23.10.1984
Sameinað þing: 9. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 437 í B-deild Alþingistíðinda. (264)

Umræður utan dagskrár

Jón Baldvin Hannibalsson:

Herra forseti. Hæstv. forsrh. hefur nú gefið skýringu á niðurlagi bréfs sem samninganefnd ríkisins sendi frá sér 16. okt. s.l. og sannanlega var afhent samningamönnum BSRB þá með þeim texta sem hv. þm. Karl Steinar Guðnason las hér áðan. Auðvitað verður ekki vefengt ef hér hafa orðið á mistök, en með hvaða hætti slík mistök geta orðið er erfitt að ímynda sér. Kannske er þetta táknrænt um það að stefnan sé svolítið á reiki.

Hv. 3. þm. Reykn. hóf þessar umr. með nokkrum spurningum sem hann beindi til hæstv. forsrh. Það voru spurningar um afskipti ríkisstj. af kjaradeilunni. Það voru spurningar um hina svokölluðu skattalækkunarleið, beiðni um að hún yrði skýrð ögn betur. Er verið að tala um lækkun skatta eða tilfærslu skatta? Hvernig hyggst hæstv. ríkisstj. mæta tekjumissi ríkisins? Á það að gerast með því að leggja á nýja skatta og aðra skatta eða á það að gerast með niðurskurði? Og þá niðurskurði á hverju og hversu miklum niðurskurði? Allt eru þetta eðlilegar spurningar. Þetta eru spurningar um stefnu ríkisstj. sem eru fram bornar á Alþingi Íslendinga, á þeim stað þar sem slíkar spurningar á að bera fram, á þeim stað þar sem svör við slíkum spurningum eiga að heyrast.

Ég verð að játa að mér fannst þau svör sem hingað til hafa verið gefin úr þessum ræðustól býsna hálfkveðnar vísur.

Hæstv. forsrh. sagði: Það er meginstefna þessarar ríkisstj. eins og annarra, sem hæstv. ráðh. kvaðst þekkja til, að ríkisstj. eigi ekki að skipta sér af samningum á hinum frjálsa vinnumarkaði sem fram eiga að fara á ábyrgð samningsaðila. Að vísu hefðu verið undantekningar frá þessu. Það var sú undantekning að ríkisstj. hóf feril sinn með því að afnema samningsrétt um skeið og setja lög um kjör um nokkurt skeið. Það voru líka undantekningar frá þessari meginreglu þegar síðast reyndi á samninga, þ.e. í febrúar s.l., vegna þess að þá kom ríkisstj. að samningaborðinu, að vísu við lok samninga, og gerði ákveðnar ráðstafanir í málum sem til hennar var beint. Ég fæ þess vegna ekki séð að það standist að það sé meginstefna ríkisstj. að hafa ekki afskipti af kjaramálum. Þvert á móti held ég að dæmin sanni að ríkisstj. geri það. Ég veit ekki betur en að í tilboði ríkisstj. um hina svokölluðu skattalækkunarleið felist afskipti af kjaramálum, þó að þau afskipti séu til komin heldur seint. Kannske er á það að reyna þessa dagana að það sé eftir dúk og disk.

