21.02.1985
Sameinað þing: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3137 í B-deild Alþingistíðinda. (2621)

25. mál, tæknideild Húsnæðisstofnunar ríkisins

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla að blanda mér í umr. um niðurlagningarstarfsemi hv. þm. Stefáns Benediktssonar. Þetta er mikill iðnaður sem hann stendur hér fyrir. Það má kannske kalla hann „niðurlagmetisiðnað“ eða eitthvað í þeim dúr. Hann er að leggja hér niður hvert fyrirtækið á fætur öðru og eitt slíkt er nú til umr. þó reyndar sé þar um deild innan stærri stofnunar að ræða, þar sem er tæknideild Húsnæðisstofnunar ríkisins.

Hv. þm. fór yfir ákvæði í lögum um tæknideild nokkurn veginn lið fyrir lið og stóð naumast steinn yfir steini þegar þeirri yfirferð var lokið. Ýmist gat sú starfsemi, sem þar er kveðið á um, farið fram annars staðar, að mati flm., eða þá að hann gagnrýndi tæknideildina fyrir að starfa ekki skv. lögunum og sinna ekki þeim hlutverkum sem það ætti að rækja skv. lögunum. Hún var sem sagt sek um hvort tveggja, að vera að vasast í hlutum sem hún ætti ekkert að vera að vasast í og aðrir gætu gert og einnig sek um að sinna ekki hlutverki sínu og starfa ekki á öllum þeim sviðum sem lög mæla fyrir um. Þá er orðið vandlifað í veröld þessari þegar menn eru þannig gagnsekir í bak og fyrir.

Ég vil segja það um tæknideild Húsnæðisstofnunar ríkisins og þau kynni sem ég hef haft af þeirri stofnun og þeirri starfsemi sem þar fer fram, að þar er ýmis þjónusta innt af hendi sem ég hef ekki trú á að yrði gerð með mikið hönduglegri hætti annars staðar og sé enga ástæðu til þess að það opinbera megi ekki inna af höndum rétt eins og hver annar. Reyndar var það svo, að þegar þessi þjónusta var í upphafi byggð upp var henni komið á fót til að uppfylla ákveðið tómarúm á þessu sviði sem ég vænti jafnvel að hv. flm. sé mér sammála um að var fyrir hendi á þeim tíma. Þá áttu sveitarstjórnir og aðrir þeir aðilar sem mikið sækja þjónustu til stofnunarinnar naumast í annað hús að venda. Þá var ekki um að ræða aðra sem gátu á einum stað og í einni stofnun, í einu lagi innt af hendi alla þá þjónustu sem tæknideildin tók að sér og hefur innt af hendi síðan.

Ég hef fyrir því, herra forseti, ummæli margra grandvarra sveitarstjórnarmanna og sveitarstjóra, sem skipti hafa átt við þessa stofnun, að þau samskipti séu sveitarstjórnum úti á landsbyggðinni hagstæð og kemur þar margt til. Það liggur í eðli máls að opinber stofnun sem tæknideild getur staðið að sinni þjónustu við landsbyggðina með öðrum hætti og rækt þau tengsl með öðrum hætti en einkafyrirtækjum, kannske misjafnlega öflugum, er kleift að gera. Þá er auðvitað að taka því og fagna því ef einhverjir njóta þar góðs af.

Ég skil ekki heldur alveg andúð þá sem mér finnst birtast í máli flm. á þessari stofnun. Ég hef reyndar rekist á að starfsbræður hv. flm., þ.e. þeir sem voru áður hans starfsbræður, menn úr arkitektastétt, en þaðan mun hann hafa komið hingað inn á hið háa Alþingi, eru margir sama sinnis og eru heldur fúlir út í tæknideild Húsnæðisstofnunar. Einmitt það hvað mörgum arkitektum er illa við hana hef ég oft leyft mér að taka sem ákveðna sönnun þess að þetta væri þörf stofnun og gott væri að hafa hana í þjóðfélaginu. Hún hefur, eins og hér kom fram, boðið upp á ódýra þjónustu og boðið teikningar á verði sem hefur hugsanlega verkað sem ákveðin samkeppni á þessum markaði. Ég held að sú samkeppni hafi í alla staði verið heiðarleg. Ég tek ekki undir nein ummæli um annað og bið þá hv. flm. að færa að því rök að bókhald Húsnæðisstofnunar ríkisins hvað varðar uppgjör á rekstri tæknideildar sé ekki fyllilega réttmætt, þ.e. að það sé ekki rétt, sem kemur fram í ársreikningum þeirrar stofnunar undanfarin ár, að rekstur tæknideildarinnar, og þar á ég við rekstur, ekki eiginfjárframreikninga, að tekjur hafi hreinlega staðið undir rekstrargjöldum deildarinnar. Ég hef farið yfir reikningana, þó að ég hafi þá ekki undir höndum núna, og leyfi mér að fullyrða að svo sé.

Ég tel auk þess fráleitt, ég verð að segja það sem mína skoðun, að leggja til að stofnun eins og Húsnæðisstofnun ríkisins, sem veltir jafngífurlegum fjármunum handa á milli til húsnæðismála og sú stofnun gerir, væntanlega hátt í 3 milljarða kr. á núlíðandi ári, hafi ekki innan sinna vébanda tæknilega menntað starfslið og tækniþjónustu innanhúss. Tal um að kaupa þá þjónustu út um hvippinn og hvappinn, af einhverjum aðilum úti í bæ, er að mínu mati skot út í loftið. Húsnæðisstofnun á og þarf að hafa tæknimenntað fólk, sem hún getur leitað til daglega, innan sinna vébanda og það þarf helst að vera á sömu hæð í þeirri stofnun, eins og nú er. Það er mín bjargföst sannfæring.

