24.10.1984
Efri deild: 6. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 446 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

85. mál, rannsóknarnefnd til að rannsaka afskipti ráðherra og embættismanna af rekstri ólöglegra útvarpsstöðv

Flm. (Eiður Guðnason):

Virðulegi forseti. Ég hef á þskj. 87 leyft mér að flytja ásamt hv. þm. Ragnari Arnalds, Stefáni Benediktssyni og Sigríði Dúnu Kristmundsdóttur till. til þál. sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:

Ed. Alþingis ályktar að kjósa sjö manna rannsóknarnefnd skv. ákvæðum 39. gr. stjórnarskrárinnar. Verkefni nefndarinnar séu:

1. að kanna embættisleg afskipti einstakra ráðh. að rekstri þeirra útvarpsstöðva er héldu uppi ólöglegri starfsemi í verkfalli opinberra starfsmanna, m.a. hvort ráðh. hafi látið undir höfuð leggjast að sinna ótvíræðum skyldum sínum eða hafi með atbeina sínum torveldað réttum aðilum rannsókn þessara mála;

2. að kanna afskipti embættismanna af rekstri áðurgreindra útvarpsstöðva og gang kærumála vegna reksturs stöðvanna. Nefndin skal einnig kanna aðra þætti þessara mála eftir því sem henni þykir ástæða til og nauðsynlegt reynist. Hún skal í störfum sínum hafa fullan rétt til allra upplýsinga frá opinberum aðilum og einstaklingum eftir því sem nauðsynlegt reynist. Fundir nefndarinnar skulu haldnir í heyranda hljóði. Skal nefndin skila Alþingi skýrslu um störf sín eigi síðar en tveimur mánuðum eftir samþykkt þessarar ályktunar. Kostnaður við störf nefndarinnar greiðist úr ríkissjóði.“

Nú er það öllum kunnugt að þá hurfu starfsmenn Ríkisútvarpsins, sjónvarps og hljóðvarps, brott af sínum vinnustöðum á hádegi þann 1. þessa mánaðar þegar í ljós kom að hæstv. fjmrh. og ríkisstj. höfðu tekið þá ákvörðun að greiða þeim ekki laun nema fyrir þrjá daga mánaðarins.

Þessi ákvörðun þeirra starfsmanna var auðvitað röng og ég mæli henni ekki bót. En það ber þó að hafa í huga að hún var tekin undir geðhrifum þeirrar ákvörðunar ríkisstj. að borga fólki ekki kaup. Hún var tekin þegar menn höfðu nýtekið við launaávísunum sem voru frá 70–80 kr. og upp í nokkur hundruð kr. Þessa ákvörðun ber því að skoða í ljósi þessarar aðgerðar hæstv. ríkisstj. sem lögfræðinga greinir mjög á um hvort hafi verið lögmæt eður ei.

Þetta varð til þess að útvarp féll niður og fjölmiðlun átti sér ekki stað í þjóðfélaginu. Ég er þeirrar skoðunar og lýsi því afdráttarlaust yfir að sú staða megi ekki koma hér upp aftur. Vegna þess að hún er andstæð lýðræðinu og gerir það raunar að verkum að lýðræði er ekki lengur til staðar nema að afar takmörkuðu leyti. Það gerðist svo fljótlega að menn fóru að heyra hér til ólöglegra útvarpsstöðva. Ég segi „ólöglegra útvarpsstöðva“ enda þótt ráðh. ýmsir og fleiri hafi dregið í efa að þessar stöðvar væru ólöglegar. Skal ég nú rökstyðja það fáeinum orðum hvers vegna ég tel að þessar útvarpsstöðvar hafi verið ólöglegar.