Ég sagði að svörin væru nánast hálfkveðnar vísur vegna þess að það hafa ekki fengist svör við þessum spurningum. Reyndar, ef ég tók rétt eftir, sagði forsrh. að ekki væri æskilegt að gefa þessi svör skilmerkilega. Hæstv. forsrh. sagði eitthvað á þá leið að þeim mun hærri prósentuhækkanir sem um yrði samið í þessum samningum, þeim mun lægri hlytu skattalækkanirnar að verða. Það er nákvæmlega sú hugsun sem fram er sett í þessu bréfi sem nú er upplýst að hafi verið dregið til baka. Nefnilega að eftir að nokkrir aðilar hér í þjóðfélaginu hafi samið um peningalaunahækkanir e.t.v. á bilinu 19–24% hafi ríkisstj. viljað árétta að þar með sé skattalækkunarleiðin, umfram það sem fyrir liggur í fjárlagafrv., dregin til baka. Þetta vekur óhjákvæmilega upp spurningu. Ef það er rétt, sem hæstv. forsrh. segir, að skattalækkunarleiðin sé enn í fullu gildi, hvað hyggst ríkisstj. þá gera gagnvart þeim starfsmannafélögum sveitarfélaga og prenturum sem þegar hafa samið um prósentuhækkanir á bilinu 20% og yfir? Hvað hyggst ríkisstj. gera í því tilviki? Þeim mun hærri prósentuhækkanir, þeim mun lægri skattatilslakanir, sagði forsrh. Er það þá hugmynd hæstv. forsrh. að afnema þessa kjarasamninga? Varla getur hitt staðist, að skattalögum eigi að breyta eftir á til samræmis við gerða kjarasamninga. Þetta sýnir að mál eru komin í ógöngur. Og það var auðheyrt á máli hv. þm. Karls Steinars Guðnasonar að þeir Verkamannasambandsmenn hafa nú þegar, eða eru sýnilega að glata trúnni á það að hin boðaða leið skattalækkananna sé fær. Fyrir nú utan það að það er spurt af sérstakri ástæðu. Þegar hæstv. forsrh. segir að ríkisstj. hafi skipað nefnd í þessu skyni, nefnd sé að undirbúa slíkar tillögur, og hæstv. forsrh. lýsir því yfir að út frá hans skoðunum eigi þetta að vera þríþætt leið, þ.e. tekjutapi vegna skattalækkunar eigi að mæta með niðurskurði á ríkisútgjöldum, nýjum skattaálögum og hugsanlega innlendri lántöku, þá er alveg óhjákvæmilegt fyrir hv. alþm., sem væntanlega eiga að greiða atkvæði hér á hv. Alþingi um þær tillögur sem hér er lýst, að spyrja að hve miklu leyti skuli beita niðurskurði. Niðurskurði á hverju?

Því er haldið fram í fullri alvöru að í því sem hæstv. fjmrh. kallar fjmrn. nr. 2., þ.e. hjá Vinnuveitendasambandi Íslands uppi í Garðastræti, liggi fyrir drög að nýju fjárlagafrumvarpi. Í því fjárlagafrumvarpi liggi fyrir tillögur um niðurskurð á öllum framlögum til landbúnaðar svo nemi mörgum hundruðum millj. kr. Ég spyr: Hefur hæstv. forsrh. meiri hluta fyrir þessu nýja fjárlagafrv. í þingflokki sínum? Ég spyr ekki aðeins hvort hv. þm. Þórarinn Sigurjónsson styðji þessa tillögu. Mig langar til að beina þeirri spurningu til hæstv. landbrh. hvort hann hafi séð þetta nýja fjárlagafrv., sem búið er að búa til úti í bæ, og hvort hann t.d. mundi ljá þessu nýja fjárlagafrv. stuðning sinn. Mig langar til að beina þeirri spurningu til Egils bónda á Seljavöllum, hv. landsk. þm., hvort hann muni ljá slíku fjárlagafrv. stuðning sinn í þingflokki þeirra sjálfstæðismanna. Ég spyr m.ö.o.: Liggur það fyrir að hæstv. ríkisstj. geti boðið þessa leið? Hefur hún til þess athygli innan sinna þingflokka? Liggur það fyrir, með leyfi að spyrja, ef það á að mæta tekjutapinu með nýjum skattaálögum, með hvaða sköttum það skuli gert? Er það meining hv. ríkisstj. að þetta eigi bara að vera skattatilfærsla, að það eigi að mæta tekjutapinu að verulegu leyti með nýjum eyðslusköttum, þá væntanlega í gegn um hið hripleka söluskattskerfi? Er stuðningur fyrir því í þingflokkum stjórnarliða? Og með leyfi að spyrja: Á að mæta óskum manna um mannsæmandi laun á Íslandi að hluta til með nýjum lántökum, jafnvel þótt á innlendum lánsfjármarkaði sé? Er fylgi fyrir því á Alþingi Íslendinga að við förum að slá lán fyrir launagreiðslum? Er ekki nóg, þegar allt er komið í rúst í húsnæðislánakerfinu, að fjármagna það með erlendum lánum? Er ekki nóg þegar stoppað var upp í fjárlagagat hæstv. fjmrh., þegar svo langt var gengið að það voru slegin erlend lán fyrir barnsmeðlögum? Er fylgi fyrir þessu, ekki aðeins innan þingflokka stjórnarliða, er fylgi fyrir þessu á Alþingi Íslendinga? Ef það er meining hæstv. ríkisstj. að bjóða ákveðna kosti í þessum efnum, og það er auðheyrt á ýmsum málsvörum stjórnarandstöðunnar, auðheyrt á málsvörum Verkamannasambands Íslands, að fyrir slíkri leið er ákveðið fylgi, ef það fæst skilgreint þannig að menn geti tekið afstöðu til þess hvað menn eru að meina, ef það er ekki bara verið að fara með hálfkveðnar vísur, hversu miklar eiga þá skattalækkanir að vera, hversu mikill niðurskurður og niðurskurður á hverju? Er þetta bara orðakonfekt eða er raunverulegur þingmeirihluti á bak við þessar tillögur?

