25.02.1985
Efri deild: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3160 í B-deild Alþingistíðinda. (2644)

323. mál, iðnþróunarsjóðir landshluta

Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Ég vil taka undir efni þessa frv. að því leyti að ég held að það sé alveg ótvírætt hvaða ávinningur felst í því fyrir landshluta að hafa iðnþróunarsjóð. Slíkur sjóður var stofnaður á Suðurlandi þegar verið var að vinna að því að reist yrði steinullarverksmiðja í Þorlákshöfn og enda þótt sá tilgangur sjóðsins næðist ekki var þar tvímælalaust um framfaraspor fyrir svæðið að ræða.

Við þekkjum hvað það eru margvíslegar hugmyndir um atvinnustarfsemi víða úti um land sem of þungt er fyrir menn að hrinda í framkvæmd nema þeir hafi einhvern stuðning. Slíkur sjóður getur lagt fram upphæðir sem geta riðið baggamuninn þó að þær séu ekki mjög stórar.

Ég get ekki heldur séð að sú hugmynd sé neitt fjarri lagi, sem þarna er sett fram, að til viðbótar framlögum sveitarfélaganna komi gjald á orkuverin. Flm. færði rök að því að þar geti beinlínis verið um ávinning fyrir orkuverin að ræða ef því fylgir aukin orkunotkun. Á Suðurlandi hefur lengi verið uppi sú skoðun að óeðlilegt væri að mestöll orkan væri flutt út úr landshlutanum án þess að reynt yrði að nýta hana að örlitlum hluta og þá til iðnaðar á svæðinu sjálfu. Í þessu frv. er þó ekki farið inn á að gera þetta landshlutabundið nema að litlu leyti þar sem meiri hlutinn á að renna í iðnþróunarsjóðina um allt land af því gjaldi sem hér er lagt til að lagt verði á.

Ég vil því beina því til hv. iðnn. að hún skoði það mjög ítarlega. Að hvað miklu leyti þörf er á að lögbinda það sem sveitarfélögin sjálf hafa í hendi sér hvort sem er skal ég ekki segja um.a.m.k. verði skoðað rækilega hvernig megi afgreiða þetta mál þannig að það geti orðið til stuðnings þeirri stefnu, sem því er ætlað að marka, að efla atvinnulífið úti um land.