Það spillir svo ekki fyrir ef hægt er að koma því svo snoturlega fyrir að sú starfsemi standi undir sér vegna annarra verkefna og tel ég þá að allir mættu vera sæmilega ánægðir ef tekst að sameina þetta tvennt í einu lagi.

Ég hygg að það mundu berast, og kannske berast, hávær mótmæli við því víða af landsbyggðinni ef leggja á tæknideild Húsnæðisstofnunar niður. Það er mín tilfinning. Því hlutverki sem tæknideild hefur leikið í uppbyggingu t.a.m. verkamannabústaðakerfisins og þeim störfum sem hún þar innir af hendi í sambandi við kostnaðarmat og eftirlit með því kerfi yrði að mínu mati ekki betur fyrir komið á annan hátt en verið hefur.

Það má vel vera að tæknideild hafi ekki sinnt öllum þeim verkefnum, sem henni er ætlað að sinna lögum samkvæmt, sem skyldi. Reyndar veit ég að minna hefur orðið úr því að tæknideild stæði fyrir samkeppni meðal arkitekta um teikningar og annarra tæknimanna sem fást við hönnun íbúðarhúsnæðis. En á móti kemur að þeirri starfsemi hefur verið sinnt af hálfu annarra aðila. Ég vænti þá að flm. geti verið ánægður með það að Húsnæðisstofnun eða tæknideild sé þá ekki að vasast í því.

Hann svaraði því sjálfur hvernig þjónustustarfsemi við húsbyggjendur er fyrir komið, þ.e. í fyrirtæki því sem Byggingarþjónustan nefnist og rekið er í nánu samstarfi við margnefnda tæknideild. Ég get ekki fallist á það, að með því að koma sér í eitt skipti fyrir öll niður á einhverja staðalóúð og reikna hana út sé um aldur og ævi búið að inna það hlutverk af hendi. Ég held að hér sé um síbreytilegt viðfangsefni að ræða sem tæknideild eða einhver annar slíkur aðili þurfi sífellt að hafa til endurskoðunar.

Auk þess fjallaði hv. flm., 8. þm. Reykv., um tæknideildina sem heila stofnun og mátti eiginlega skilja hann svo að hann sæi fyrir sér heilt steinsteypuferlíki á borð við Framkvæmdastofnun. Þeir sem kunnugir eru málum vita að hér er um að ræða einn gang á einni hæð í miklu stærra húsi, sem hýsir m.a. Landsbankann og Lánasjóð ísl. námsmanna auk Húsnæðisstofnunar. Naumast er því rétt að gefa þá ímynd af þessari starfsemi að þar sé um heila stofnun að ræða. Þetta er deild í Húsnæðisstofnun sem notar sama skiptiborð, sömu símaþjónustu, sömu kaffistofu og þannig mætti áfram telja. Þannig er þetta sannanlega, herra forseti, deild en ekki stofnun.

Ég vil að síðustu taka það fram að ég er ekki endilega að segja að sú tilhögun í húsnæðismálum sem felst í lögunum um Húsnæðisstofnun ríkisins og þar með tæknideild sé hin eina og rétta og skuli vera svo um alla framtíð. En ég held að á meðan Húsnæðisstofnun er áætlað að inna af hendi það gífurlega mikla hlutverk sem henni er nú falið með lögum og veltir handa á milli þeim gífurlegu fjármunum sem raun ber vitni-eða sem hún í öllu falli ætti og þyrfti að velta miðað við þörfina — þá sé ekki annað raunhæft en að gera ráð fyrir því að hún hafi innan sinna vébanda einhverja tæknideild. Um umfang þeirrar starfsemi og að hve miklu leyti starfsmenn þeirrar tæknideildar eiga t.a.m. að vera í almennri teikningavinnu fyrir íbúðarhúsnæði er ég tilbúinn að ræða við flm. hvenær sem er. En að leggja tæknideildina niður og stroka út alla þá starfsemi sem þar fer fram tel ég einfaldlega ekki ganga upp. Ég er sannfærður um að daginn eftir að slík breyting yrði væri Húsnæðisstofnun eða einhverjir þá fyrir hennar hönd komnir á stúfana að leita sér að tæknimenntuðu starfsliði til að ráða þá við þá Húsnæðisstofnun sem eftir sæti án tæknideildar. Það væri lítið unnið við það.

Hitt held ég að sé miklu nær að menn taki sig saman og endurskoði lögin um Húsnæðisstofnun ríkisins og þar með það hlutverk sem menn ætla tæknideildinni, þau umsvif sem menn ætla henni og afmarki hana nánar og þá nýtt og breytt starfssvið frá því sem verið hefur í gildandi lögum. En ég er tiltölulega sáttur við þá starfsemi sem þar hefur verið og eins og hefur verið að henni staðið og tel að á meðan deildin stendur undir sínum rekstri, getur auk þess innt af höndum þýðingarmikið hlutverk í sambandi við ráðgjöf til Húsnæðisstofnunar og húsnæðisstjórnar, séu engar forsendur til þess að leggja hana niður.