26.02.1985
Sameinað þing: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3195 í B-deild Alþingistíðinda. (2668)

263. mál, ullariðnaðurinn

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Til að meta stöðu og horfur ullariðnaðarins hef ég látið gera athugun á greinum hans og einstökum rekstrarþáttum hverrar greinar fyrir sig. Náði sú athugun yfir árin 1970–1984. Þar er byggt á skýrslu Þjóðhagsstofnunar að hluta og enn fremur öðrum upplýsingum sem til féllu.

Hér er enn fremur spurt hvort rn. telji eðlilega þá breytingu sem hafi orðið á afkomu og verðmætahlutdeild fyrirtækjanna frá því á árinu 1985. Þótt það eigi í sjálfu sér örðugt með að meta hvað fyrirspyrjandi á við um eðlilega þróun, þá verður ekki hjá því komist að álíta að svo hafi ekki verið. Ég tek þó skýrt fram að til að meta hvað sé eðlilegt og hvað ekki í ullariðnaði sem og öðrum iðngreinum er ekki nóg að líta einungis á þróunina hér heima fyrir. Menn verða að hafa það hugfast að án nákvæmra athugana heima fyrir sem og erlendis hjá helstu samkeppnisaðilum munu vandamál, sem blasa við iðngreinum heima fyrir, ekki verða leyst, hvort sem það er ullariðnaður eða annar iðnaður. Íslendingar eiga við sívaxandi alþjóðlega samkeppni að etja á heimamarkaði sem og erlendis og þá samkeppni verða þeir að standast ef takast á að viðhalda og bæta þau lífskjör sem við búum við í dag. Menn verða að gera sér grein fyrir langtímaþróun iðngreina og hvert stefnir þar á alþjóðamörkuðum og haga aðgerðum sínum eftir því, í stað þess að horfa til eins eða tveggja ára eða jafnvel nokkurra mánaða, eins og okkur hefur allajafna hætt til.

Ráðuneytið athugaði, að vísu lauslega, þróunina í vefjariðnaðinum hin síðustu 10 árin. Helstu þættir innlendu þróunar ullariðnaðarins eru m.a. þessir: Ef athuguð er hlutdeild einstakra greina í vöruútflutningnum 1974–1984 eftir verðmæti kemur í ljós að heildarútflutningur hefur vaxið um 127% að verðmæti í Bandaríkjadollurum talið. Af því hefur verðmæti sjávarafurða vaxið um 107% og iðnaðar, að áli og kísiljárni meðtöldu, um 206%, en 209% ef ekki er talið með ál og kísiljárn. Á sama tíma hefur verðmæti útfluttra ullarvara aukist um 288% og er það athyglisvert í samanburðinum.

Hlutdeild ullarvöru eftir verðmæti af heildarvöruútflutningi iðnaðarvara, að meðtöldu áli og kísiljárni, hefur þó ekki aukist nema um 3% á sama tíma eða úr 11 % 1974 í 14% 1984 þar sem útflutningur annarra greina hefur vaxið einnig. Skv. úttekt Þjóðhagsstofnunar og fleiri aðila á hag ullariðnaðarins var afkoma í öllum greinum hans, þ.e. hjá spunaverksmiðjum, prjónastofum og saumastofum og útflytjendum, allgóð 1981 á mælikvarða hreins hagnaðar fyrir skatta og sýndu allar greinarnar nokkurn hagnað. Afkoma árin 1983–1984 var hins vegar nokkuð breytt á þann veg að afkoma prjónastofa og saumastofa hafði versnað töluvert og voru báðar greinarnar reknar með tapi 1984, saumastofur með 2.9% tapi og prjónastofur 1.1%. Á sama tíma hafði hagur spunaverksmiðja og útflytjenda batnað eða staðið í stað í versta falli frá 1981. En þó hafði hagur útflytjenda batnað einna mest og var hagnaður þeirra um 9.6%. Það er þetta sem fjallað er um í lið 2, þar sem spurt er hvort eðlilega megi telja þá breytingu sem orðið hafi á afkomu og verðmætahlutdeild fyrirtækjanna frá árinu 1981 og kemur það fram í þessum svörum. Skýringar á þessum breytingum eru sennilega af tvennum toga spunnar vegna hinnar innlendu þróunar, þ.e. verðlagsbreytinga og framleiðsluvandamála.

Í fyrra lagi, hvað verðlagsbreytingar snertir, er ljóst að afkomuþróun einstakra greina er verulega háð hækkunum á afurðum og hráefnum og hlutfallinu þar á milli, en frá ársmeðaltali 1983 hefur þetta hlutfall verið nokkuð óhagstætt fyrir saumastofur vegna misvægis milli þróunar gengis og innlends kostnaðarverðlags.

