21.02.1985
Sameinað þing: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3134 í B-deild Alþingistíðinda. (2617)

26. mál, framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins

Flm. (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Ég þakka fyrir að fá leyfi til að gera hér örstutta athugasemd, en það eru tvö atriði eða þrjú sem mér finnst ekki mega láta fara í gegn án þess að athugasemd sé gerð við þau. Ég vil upplýsa síðasta ræðumann, hv. 6. þm. Norðurl. e., um það að sú nefnd sem hann var að enda við að lýsa, þ.e. samstarfsnefndin eða bremsunefndin, er ekki betur hlutverki sínu vaxin en það að hún var búin að samþykkja framkvæmd K-deildarinnar enda þótt undirbúningur þeirrar byggingar væri með öllu óhæfur af hendi húsameistara ríkisins. Það varð að taka upp hönnun hússins á síðustu stundu, þar sem alls ekki var gert ráð fyrir þeim tæknilegu þörfum sem sú starfsemi sem þar átti að fara fram gerði ráð fyrir. Það var nánast fyrir slysni að danskt sérfræðingafyrirtæki, sem fengið var til ráðgjafar, gat bent framkvæmdaaðilum á þetta á síðustu stundu og haft um leið gífurleg áhrif á framkvæmdaröðun og þar með tilkostnað hins opinbera í þessari byggingu. (GB: Hvað á ræðumaður við með á síðustu stundu? Í haust eða vetur?) Ég á við fyrir rúmu ári. (GB: Það er áður en samstarfsnefndin gaf grænt ljós á framkvæmdir.)

Framkvæmdadeildir í hverju rn. eru auðvitað það sem ég var að tala um. Þar með getur maður dregið hvert rn. til ábyrgðar fyrir sínar framkvæmdir, en stendur ekki frammi fyrir slíku vatnshöfði sem núverandi framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins er, þar sem einn bendir á annan, Einbjörn á Tvíbjörn o.s.frv. Síðan mundi ég gjarnan vilja, ef hv. 6. þm. Norðurl. e. á þess kost, að hann sýndi mér svo sem eitt skilamat frá framkvæmdadeild Innkaupastofnunarinnar.