Ég verð að játa hreinskilnislega að þegar spurt er um svo sjálfsagða hluti sem stefnu ríkisstjórnar Íslands og það er boðað að ríkisstj. muni kannske innan tíðar leggja fram slíkar tillögur tel ég að ekki sé hægt að fara með slíkar tillögur sem hernaðarleyndarmál. Stefna hæstv. ríkisstjórnar Íslands má ekki vera hernaðarleyndarmál. Hæstv. ríkisstj. hefur auðvitað afskipti af kjaramálum og kjarasamningum. Auðvitað er það rangt að meginstefnan sé að gera svo ekki. Það væri æskilegt í einhverri draumaveröld að til þess þyrfti ekki að koma, en í hvert skipti sem á reynir hefur hæstv. ríkisstj. haft slík afskipti og mun gera það. Spurningin er: Hvernig, með hvaða hætti? Hverjar eru tillögurnar? Er fylgi fyrir þeim? Og ef hæstv. ríkisstj. ætlar innan skamms að leggja til ákveðnar tillögur að öðru leyti, sem meta má sem ígildi kjarabóta, — má ég þá minna 6v. 3. þm. Reykv. á eftirlætisslagorð hans og það sem eftirminnilegast er eftir honum haft, „slétt skipti“ — ef hæstv. ríkisstj. ætlar að leggja fram tillögur um lækkun vaxta, er til of mikils mælst að hv. alþm. fái að vita um það? Það er ekki nóg að hæstv. félmrh. tali um okurvexti. Það er ekki nóg að hæstv. ráðh. tali sumir hverjir um Seðlabankaslys í vaxtamálum. Það er ekki nóg að hæstv. forsrh. lýsi því yfir að hann telji að núverandi vaxtastefna fái ekki staðist. Hin sjálfsagða krafa er að hæstv. ríkisstj. leggi fram skilmerkileg svör við einföldum spurningum um hver stefna hennar er. Og ef hún vill leggja fram ákveðnar tillögur um að endurreisa það húsnæðislánakerfi sem við ræddum í dag og sýndum fram á að væri hrunið er auðvitað hægt að meta slíkar umbætur til kjarabóta. En þær verða ekki metnar til kjarabóta ef ekki fást um þær upplýsingar, ef þær eru hernaðarleyndarmál. Hvernig eiga velviljaðir menn í forustu Verkamannasambands Íslands, sem vilja feta nýjar leiðir, að koma fram fyrir sína umbjóðendur og segja: Við höfum lagt okkur alla fram um að fara ekki gömlu leiðina, — ekki kollsteypuleiðina. sem hv. þm. Þorsteinn Pálsson rifjaði upp fyrir hv. 3. þm. Reykv. að væri honum gamalkunn — hvernig eiga þeir að koma til sinna umbjóðenda ef þeir fá engin svör? Þeir vita ekki hvað þeir eru að tala um.