Í fyrsta lagi eru í gildi hér á landi lög um fjarskipti sem Alþingi samþykkti í fyrra. Í 1. gr. þeirra laga eru fjarskipti skilgreind þannig, með leyfi forseta: „Hvers konar sending og móttaka tákna, merkja, skriftar, mynda og hljóða eða hvers konar boðmiðlun eftir leiðslum með rafsegulöldum (radio) eða öðrum rafsegulkerfum eða með sjónmerkjum.“

Síðan segir aftur í 2. gr. þessara fjarskiptalaga:

„Ríkið hefur einkarétt á að stofna til og reka á Íslandi og í íslenskri landhelgi og lofthelgi hvers konar fjarskipti svo og að gefa út nafnaskrá um fjarskiptastöðvar og notendur fjarskiptavirkja.“

Þetta var tilvitnun í fjarskiptalög. Í 1. gr. útvarpslaga segir svo, með leyfi forseta:

„Ríkisútvarpið er sjálfstæð stofnun í eigu íslenska ríkisins.“

Um sjálfstæði þeirrar stofnunar geta menn kannske haft vissar efasemdir eftir afskipti ráðh. af starfsemi hennar núna í verkfallinu. Þar á ég við það þegar hæstv. menntmrh. gaf útvarpsstjóra fyrirmæli um að ekki mætti hafa neitt samband eða samskipti við samtök opinberra starfsmanna og þeirra verkfallsnefnd í þessu verkfalli. Ég hef fyrir mér og hef séð bréf hæstv. ráðh. til útvarpsstjóra um þetta efni. (Gripið fram í.) Við getum rætt þetta hér síðar, hæstv. menntmrh. Ég fullyrði það að hæstv. menntmrh. skrifaði útvarpsstjóra bréf og sagði honum að öll samskipti Ríkisútvarpsins vegna þessara mála og núverandi deilu ætti að vera við kjaradeilunefnd. Það stóð að vísu ekki í bréfinu, en þar var undirskilið að verkfallsnefnd BSRB væri ekki aðili að þessu máli. Ráðh. les sjálfsagt mönnum hér þetta bréf á eftir. En um sjálfstæði þeirrar stofnunar gagnvart ráðh. geta menn efast eftir þau afskipti, hygg ég. En það er önnur saga.

Í 2. gr. þessara laga segir:

„Ríkisútvarpið hefur einkarétt á útvarpi, þ.e. útsendingu til viðtöku almennings á tali, tónum, myndum eða öðru efni hvort sem er þráðlaust eða með þræði eða á annan hátt. Í þessu skyni reisir Ríkisútvarpið sendistöðvar og endurvarpsstöðvar eftir þörfum.“

Ég hygg að þessi lagaákvæði um einkarétt ríkisins til útvarpsreksturs séu alveg ótvíræð og raunar hafa þau ekki verið dregin í efa fyrr en núna í þessu verkfalli. Ég minnist þess a.m.k. ekki að þessi ákvæði hafi áður verið dregin í efa. Raunar hefur formaður Sjálfstfl., hv. þm. Þorsteinn Pálsson, nú látið svo um mælt í þingræðu hér í Nd. að það mætti draga í efa hvort þessi ákvæði væru í samræmi við stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Það er athugunarefni þegar slík athugasemd kemur frá formanni stærsta stjórnmálaflokksins á Íslandi.

Ég hygg að með vísan til þessara lagaákvæða, annars vegar í fjarskiptalögum, hins vegar í útvarpslögum, fari það ekkert á milli mála að starfsemi þeirra útvarpsstöðva, sem hér var um að ræða, var ólögleg. Nú skal ég taka það skýrt fram til að fyrirbyggja allan misskilning og útúrsnúning, sem þegar hefur átt sér stað, að ég er fylgjandi því að þessi einkaréttur Ríkisútvarpsins verði afnuminn og fleiri aðilar fái leyfi til að reka útvarpsstöðvar. Ég er fylgjandi því og undirstrika þá skoðun hér. En það er ekki það sem þetta mál snýst um. Þetta mál snýst um það hvort farið var að lögum í þessu tilviki.

