23.10.1984
Sameinað þing: 9. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 436 í B-deild Alþingistíðinda. (263)

Umræður utan dagskrár

Forsrh. (Steingrímur Hermannsson):

Herra forseti. Ég vildi ekki draga það að leiðrétta eitt atriði sem fram kom í ræðu hv. þm. Karls Steinars áðan. Hann las síðasta atriði, 11. atriði úr tilboði sem samninganefnd ríkisins mun líklega hafa lagt fram á samningafundi þann sama dag. Þetta var rætt í ríkisstj. þann morgun og það er bókað í fundargerð ríkisstj., sem ég get látið hv. þm. hafa eftirrit af að þessum 11. lið beri að breyta þannig — ég hygg að ég muni það nokkurn veginn orðrétt — að ríkisstj. telji enn sem fyrr að meiri skattalækkanir og minni peningalaunahækkanir séu vísasta leiðin til kjarabóta. En af einhverjum ástæðum mun þessi breyting ekki hafa komist inn áður en þetta var afhent á fundi hjá BSRB. Ég komst að því og hringdi strax inn eftir og kom þessari ábendingu á framfæri.