23.10.1984
Sameinað þing: 9. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 435 í B-deild Alþingistíðinda. (262)

Umræður utan dagskrár

Sigríður Dúna Kristmundsdóttir:

Herra forseti. Þessi umr. hefur farið nokkuð vítt og breitt, en til hennar var stofnað með spurningum frá hv. þm. Kjartani Jóhannssyni um hvaða áform ríkisstj. hefði uppi, m.a. um skattalækkanir sem samningsleið í yfirstandandi kjaradeilum.

Hæstv. forsrh. svaraði engu til eða frá um þetta efni og bar fram sínar ástæður fyrir því. En hv. þm. Þorsteinn Pálsson lýsti því hér hins vegar yfir sem skoðun sinni að skattalækkanir væru áhrifaríkasta leiðin sem hægt væri að fara til kjarabóta fyrir allan almenning í dag og enn fremur að í henni væri falin traustasta kaupmáttartrygging sem völ væri á.

Hv. síðasti ræðumaður, Karl Steinar Guðnason, tók í sama streng og taldi að ríkisstj. hefði brugðist Verkamannasambandinu með framkomu sinni í þessum málum. Það má vel vera, á það skal ég ekki leggja dóm. En e.t.v. er skaðinn ekki jafnstór og af orðum hans mátti skilja því að ég vil leyfa mér að efast um að skattalækkunarleiðin sé jafn vænleg til árangurs og sumir hv. þm. vilja meina Ég vil nefna fáein atriði í því efni.

Í fyrsta lagi vil ég nefna að lækkun skatta, eftir því sem um hana hefur verið rætt hér, kemur vart þeim til góða sem lægstu launin hafa, því að þeir borga litla eða enga skatta hvort sem er. Hins vegar er það deginum ljósara að mest ríður á að bæta einmitt þeirra hag. Í öðru lagi vil ég meina að skattalækkun sé hæpin kjarabót ef innheimta á það fé, sem ríkissjóður tapar með því móti, aftur með auknum neyslusköttum. Krónurnar sem vinnast við þá leið verða þá fljótar að fara aftur.

Í þriðja lagi tel ég niðurskurð til að mæta tekjutapi ríkissjóðs vegna skattalækkunar, sem forsrh. nefndi áðan sem möguleika í þessum efnum, mjög vafasaman, einkum og sér í lagi í mennta- og menningarmálum eins og heyrst hefur fleygt núna síðustu daga og gersamlega fyrir neðan allar hellur að höggva meira í þann knérunn en þegar er orðið. Og erfitt á ég að sjá hvar hugsanlegt er í raun og veru að skera niður í ríkisfjármálum.

Í fjórða lagi vil ég varpa fram þeirri spurningu hvort það sé í rauninni rétta leiðin í þessum málum að ríkið taki þann bagga af atvinnurekendum að greiða hærri laun. Að sjávarútvegnum undanskildum búa flestir atvinnuvegir í landinu í dag við allgóðan hag, eins og fram kemur í gögnum Þjóðhagsstofnunar, m.a. frá 24. sept. s.l. Það er spurning hvort ríkið eigi að hlaupa undir bagga með atvinnurekstrinum í þessu efni. Það má minna á, eins og gert hefur verið í dag, að það gerði hv. ríkisstj. í síðustu samningum. Nú vil ég spyrja hæstv. forsrh. hvort hér sé um að ræða viðvarandi stefnu ríkisstj. í kjaramálum.

Ég tel því að að svo komnu máli — ég endurtek: að svo komnu máli — séu skattalækkanir vafasöm kjarabót. Því síður tel ég það ljóst vera, eins og hér hefur verið sagt, að í þessari leið felist óyggjandi kaupmáttartrygging. Til þess að hægt sé að slá slíku fram, eins og hér hefur verið gert, þurfa að liggja fyrir svör um stefnu ríkisstj. í skyldum málum. Ég vek athygli á því að slík svör hafa enn ekki fengist hér á Alþingi.