Menn tala um frelsið og tjáningarfrelsið fögrum orðum, einkum þeir sem ráku þessar útvarpsstöðvar. Oft á tíðum hafa þeir haft frelsið og tjáningarfrelsið á tungu. En ég vil minna þá ágætu menn og sömuleiðis hæstv. ráðh., sem hér eru, á orð dr. Bjarna Benediktssonar fyrrv. formanns sjálfstfl. og forsrh. sem hann mælti í ræðu árið 1955 og ég hef áður vitnað til í Sþ. en leyfi mér að vitna til hér enn að nýju í þessari hv. deild. Í bókinni Land og lýðveldi á bls. 271 er ræðukafli sem fyrrv. forsrh. dr. Bjarni Benediktsson flutti á árinu 1955. Hann segir þar:

„Þeir sem unna frelsinu verða að muna að formlegt frelsi er ekki nóg. Þeim ber að hjálpast að til að gera hverjum og einum mögulegt að njóta lífsins og frelsisins og leita hamingjunnar eftir eigin vild innan ramma laganna.“

Ég endurtek: „innan ramma laganna“, sagði dr. Bjarni Benediktsson. Það er kjarni þessa máls. Ég bið menn að hafa í huga þessi ummæli hins látna leiðtoga Sjálfstfl. sem unni frelsinu og sem unni líka lögum og rétti. Menn geta flett upp í þingtíðindum og lesið hans gagnmerku ræðu um þau efni, manns sem gerþekkti sjálfstæðisbaráttu þjóðarinnar og hafði ríka þjóðerniskennd og þjóðernisvitund. „Innan ramma laganna,“ sagði hann.

En það er eitthvað annað sem núv. forusta Sjálfstfl. hefur að leiðarljósi í þessum málum. Þeir frjálshyggjupostular, peningamagnspostular, sem nú hafa tekið völdin í stærsta stjórnmálaflokki þjóðarinnar, hafa þetta ekki að leiðarljósi. Hvað sagði formaður Sjálfstfl. hv. þm. Þorsteinn Pálsson þegar þessi mál bar á góma hér í Sþ. og verið var að ræða um rekstur þessara stöðva? Hann sagði: „Menn hafa fundið æðra lögmál.“ Það er umhugsunarefni. Það er líka umhugsunarefni þegar haft er eftir ráðh. í útvarpi að svo mörg lögbrot hafi verið framin þessa dagana að það verði að skoða málin í samhengi seinna. Þó að hæstv. ráðh. hafi að vísu síðar gefið skýringu á þeim ummælum sínum var þetta afskaplega óheppilega orðað og gaf vissulega tilefni til að skilja það eins og ég hygg að flestir hafi skilið.

Þessi aðdragandi þessa útvarpsmáls er mönnum býsna kunnur. En það sem þessi till. beinist að er að kosin verði hér sérstök rannsóknarnefnd til að kanna hvort ráðherrar hafi með afskiptum sínum eða afskiptaleysi haft þau áhrif á athugun þessa máls sem ekki samrýmist þeirra embætti og skyldum. Skal ég nú víkja að því nokkru nánar.

Fyrst ætla ég þó að nefna nokkrar dagsetningar því að í till. er einnig vikið að því hvort afskipti embættismanna í þessu máli hafi verið svo sem skyldi. 1. okt. gengu starfsmenn útvarps og sjónvarps út af sínum vinnustað, sem var röng ákvörðun — ég endurtek það. 3. okt. var byrjað að útvarpa úr Valhöll, skrifstofu Sjálfstfl. við Háaleitisbraut 1. 3. okt. hófst fréttaútvarp DV. 5. okt. ritaði útvarpsstjóri saksóknara ríkisins bréf. 8. okt., þremur dögum seinna, skrifar saksóknari bréf til Rannsóknarlögreglu ríkisins. 10. okt. er útsending útvarpsstöðvanna stöðvuð að réttum lögum.

