25.02.1985
Efri deild: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3161 í B-deild Alþingistíðinda. (2645)

323. mál, iðnþróunarsjóðir landshluta

Flm. (Óli Þ. Guðbjartsson):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þá umr. sem þetta frv. hefur þegar fengið hér í deildinni. Sérstaklega vil ég þakka fyrir þá flokkslegu breidd, ef svo má segja, sem umr. hefur borið með sér. Það sýnir í sjálfu sér að hér í deildinni er vakandi vilji til þess að eiga þátt í raunhæfum aðgerðum í þessu efni.

Í sjálfu sér er ekki að furða þó hæstv. iðnrh. hafi haft sterka fyrirvara á ýmsum þáttum þessa frv. Ég bjóst ekki við öðru. En engu að síður hefur komið greinilega fram í máli allra sem hér hafa talað að menn finna það vel að hér er verulegra umbóta þörf.

Það kom fram í máli hv. 8. þm. Reykv. að frv. gerði eiginlega ráð fyrir miðstýringu eða samþjöppun valds. Í mínum huga er það hins vegar þveröfugt. Iðnþróunarsjóðir landshluta dreifast eðli sínu samkvæmt um allt landið og þeir hljóta þar af leiðandi að hafa í sér fólgna dreifingu valds og dreifingu fjármagns, en megintilgangur með frumvarpsflutningnum er einmitt sá að finna leiðir til að auka fjármagnsstreymi inn á þetta svið.

Það er rétt, sem hér hefur komið fram, að vitaskuld er til heimild til að stofna til slíkra sjóða og þeir hafa verið stofnaðir. En mergur málsins er sá að þeir eru ekki stofnaðir á þann veg sem hér er lagt til. Þar er einungis um að ræða, eins og ég gat um í framsögu minni, fjármagn frá sveitarfélögunum sjálfum sem eru yfirhlaðin verkefnum, eins og hér hefur ríkulega verið á bent af ýmsum aðilum. Þess vegna er meginnauðsynin sú að búa til farvegi fyrir fjármagn inn á þessi svið annars staðar að öllum til hagsbóta. Ég fæ ekki betur séð en umr. hér sýni að við getum í rauninni öll sameinast í þessu stórmáli í einum allsherjar sjálfstæðissósíalisma.