Skv. spá OECD fyrir helstu samkeppnislönd okkar í ullariðnaði fyrir 1984–1985 er verðbólga þar um 4–7% á meðan við höfum búið við mun hærri verðbólgu eins og menn þekkja. Mönnum má vera ljóst að þetta er vandamál sem fyrirtæki okkar á útflutningssviðinu hafa við að glíma og verður ekki bætt nema menn vinni bug á verðbólgunni, eins og allir a.m.k. játa í orði, þótt í framkvæmdinni vilji það nú ganga úrskeiðis eins og hefur sýnt sig á umliðnum árum, því allir hafa haft uppi góðu áformin en minna orðið úr, eins og dæmin sönnuðu og alveg einkum og sér í lagi hjá ríkisstjórninni 1980–1983.

Fjármagnskostnaður ullariðnaðarins vegna afurðalána hefur líka verið mun meiri að minni hyggju en hann hefði þurft að vera þar sem afurðalán hans hafa verið í SDR-mynt, þ.e. miðast við hin svonefndu „sérstöku dráttarréttindi“ og hefur það orðið mjög íþyngjandi fyrir iðnaðinn. Skv. heimildum Seðlabanka Íslands eru afurðalán til ullariðnaðarins nú að upphæð um 315 millj. Hefðu framleiðendur fengíð að taka lánin t.d. í einhverri Evrópumynt, svo sem pundum eða svissneskum frönkum, hefði hækkun lánanna vegna gengissigs og vaxta verið allt að 50% minni á s.l. ári en hún varð.

Þá er skýringa á þessum vanda að hluta til að leita í vandamálum sem upp hafa komið í framleiðslunni sjálfri. Skv. mati Þjóðhagsstofnunar batnar afkoma í öllum greinum ullariðnaðar 1984 þegar tillit hefur verið tekið til magnaukningar sem aðallega er til komin vegna þess að afkastageta framleiðslu í öllum greinum var vannýtt áður og magnaukningin þýddi þannig betri nýtingu fasteigna, véla og tækja. Ef hins vegar er skoðuð þróun framleiðni í ullariðnaði 1970–1982 kemur ýmislegt athyglisvert í ljós. Í heild eykur vefjariðnaðurinn framleiðni sína um 42%. Þar af eykst framleiðni í spunaverksmiðjum um 61%, prjónastofum um 50% en framleiðni saumastofa minnkaði á sama tíma um 2%. Geta menn skilið hve örlagarík áhrif slíkt hefur á afkomu þeirra fyrirtækja.

Ef við aðeins lítum í upplýsingaskyni á atvinnuþróun sem átt hefur sér stað í vefjariðnaði erlendis þá kemur fram að um verulega fækkun starfsfólks er að ræða í þessum greinum í helstu samkeppnislöndum. Þannig fækkaði ársverkum á árunum 1970–1982 í Þýskalandi um 42%, í Danmörku um 39% og í Svíþjóð um 62%. Það hefur því orðið veruleg fækkun starfsfólks í vefjariðnaði í nálægum löndum.

Á sama tíma hefur ársverkum hins vegar fjölgað á Íslandi um 13%. Ísland er m.ö.o. eina landið sem hefur fjölgað störfum í þessari iðngrein. Ekki er þó við aukningu að búast í þessari grein á næstu árum nema við aukum samkeppnishæfni okkar verulega frá því sem nú er.

Herra forseti. Ég mun reyna að stytta mál mitt en ýmislegt fleira fróðlegt hafði verið hér saman tekið sem mér gefst því miður ekki tími til að drepa á nú. (Forseti: Hæstv. ráðh. skal bent á að hann hefur farið út fyrir tímamörk.) Ég hafði þetta einhvern veginn á meðvitundinni og þess vegna ávarpaði ég hæstv. forseta sérstaklega til að biðja um náð og miskunn eins og í mínútu til viðbótar.

Iðnrn. mun beita sér fyrir því að auka samkeppnishæfni í ullariðnaði sem öðrum greinum og því hefur rn. ákveðið að styrkja úttekt á rekstri einstakra fyrirtækja í ullariðnaði skv. beiðni Landssambands prjóna- og saumastofa um 40% af kostnaðarhlutdeild sem áætluð var í upphaflegri kostnaðaráætlun Landssambands prjóna- og saumastofa frá því 11. okt. 1984, eða um 300 þús. kr.

Ég tek undir það með fyrirspyrjanda að afvinnugrein þessi er mjög mikilvæg vegna atvinnumála á landsbyggðinni og ber því að styrkja hana og styðja.