Þeirri rannsóknarnefnd, sem till. er hér gerð um, ber að kanna hvort þetta mál hafi gengið með eðlilegum hraða fyrir sig, þ.e. hvort þessar dagsetningar, 3. oki., 5. okt., 8. oki., 10. oki. séu eðlilegar. Mig minnir að þegar saksóknari ríkisins taldi ástæðu til aðgerða gegn blaði, Speglinum held ég, hafi verið meiri hraði á öllum aðgerðum. Þá lögðu menn nótt við nýtan dag til að gera þetta blað upptækt sem ég hef aldrei séð og veit ekki hvort ástæða var til að ráðast gegn með þeim hætti sem gert var. En það leið ekki vika frá því að þetta blað var flutt á blaðsölustaði og þangað til það var gert upptæki. En hér líður vika tæp og ég leyfi mér að hafa þá skoðun og taka þá ekki mjög sterkt til orða að það hafi ekki verið mikill áhugi hjá ráðamönnum á því að þetta mál fengi fljótan framgang. Ég leyfi mér að draga það í efa.

Nú eru dagblöð farin að koma út aftur og flytja fréttir af því sem gerst hefur í þessari deilu. Það er fróðleg lesning vegna þess að Morgunblaðið hefur ekki verið til að mynda skoðanir undanfarnar vikur, en nú á að fara að búa til nýjan sannleika. Nú er verið að setja fram nýjar kenningar og nýjar skoðanir í Morgunblaðinu. Í dag er næstum heilsíðuviðtal við framkvæmdastjóra Sjálfstfl. um þetta mál. En áður en ég vík að því og því sem þar gerðist verður að vitna stuttlega til þeirrar skýrslu frá radíóeftirliti Landssímans um för eftirlitsmanna að Háaleitisbraut 1, sem prentuð er sem fskj. með þessu frv. Ég ætla að leyfa mér, með leyfi virðulegs forseta, að lesa þessa skýrslu hér, en hún er svohljóðandi:

„Skýrsla radíóeftirlits Landssímans um för eftirlitsmanna að Háaleitisbraut 1. Reykjavík 4. 10. 1984.

Hr. yfirverkfræðingur,

Gústaf Arnar.

Síðdegis í gær bárust radíóeftirlitinu fréttir um að ólögleg útvarpsstöð væri með sendingar í Reykjavík. Við, undirritaður ásamt Hjálmari Árnasyni skoðunarmanni, fórum þá þegar af stað til leitar. Við miðun frá Suðurveri við Stigahlíð reyndist stefnan vera norður Kringlumýrarbraut á tíðnunum ca. 100, 102, 104 og 106 MHz. Sterkust var sendingin á 102 MHz. Kölluð var til lögregla og kom bíll nr. 25 skömmu síðar. Tveir lögreglumenn voru í bílnum, þeir Haukur Ásmundsson lögregluflokksstjóri, nr. 38, og Þórður Þórðarson lögreglumaður, nr. 151. Með stöðuga miðun var keyrt frá Suðurveri norður Kringlumýrarbraut og reyndist þá sendingin koma frá húsi Sjálfstfl. við Háaleitisbraut 1.“ — Ég endurtek þessa setningu, virðulegi forseti: „Og reyndist þá sendingin koma frá húsi Sjálfstfl. við Háaleitisbraut 1.“

„Þar sem auglýsingasími útvarpsstöðvarinnar var gefinn upp í útsendingu hjá auglýsingastofu Ólafs Stephensen, síma 685716 var ákveðið að fara þangað. Í anddyri hússins var staddur Kjartan Gunnarsson, framkvstj. Sjálfstfl., og reyndi hann strax að meina okkur aðgang. Að lokum fékkst leyfi til að fara upp á 3. hæð, þar sem stofan er, í fylgd Kjartans. Þess skal getið að á þessari stundu hafði sending verið stöðvuð. Á auglýsingastofunni voru fyrir nokkrir starfsmenn stofunnar, en Ólafur var ekki við.

