21.02.1985
Sameinað þing: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3142 í B-deild Alþingistíðinda. (2624)

25. mál, tæknideild Húsnæðisstofnunar ríkisins

Karl Steinar Guðnason:

Herra forseti. Ég tek undir þakkir til hv. þm. Guðmundar J. Guðmundssonar fyrir hans ágæta framsöguerindi. Þar fólst mikill fróðleikur sem á erindi inn í sali Alþingis. Ég er einmitt mjög ánægður með að þessi umr. skuli vera færð hingað inn í Alþingi — umr. sem á sér stað víðs vegar um landið og þá einkum í sjávarplássunum hjá sjávarútvegsfólki sem ekki skilur að landinu okkar er þannig stjórnað að m.a.s. þegar allra mest fiskast, þegar allra mestur afli berst á land, þá er tap á sjávarútvegi. Þetta eru skringilegheit sem venjulegt fólk skilur ekki í.

Það vandamál, sem hér er tekið fyrir og varðar fullvinnslu afla, er umræðu vert. Sannleikurinn er sá að okkur Íslendingum hefur ekki tekist sem skyldi að ráða við þessa fullvinnslu. Því hefur verið borið við að ekki borgaði sig að standa í því. Tökum t.d. niðursuðu. Niðursuða hefur orðið fyrir miklum áföllum. Við höfum ekki náð okkur á strik í þeim efnum. Það mætti taka marga aðra þætti fyrir þar sem það er sýnt að fullvinnsla borgar sig ekki skv. því vinnulagi sem við höfum hér á landi.

Ég tel að það sem skipti sköpum í þessum efnum sé markaðsleit, markaðurinn og sölumennska sem því fylgir. Það hefur verið svo hér á landi til langs tíma að orðið „sölumaður“ hefur verið nokkurs konar skammaryrði í hugum Íslendinga. Við höfum lagt afar lítið upp úr markaðsleit, upp úr markaðinum. Förum við í þeim efnum alveg öfugt að við Japani sem byrja á því að huga að markaðnum áður en þeir fara að framleiða. Við byrjum að framleiða og hugsum síðan um markaðinn.

Það er líka ástæða til að ætla að ýmis tilbreyting í sambandi við útflutning eigi erfitt uppdráttar vegna þess að bankakerfið er erfitt í taumi. Nokkrir ræðumenn hafa bent á það og ég er sannfærður að það á sinn þátt í því hversu illa gengur að fara nýjar leiðir. Mér er kunnugt um að aðilar hér á landi vilja gjarnan fara út í að pakka rækju á neytendamarkað. Rækja er seld héðan í stórum umbúðum til heildsala erlendis, sérstaklega í Danmörku, heildsala sem síðan standa í því að pakka henni í minni pakkningar og margfalda verðið. Til eru þeir sem vilja fara í það að gera þetta hér, en fá ekki fyrirgreiðslu úr bankakerfinu, menn sem geta margfaldað verðmæti vörunnar með því að breyta um pakkningar og geta komist inn á þennan markað. Þannig á bankakerfið sinn þátt í þessu.

Það er líka ástæða fyrir okkur Íslendinga að íhuga þá byltingu sem er að eiga sér stað varðandi alla tæknivæðingu. Ég er sannfærður um að tölvubyltingin á eftir að koma mjög við okkur Íslendinga, ekki aðeins á þeim sviðum sem nú eru þekkt, heldur líka í frystihúsunum. Ég tel að það líði ekki mörg ár þangað til frystihúsin þurfa miklu minni mannskap en þarf í dag. Tölvuvæðingin sér fyrir því. Það verður til þess að mönnum hlýtur að koma í hug hvert atvinnustigið verður þegar svo er komið — burtséð frá því að sennilega er málum þannig háttað að frysting fiskjar er að verða úrelt.