Herra forseti. Leyfist mér að vitna í óopinbert málgagn hæstv. forsrh., gefið út úr Commander-tölvu á verkfallsdögum, en þar var í fréttaskýringu fyrir nokkrum dögum komist svo að orði:

„Í allt sumar hafa forustumenn stjórnarflokkanna flotið sofandi að feigðarósi. Þeir hafa sett sér markmið um gengismörk, verðbólgumörk og hlutfall erlendra skulda og sagt sem svo: Til þess að þessi markmið náist mega peningalaunahækkanir,“ eins og það heitir nú, „ekki fara yfir 5% að jafnaði á árinu 1985 og engar fram að því.“

Það var spurt um hver væri stefna ríkisstj. í kjaramálum. Svarið við því var að hæstv. ríkisstj. setti þar fram ákveðinn ramma, rígskorðaðan ramma. Hún sagði, og það mega menn meta við hana ef það var sannleikurinn, hún sagði fyrir fram: Þetta er það sem er til og meira er ekki til. Þetta var ramminn. — Enn fremur segir hér með leyfi forseta:

„Það er mikill álitshnekkir fyrir stjórnvöld,“ — þá er verið að vísa til samninga um 20% peningalaunahækkanir — „því að fyrr í deilunni hefði þeim verið í lófa lagið að stuðla að samningum sem væru allt að helmingi lægri.“

Hv. þm. Karvel Pálmason vitnaði í kaupkröfur Alþýðusambands Vestfjarða og fór nokkrum orðum um að þær kröfur sem voru á bilinu 7% væru af því taginu. En það er ekki kjarni málsins að mínu viti, engan veginn. Það sem er kjarni málsins er ósköp einfaldlega þetta: Ef hæstv. ríkisstj. hefur einhverja þá stefnu sem hún hyggst sigla eftir í skattamálum, í vaxtamálum, í húsnæðismálum, sem hún hefur ástæðu til að ætla að ábyrgir forustumenn launþegasamtaka á Íslandi tækju gilda sem ígildi raunverulegra kjarabóta, þá bar hæstv. ríkisstj. að sjálfsögðu að setja þessa stefnu fram. Að leggja slík mál fyrir þegar í upphafi þings, ef ekki fyrr, en koma ekki eftir á með hálfkveðnar vísur um að hún sé hugsanlega tilbúin í að gera eitthvað af þessu án þess að nokkur maður, hvorki hér á hv. Alþingi né heldur við samningaborðið sjálft, fái skýr svör, sem hafi einhverja merkingu, um hvað í þessu felst.

Auðvitað er hægt að hafa um þetta langt mál, en ég ætla ekki að gera það að sinni. Mönnum virðast þetta vera flókin mál og menn hafa það sterklega á tilfinningunni að eftir þessi langvarandi og dýru verkföll sé komið í algert óefni. Málin séu komin í öngþveiti. Það er reyndar langt síðan hæstv. ríkisstj. missti öll tök á þróun mála.