Radíóeftirlitið gerði kröfu um að fá að kanna húsakynni stofunnar. Lögreglumennirnir vildu þá kalla til Magnús Einarsson aðstoðaryfirlögregluþjón og kom hann skömmu síðar ásamt Ólafi Stephensen sem einnig var kallaður til. Að sögn Magnúsar viðurkenndi Ólafur fyrir honum að hann hefði leyft afnot af símanúmeri sínu til að taka á móti auglýsingum fyrir „Frjálst útvarp“, en að öðru leyti væri hann ótengdur málinu. Ólafur leyfði að radíóeftirlitið skoðaði húsakynni sín og gerðum við það. Ekkert þar inni benti til að sending ætti sér stað þaðan. Radíóeftirlitið gerði þá kröfu til lögreglunnar um að fá að fara upp á þak hússins til að kanna loftnet og leiðslur frá þeim.“ — Ég vek sérstaka athygli á þessu: „Radíóeftirlitið gerði þá kröfu um að fá að fara upp á þak hússins til að kanna loftnet og leiðslur.“

„Magnús Einarsson fór formlega fram á þetta við Kjartan eftir að Magnús hafði áður ráðgast við William Möller lögfræðing lögreglunnar. Kjartan Gunnarsson taldi sig einnig þurfa að ræða við sína lögfræðinga áður en hann tæki slíka ákvörðun. Skömmu seinna kom hann aftur og neitaði að gefa slíka heimild“ — þ.e. heimild um að fara upp á þak og horfa á loftnet-„fyrr en hann hefði ráðfært sig við flokkinn á fundi sem ætti að vera á föstudaginn komandi. Jafnframt þessu bauð hann viðstöddum að koma niður á skrifstofu flokksins á 2. hæð.

Davíð Oddsson borgarstjóri, sem áður hafði fylgst með málum, kom í þessu og tilkynnti að hann hafi verið að ræða við ráðh. póst- og símamála“ — og skylt er að skjóta því hér inn í að það var þá hæstv. fjmrh. Albert Guðmundsson — „og að ráðh. hefði sagt að þetta væri ekki gert með heimild og vitund sinni. Á flokksskrifstofunni hringdi borgarstjóri aftur í ráðh. póst- og símamála og ræddi við hann um aðförina, rétti síðan Magnúsi Einarssyni símann og sagði að ráðh. vildi tala við hann. Eftir stutt símtal lagði Magnús á og tilkynnti að þar sem yfirmaður póst- og símamála hefði ekki veitt heimild fyrir þessu, þá stöðvaði lögreglan frekari aðgerðir í málinu og færi. Borgarstjóri bað viðstadda að fylgja okkur út úr húsinu og læsa framdyrum hússins.“

Þetta er athyglisverður pistill. Þetta er skýrsla opinberra starfsmanna sem voru þarna í löglegum erindagerðum og ætluðu ekki að gera neina húsleit hjá Sjálfstfl. eins og hér hefur verið haldið fram og framkvæmdastjóri flokksins hefur haldið fram. Þeir ætluðu að fá að fara upp á þak hússins og kanna loftnet og leiðslur. Hvers vegna slíkt var ekki leyft geta menn haft ýmsar hugmyndir um. En þarna voru á ferðinni opinberir starfsmenn í löglegum erindagerðum vegna lögbrots sem framið hafði verið og það hefur enginn efi komið fram um að þessi stöð hafi raunverulega verið staðsett í húsi Sjálfstfl.

Nú er hins vegar reynt að búa til aðra mynd og þá kem ég að þessu viðtali við framkvæmdastjóra Sjálfstfl. í Morgunblaðinu í dag. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Kjartan var þá spurður hvaðan frjálst útvarp hefði sent út.“ Hann svarar nokkru seinna: „Ég vissi ekki nákvæmlega allan tímann hvaðan við sendum út, “ — Er það nú útvarpsstjóri — „enda er ég ekki mjög fróður um tæknileg efni.“

