samstarfsnefndarinnar, heldur sé þar eitthvað annað sem spilar inn í.

Ég vil máli mínu til sönnunar nefna tvö dæmi frá síðasta ári þar sem samstarfsnefndin hafði fjallað um ákveðin verkefni sem átti skv. fjárlögum að hefja framkvæmdir við. Það var annars vegar fiskvinnsluskólinn og hins vegar svokölluð K-bygging. Samstarfsnefndin hafði fjallað um bæði þessi verkefni og fyrir sitt leyti samþykkt að þær framkvæmdir yrðu hafnar eins og fjárveitingar gerðu ráð fyrir og reynt yrði að spila úr því fjármagni í samræmi við fjárlög. En vegna ráðstafana sem gerðar voru í ríkisfjármálum á síðasta ári og vegna aðgerða ríkisstj. til að reyna að draga úr þenslu í þjóðfélaginu var báðum þessum framkvæmdum frestað. Það var alls ekki fyrir tilstuðlan samstarfsnefndarinnar og hafi hún hlotið heitið bremsunefnd m.a. þess vegna er það ekki réttnefni.

Ég hygg að fleiri dæmi gætu verið í þessum dúr. Það sem mér sýnist að mundi leiða af því að leggja niður framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins og hlutverk samstarfsnefndarinnar væri að við fengjum nýjar framkvæmdadeildir í öll rn. Einhvers staðar hlýtur eftirlit með byggingarframkvæmdum hins opinbera að verða að vera áfram þó að þessar stofnanir yrðu lagðar niður. Einhvers staðar hlýtur hið opinbera að þurfa að fylgjast með. Við höfum reyndar eina slíka byggingardeild í menntmrn. Ég álít að slíkar byggingardeildir mundu koma upp í öllum ráðuneytum í kjölfar þess að þessi starfsemi yrði lögð niður.

Ég skal hins vegar ekki draga úr því að ekki sé fullkomin ástæða til að endurskoða starfsemi annars vegar framkvæmdadeildarinnar og hins vegar samstarfsnefndarinnar, ef við getum kallað hana stofnun sem er kannske ekki réttnefni, og reyna að gera hana skilvirkari. Við höfum oft heyrt þetta og vitum að það er nokkuð til í því að skilamat fari seint og illa fram varðandi einstakar opinberar byggingar. Þó held ég að sé ofmælt að segja að það fari aldrei fram. En vissulega þyrfti það að gerast jafnóðum og verkefnum er lokið hverju og einu. Ég vil þá líka upplýsa, ef hv. þm. ekki vita það, að nú er í gangi endurskoðun á starfsemi Innkaupastofnunarinnar og ég hygg að því nefndarstarfi sé nú um það bil að ljúka. Ég er viss um að þar er ýmislegt lagt til sem til bóta má horfa. Og ég vænti þess að Innkaupastofnunin muni geta gegnt sínu hlutverki enn betur eftir þá endurskoðun og þá endurskipulagningu en hún hefur getað gert hingað til.

Það var aðeins þetta sem ég vildi láta koma fram, herra forseti, þar sem ég hef að undanförnu kynnst nokkuð starfsemi samstarfsnefndarinnar. Ég vil vara við því að sú starfsemi sé lögð niður. Ég tel að það sé ekki skynsamlegt vegna þess að einhvers staðar þurfi þetta eftirlit að vera og það sé betur komið á einum stað, á einni hendi og við skulum þá segja í einni nefnd en í stofnunum og nefndum í hverju einstöku ráðuneyti.