Ég vil hins vegar árétta það að hversu flókið sem þetta sýnist vera á yfirborðinu, þá er kjarninn mjög einfaldur. Hæstv. ríkisstj. hefur látið undir höfuð leggjast allan stjórnartímann að hlusta á þær raddir í þjóðfélaginu sem hafa sagt: Þið eruð í þann veginn að misbjóða réttlætiskennd Íslendinga. Þið hafið sætt ykkur við að í landinu eru orðið tvær þjóðir. Það er ekki lengur ein þjóð og ein lög. Það eru tvær þjóðir. Önnur þjóðin hefur fært fórnir að beiðni ríkisstj. í trausti þess að þar á móti kæmu aðgerðir í tæka tíð, sem varðveittu þennan árangur. Það er nákvæmlega þarna sem ríkisstj. hefur brugðist. Hún greip ekki til slíkra ráðstafana í tæka tíð. Þess vegna hefur hún glatað tiltrú, þess vegna hefur hún glatað trausti og þegar hún núna loksins, seint og um síðir, fer að tala um aðrar leiðir, aðra stefnu en fylgt hefur verið hingað til, án þess hins vegar að virða hvort heldur er þing eða verkalýðshreyfinguna þess að útskýra nákvæmlega í hverju þessar tillögur eru fólgnar, þá á verkalýðshreyfingin auðvitað engra kosta völ annarra en þessara venjulegu. Að segja ósköp einfaldlega: Við krefjumst þess að það séu borguð mannsæmandi laun fyrir heiðarlegt vinnuframlag. — Svo einfalt er það. Það er hin gamla og einfalda krafa launþegahreyfingarinnar þegar hluti þjóðarinnar, sem hefur tekið á sig allar fórnirnar, er orðinn svo hart keyrður að hann ber ekki meiri byrðar. Þegar engar ráðstafanir hafa verið gerðar allan þennan tíma til að jafna þessum byrðum með öðrum hætti, t.d. í húsnæðismálum, t.d. í vaxtamálum, t.d. í málefnum sjávarútvegsins, þá er að lokum svo komið að tiltrúin er rofin. Þá koma ábyrgir stjórnmálamenn og gera þessa kröfu: Mannsæmandi laun fyrir heiðarlegt vinnuframlag. En það eru bara engir peningar til. Hvar eru peningarnir? Ef það væri staðreynd í íslensku þjóðfélagi að ástandið í sjávarútveginum, að ytri skilyrði sem við fáum ekki við ráðið væru slík að þetta væri gott og gilt svar, þá yrðum við náttúrlega að beygja höfuð okkar í auðmýkt og sætta okkur við örbirgð. Vegna þess að kjörin eru komin á örbirgðarstig hjá hluta þjóðarinnar. En svarið við því er einfali. Ef það þarf að gera gagngerðar breytingar í þjóðfélaginu, ef það þarf að gera gagngerðar breytingar á stjórnarstefnunni, ef það þarf að framfylgja gagngerðum breytingum á skattastefnunni, húsnæðismálastefnunni, stefnunni í vaxtamálum, þá ber að gera það sem gera þarf til þess að atvinnulífinu sé unnt að greiða mannsæmandi laun. Þetta er spurning um tilverurétt þessarar þjóðar. Og þetta er spurning um þjóðfélagslegt réttlæti. Ef það þarf að færa til fjármuni frá þeim sem hafa makað krókinn til hinna sem hafa fært fórnirnar og borið allan skaðann þá ber að gera það. Ög það ber að gera það hér á löggjafarþingi þjóðarinnar. Þess vegna þurfum við skýr svör. Það á að lækka tekjuskatta. Og hvernig á að mæta því? Það á ekki að mæta því með nýjum neyslusköttum. Það á að mæta því t.d. með því að afnema flestallar, ég segi flestallar, undanþágur frá söluskatti sem mundi færa ríkissjóði milljarða kr. Það á að gera það með því. (Gripið fram í.) Ég kem að því seinna, hæstv. viðskrh. —Það á að gera það með því að einfalda söluskattskerfið þannig að í framkvæmdinni skili það enn öðrum duldum milljörðum kr. sem er stungið undan í því skattakerfi.

Hæstv. viðskrh. sagði: Hækka matvörur. Það eru hundruð undanþága frá söluskattinum nú, hæstv. viðskrh., mörg hundruð, bæði sett með lögum, sett með reglugerðum, sett með auglýsingum, sett með geðþóttaákvörðunum. Þær nema hundruðum. Þegar ég lagði fram fsp. til hæstv. fjmrh. fyrir nokkrum dögum fékk ég þau svör frá virtum embættismanni í fjmrn. að honum væri nær skapi að biðja um tvö stöðugildi sérfræðinga í fjmrn. til þess að semja þá bók, vegna þess að bókin um undanþágurnar frá söluskatti mundi fylla á annað hundrað blaðsíðna og yrði ekki tilbúin, miðað við það vinnuálag sem á þeim hvílir í fjmrn., fyrr en á bak jólum. (Gripið fram í.)

Ég sagði: Það eru tvær þjóðir í landinu. Önnur þjóðin hefur á löngum tíma, líka á vitlausa áratugnum, hv. 3. þm. Reykv., rakað að sér verulegum eignum. Hvernig? Með því að eiga greiðan aðgang að bankakerfi, með því að fá niðurgreidd ódýr lán, með því að fá allar sínar skuldir dregnar frá sköttum og með því minnkað þá eðlilegu byrði af tekjuskatti sem henni hefði réttilega borið. Þarna eru peningarnir saman komnir. Ég bið hv. þm. að spyrja sjálfa sig einnar spurningar: Hvað halda hv. þm. að það séu margir einstaklingar og lögaðilar á Íslandi sem eiga Ísland eins og nú er komið málum? Og hvað borga þessir aðilar í skatt? Við þessa aðila tel ég að sé kominn tími til að segja, eins og Mondale sagði reyndar við þá sem maka krókinn í þjóðfélagi Reagans það er kominn tími til að segja við þessa aðila í íslensku þjóðfélagi: Veislunni er lokið. Það er kominn tími til þess að borga reikninginn af verðbólgugróðanum.