Nú liggur það fyrir í opinberri skýrslu og það er vandalaust fyrir menn með tiltölulega einföldu tæki að miða út slíka stöð með fullkominni nákvæmni. Engar brigður hafa verið bornar á það. En hér í Morgunblaðinu er verið að búa til nýjan sannleika með þessari grein um það að þessi stöð hafi ekki verið í sjálfstæðishúsinu, sem hún var og tiltölulega auðvelt er að fá staðfestingu á. Hér segir í „fréttum“, innan gæsalappa þó, sem þetta svokallaða „frjálsa útvarp“ þeirra sjálfstæðismanna sendi út ef fréttir skyldi kalla, með leyfi forseta:

„Breska útvarpið BBC og breska sjónvarpsstöðin VISNEWS hafa myndað upptökur og sendingar frjáls útvarps og von er á fleiri útvarps- og sjónvarpsstöðvum erlendis í heimsóknir í dag og á morgun.“

Það eru til myndir af þessari starfsemi í sjálfstæðishúsinu. Hún fór fram a.m.k. á tveimur stöðum, í kjallara hússins og uppi á 2. hæð. Þarna tóku menn myndir. Svo er verið að reyna að búa til nýjan sannleika í Morgunblaðinu um að framkvæmdastjóri flokksins, sem stóð fyrir þessu fyrirtæki ásamt framkvæmdastjóra þingflokks sjálfstæðismanna og fleiri valinkunnum sómamönnum eins og Hannesi Hólmsteini Gissurarsyni, hafi ekkert komið nálægt þessu og sjálfstæðishúsið hafi aldrei verið neitt inni í þessari mynd. Þetta er dæmi um vonda fjölmiðlun. Það er ekki beinlínis logið berum orðum í þessu viðtali, en mikið skrambi fer það nálægt því. Þegar svona vinnubrögð eru uppi höfð af hálfu stærsta blaðs þjóðarinnar og framkvæmdastjóra stærsta flokks þjóðarinnar, hvert stefnum við þá?

En þetta er því miður ekki einsdæmi. Ég hnaut um frásögn í málgagni forsrh. og Framsfl., NT, í morgun sem er umhugsunarefni, að ekki sé meira sagt, í sambandi við fjölmiðlun og fréttaflutning. Þar segir, með leyfi forseta:

„Einhver tók eftir því á dögunum er Jón Baldvin var í ræðustól á Alþingi og mæltist skörulega sem hans er vandi, að blaðamaður NT skrifaði mikið og af ákefð. Þá var það að Jón Baldvin tók upp eintak af TNT, veifaði því og las úr fréttaskýringu, en kallaði blaðið jafnframt hálfopinbert málgagn Steingríms Hermannssonar. Hætti blaðamaðurinn þá að skrifa, horfði á Jón um stund en reif síðan þau blöð sem hann hafði skrifað á af blokkinni og fleygði þeim í ruslafötuna vitandi að það var ekkert að marka ræðuna.“

Ef blaðamennska á Íslandi er komin á þetta stig eins og viðtalið við framkvæmdastjóra Sjálfstfl. í Morgunblaðinu og þessi klausa í NT bera með sér, þá erum við á hættulegum brautum. Menn geta reyndar líka gert það sér til dundurs að lesa þessar svokölluðu fréttir t.d. úr útvarpi þeirra sjálfstæðismanna í Valhöll. Ég ætla að lesa hérna eina setningu, með leyfi hæstv. forseta. Verið er að fjalla um kjaradeilu bókagerðarmanna og þar segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Morgunblaðið hefur á prjónunum að stofna nýtt stéttarfélag þar sem allir starfsmenn ættu aðild að að meðtöldum félögum í Félagi bókagerðarmanna.“ —„Morgunblaðið hefur á prjónunum að stofna nýtt stéttarfélag.“ Það er ekki starfsfólkið sem ætlar að stofna stéttarfélag, það er Morgunblaðið sem ætlar að stofna stéttarfélag að mati þeirra háttvísu manna sem stjórnuðu þessu útvarpi þar sem þeir sem skrifuðu fréttirnar voru ekki skrifandi og þeir sem lásu þær voru ekki læsir. „Morgunblaðið ætlar að stofna stéttarfélag.“

