21.02.1985
Sameinað þing: 52. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3148 í B-deild Alþingistíðinda. (2634)

18. mál, Ferðaskrifstofa ríkisins

Flm. (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir þáltill. á þskj. 18 þar sem lagt er til að ríkið hætti starfsemi Ferðaskrifstofu ríkisins. Það gildir um þetta mál nokkurn veginn það sama sem um það fyrra, sem hér var til umr., að hér er á ferðinni rekstur á vegum ríkisins sem engar röksemdir eru fyrir að þurfi nauðsynlega að sinna. Í fyrsta lagi stuðlar þetta afskaplega lítið að almannaheill og ekkert úr almannaheill dregið heldur þó að ríkið hætti rekstri Ferðaskrifstofu ríkisins. Þarna er líka um ákveðnar fjárfestingar að ræða sem ríkið gæti losað sig við og þar með náð einhverjum aurum í sarpinn sem eflaust eru ekki illa þegnir.

Í ríkisreikningi sýnir Ferðaskrifstofa ríkisins sig að koma út á sléttu en, vel að merkja, hún situr að ákveðinni þjónustu fyrir hið opinbera, sem telur sér skylt að versla við þessa stofnun þar sem hún sé í þess eign, þannig að það er ekkert merkilegt þó að þetta fyrirtæki sitji a.m.k. ekki í taprekstri.

Sérdeild í rekstri þessa fyrirtækis er hótelrekstur. Hann kemur líka nokkurn veginn út á sléttu. En þar er á ferðinni atriði sem væri vel þess virði að skoða dálítið nánar því að það er að mínu mati mjög gagnrýnisvert að standa að þeim hótelrekstri eins og gert er. Það væri barnaleikur fyrir hvern sem er að reka hótel á þeim grundvelli að þurfa ekki að greiða fjárfestingar. Það gæti hver sem er gert. Ég er alveg viss um að hótelstjórinn á Hótel Sögu þægi það mjög gjarnan að þurfa ekki að greiða þá fjárfestingu sem þar liggur í byggingunum við rekstur þess fyrirtækis. Og ég tel miklu eðlilegra, ef menn eru að hugsa sér rekstur af þessu tagi, að viðkomandi sveitarfélög, sem eiga þessar byggingar, fengju að njóta þess með einhverjum hætti. Það er líka sýnilegt að ef ríkinu væri gert að borga leigu fyrir það skólahúsnæði sem ferðaskrifstofan notar á sumrin til hótelrekstrar væri þessi rekstur í dúndrandi tapi. Það segir sína sögu um þann rekstur allan og það segir líka hversu nauðsynleg eða réttara sagt ónauðsynleg þessi starfsemi er.