21.02.1985
Sameinað þing: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3144 í B-deild Alþingistíðinda. (2626)

25. mál, tæknideild Húsnæðisstofnunar ríkisins

Flm. (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Ég varð að bregða mér aðeins frá þannig að ég þarf kannske andartak til þess að átta mig á því hvar við vorum í umr. En það snýst þó enn um það mál sem hér var til umr., þ.e. tæknideild Húnæðisstofnunar og þátt hennar í því eins og hv. 4. þm. Norðurl. e. heldur enn statt og stöðugt fram að halda niðri verðlagi húsbygginga og þá einkum með þeim hætti að halda niðri verðlagi teikninga. Það er nú í fyrsta lagi þannig að þáttur teikninganna í byggingarkostnaði er nú sjaldnast mikið yfir 2% af heildarverði byggingarinnar þegar upp er staðið, þannig að áhrif hans á endanlegan byggingarkostnað og þar með þessi víðtæku samkeppnisáhrif tæknideildar Húsnæðisstofnunar eru ekki svo ýkja mikil. Auk þess veit ég að það er fjöldi aðila sem býður þjónustu sömu tegundar, ég skal ekki fullyrða að hún sé sambærileg, á jafnvel enn lægra verði en nokkurn tíma Húsnæðisstofnun. Þetta eru aðallega aðilar sem hafa áður starfað hjá tæknideildinni, hætt síðan störfum þar, haft með sér yfirleitt álitlegan bunka af Ijósritum af teikningum, sem sum hver eru jafnvel ættuð úr þýskum blöðum, eins og einn af samstarfsmönnum okkar benti mér á, og sitja síðan út í bæ og fjölrita nokkurn veginn þessar teikningar í samkeppni við tæknideildina. Og ég held — (Gripið fram í: Leikur þú ekki kollega þína dálítið hart?) Þetta eru að mínu mati ekki mínir kollegar, allavega ekki í dag. Ég dæmi oft kollega mína hart, jafnvel þá sem eru kollegar mínir í dag. En ég er ekki að dæma hér, ég er bara að segja frá því sem ég veit. Ég tel að sé verið að margprísa hlutverk þessarar stofnunar til að halda niðri byggingarkostnaði annars vegar og hins vegar teiknikostnaði, en það séu röksemdir sem eiga ekki stoð í veruleikanum. Ég ætlaði að lesa hér fyrir hv. 4. þm. Norðurl. e. ef ég má, með leyfi hæstv. forseta, upp úr þeim lögum sem ég vitnaði í hér áðan. (Forseti: Ég vil minna hv. ræðumann á að hér er um að ræða örstutta athugasemd.) Það er hlutverk tæknideildar að vera sveitarstjórnum og stjórnum verkamannabústaða sem þess óska til aðstoðar við undirbúning, útboð og samningsgerð vegna félagslegra íbúðabygginga og að fylgjast með og kynna tækninýjungar sem stuðlað geta að lækkun byggingarkostnaðar.