Á enskri tungu er til orð yfir það sem ég hygg að menn eigi við þarna. Með leyfi forseta kalla Englendingar eða Bandaríkjamenn þetta „company union“ og þykir ekki merkilegt fyrirbæri. (Gripið fram í.) Það er allt í lagi þótt hæstv. ráðh. grípi svolítið fram í fyrir mér, ég ruglast ekkert þrátt fyrir það. (Fjmrh.: Þú ert ruglaður fyrir.) Já, hæstv. ráðh. verður auðvitað að hafa sínar skoðanir á því og ég geri ekkert til að breyta þeim. Hann má hafa þær í friði fyrir mér. En hversu smekkleg þessi ummæli hans eru, það munu aðrir dæma um en ég.

Ég ætla líka hér að minna á annað í sambandi við skrif um þetta mál undanfarna daga. Það eru ummæli í leiðara DV í gær. Þar segir:

„Steingrímur Hermannsson forsrh. og Jón Helgason dómsmrh. settu í gang Þórð Björnsson ríkissaksóknara“ — taki menn eftir orðalaginu „settu í gang“ — „og Hallvarð Einvarðsson rannsóknarlögreglustjóra. Þessir fjórir framsóknarmenn létu leggja hald á tækin.“

Það er ritstjóri sjálfsagt næststærsta blaðs þjóðarinnar sem skrifar þetta. En það er ekki allt búið enn. Hann segir, með leyfi forseta:

„Lesendur þurfa ekki lengur að gera sér að góðu hlutdrægni fréttastofu Ríkisútvarpsins og hinar mjög svo vanstilltu BSRB-fréttir, sem voru skrifaðar í heiftúðugum stil Völkischer Beobaehter“ — nasistablaðsins illræmda.

Er svona málflutningur nokkrum manni sæmandi? Er hann sæmandi þeim sem tala um það núna að stofna þjóðarútvarp? Völkischer Beobachter. Þetta er fyrir neðan öll velsæmismörk.

Ég hef, virðulegi forseti, vikið hér að og lesið skýrslu radíóeftirlitsmanna um heimsóknina í Valhöll þar sem rekin var útvarpsstöð. Rekstur þeirrar útvarpsstöðvar í húsakynnum Sjálfstfl. er áreiðanlega einhver mesta pólitíska skyssa sem nokkur stjórnmálaflokkur hefur gert á Íslandi í áratugi. Ég veit að ýmsir sjálfstæðismenn eru því sammála vegna þess að þegar þetta vitnaðist gerðu ábyrgari menn í Sjálfstfl. ráðstafanir til þess að þetta yrði þegar í stað flutt úr húsakynnum flokksins. Og það var gert, en það var bara of seint. Þá var þetta flutt á ýmsa staði hér í bænum. Það var miðað út á mörgum stöðum og til eru skýrslur um það allt saman, Austurbrún, Espigerði og víðar, það liggur allt fyrir. Það er alveg ástæðulaust að vera að fara út í það, ég ætla ekki að gera það.

En það sem hlýtur að skipta hér máli eru afskipti ráðh. og í þessu tilviki afskipti hæstv. póst- og símamálaráðherra, Alberts Guðmundssonar, sem þá gegndi því embætti.

Ég held að þegar hann gefur löglegum eftirlitsmönnum í löglegum erindum fyrirmæli um að skipta sér ekki af málinu, hinni ólöglegu stöð í sjálfstæðishúsinu, þá hafi ráðh. ekki farið eftir réttum reglum. Ég held að það sé heiðarlegast og eðlilegast fyrir alla, fyrir hann líka, að þessi mál séu könnuð og dregin séu fram öll þau gögn sem máli skipta varðandi rannsókn þessa máls. Þegar ráðh. gefur opinberum starfsmönnum fyrirmæli um að skipta sér ekki af máli þar sem löggæslumenn eru á ferð, þá er það athugunar virði hvort hann hafi verið að gera rétt, ekki einu sinni heldur tvisvar. En hæstv. ráðh. er svo upptekinn að tala í símann núna að hann má ekki vera að því að fylgjast með umr. í þessari hv. deild.