Tökum t.d. Bandaríkjamarkað, eins og hv. þm. Birgir Ísl. Gunnarsson ræddi aðeins um áðan. Þá liggur ljóst fyrir að sala á ferskum fiski hefur aukist í Bandaríkjunum um allt að 15–20%. M.a.s. er svo komið að glæsileg matsöluhús, sem hafa á undangengnum árum einkum selt amerískar steikur, sérhæft sig í því, eru nú farin að bjóða upp á hina ýmsu fiskrétti og salan á þessum réttum hefur aukist alveg stórkostlega. Þeir gera þetta með ýmsum tilfæringum. Þeir hafa á boðstólum fisk sem heitir ýmsum ljótum nöfnum. Þeir breyta nöfnunum á fiskinum. Hér segir í amerísku tímariti að háfur sé nefndur laxhákarl og fiskur sem á ensku er kallaður ratfish og kallast langhali á íslensku, en Ameríkumönnum kemur sjálfsagt í hug „rottufiskur“, er nefndur allt öðru nafni. Þannig er það sölumennskan sem ræður því hvað kemst á borð neytenda og verður til þess að auka mjög neyslu þessa fiskjar.

Það hafa margir amast við útflutningi á ferskum fiski og talið að menn ættu að fullvinna vöruna. Aðrir halda því fram að ferskur fiskur sé fullunnin vara. Það má til sanns vegar færa. Það er einmitt þannig sem neytandinn vill fá vöruna. Ef þið hv. alþm. horfið í eigin barm og ég líka kjósum við miklu fremur nýjan fisk en frosinn. Hitt er annað mál að það eru erfiðleikar í því að mæta þessari þróun hjá okkur Íslendingum vegna þess að atvinna þúsunda manna er þarna í veði. Hins vegar er ekkert vit í öðru en að selja fisk á hæsta verði sem fáanlegt er á markaðinum. Þarna tel ég að skorti mjög á sölumennsku og ekki sé rétt brugðist við breyttum aðstæðum. Ég tel að sölusamtökin hafi mjög dregið lappirnar í þessum efnum og hafi á margan hátt staðið í vegi fyrir þróun. Það eru einstaka lítil einkafyrirtæki sem hafa farið út í það að selja ferskan fisk. Sölusamtökin hafa reynt þetta líka og dengt inn á markað stórum förmum af ferskum fiski, en það hefur orðið til þess að markaður hefur fallið og helmingurinn af fiskinum kannske ekki selst. Það hafa verið farnar að þessu aðrar leiðir en duga.

Ég tel að það sé mjög nauðsynlegt að leita allra leiða til að fullvinna sjávarafla, en til hliðar við það, jafnvel framar, verður að leggja meira fé í markaðsöflun til þess að geta selt þá vöru sem við erum að bjóða og við verðum að laga okkur betur að breyttum aðstæðum en tekist hefur. Til þess að það sé unnt þarf bankakerfið að vera virkara og við Íslendingar duglegri að framleiða það sem markaðurinn vill.

Það hefur komið fram hér að veita eigi 500 millj. til nýsköpunar í atvinnulífinu. Ekki er mér kunnugt um að neitt liggi fyrir um það hvernig eigi að verja því fé og ekki er mér kunnugt um að féð sé til reiðu enn. Mjög væri fróðlegt í framhaldi af þessari umr. að fá vitneskju um hvernig menn ætla að verja þessu fé.

Nokkrir hafa hér rætt um gæði fiskjar og hvernig með hann er farið í landi og á sjó. Af því tilefni vil ég segja frá því að verkalýðssamtökin hafa þrýst á um það, t.d. nú síðustu árin, að fiskverkunarfólk fái einhverja menntun til þess að geta sinnt þessu hlutverki sínu, viti meira um hvað er að ske í vinnslurásinni og verði betur að sér um það hvernig meðhöndla skuli fisk. Það er að fæðast núna námskeið fyrir fiskvinnslufólk sem m.a. hefur orðið til vegna þrýstings frá verkalýðssamtökunum, ekki öðrum. En það er rétt að taka það fram að sjútvrn. hefur nú tekið þessu vel og hefur slík námskeið í bígerð. En það er eitt sem er mjög athyglisvert og táknrænt fyrir það hvernig þau mál standa. Það lítur út fyrir að fólkið, sem á að fara á þessi námskeið, þurfi að greiða vinnutapið sjálft, það þurfi að borga allt sem til fellur sjálft. Ef kennarar eða aðrir opinberir starfsmenn fara á fræðslunámskeið eða til að mennta sig á einhvern hátt, fjárfesta í þekkingu, þykir sjálfsagt að hið opinbera greiði það. Ég bendi á þetta vegna þess að menn voru að tala um fyrirlitningu í garð fiskvinnslufólks hér áðan.