En það voru fleiri hæstv. ráðherrar sem höfðu afskipti af þessu máli. Hæstv. póst- og símamálaráðherra Matthías Bjarnason kom til landsins í tæka tíð til þess að hafa af þessu máli nokkur afskipti og þann 7. eða 8. okt. hafði fréttastofa Ríkisútvarpsins samband við Matthías Bjarnason, hæstv. ráðh. samgöngumála, sem því miður er ekki hér á þinginu í dag. Ég ætla að lesa niðurlag þessarar fréttar Ríkisútvarpsins. með leyfi forseta. Þar segir:

„Einnig hafði fréttastofan samband við Matthías Bjarnason samgrh. Hann sagði að Landssíminn annaðist öll fagleg mál fyrir Ríkisútvarpið, en að öðru leyti heyrði það ekki undir samgrn. Matthías Bjarnason sagðist ekki ætla að ganga fram fyrir skjöldu í þessu máli nema menntmrn. færi fram á það, þá yrði það gert. Fréttastofan náði í kvöld sambandi við Ragnhildi Helgadóttur menntmrh. Hún sagði að það væri svo margt aðhafst ólögmætt þessa dagana að það yrði að skoða það í heild þegar verkfallinu lyki.“

Ég hygg að þetta hafi verið á föstudagskvöldi. En ráðh. hefur auðvitað fengið afrit af öllum fréttum Ríkisútvarpsins og veit þetta væntanlega betur en ég. Það hefur komið fram í fréttum. (Menntmrh.: Hver hefur sagt það?) Það hefur komið fram að ráðh. hafi beðið fréttastofu Ríkisútvarpsins um eintök af öllum fréttum fyrstu dagana. Ég hef ekki annað en orð starfsmanna fyrir mér um þetta og ég hygg að þeir hafi ekki verið að ljóstra upp neinu leyndarmáli. Raunar er ekkert við það að athuga. Ráðh. getur eins og aðrir fengið afrit af öllum fréttum Ríkisútvarpsins. Það er öllum mönnum frjálst.

Það er athugunarefni hvort hér hafi verið rétt að staðið. Því má svo við þetta bæta að fram kom að Póstur og sími óskaði eftir að fá undanþáguheimild til starfa fyrir einn mann til viðbótar til að vinna að mælingum á útsendingum þessara ólöglegu útvarpsstöðva. Sú beiðni var lögð fram en af hálfu hæstv. samgrh. var hún síðan dregin til baka. Það væri ekki ástæðulaust að fá skýringar hæstv. ráðh. á þeirri ráðstöfun. Hann hefur sjálfsagt einhver rök fyrir því.

Það er líka athyglisvert að hugleiða aðgerðaleysi hæstv. fjmrh., þáv. póst- og símamálaráðherra í ljósi þess sem hæstv. fjmrh. Albert Guðmundsson sagði í ræðu hér í gær, með leyfi forseta:

„Framkvæmdavaldið setur ekki lögin. Það er Alþingi sem setur lögin. Framkvæmdavaldið starfar ekki sem dómsvald. Það er þriðji aðilinn. En framkvæmdavaldinu ber skylda til að fara að lögum og eitt af því sem því ber skylda til er að benda á lögbrot til þess að dómsvaldið geti fjallað um þessi lögbrot og tekið ákvörðun um refsingar eða ekki refsingar. Menn verða þá bara að átta sig á því hvaða lög þeir eru að brjóta. Ef það er rétt að menn eru viljandi að brjóta lög sem kostar þá kannske átta ár í fangelsi eða meira, þá er eins gott að þeir viti a.m.k. hvaða lög þeir eru að brjóta og hvaða afleiðingar það getur haft.“

Þetta mælti hæstv. fjmrh. hér á þingi í gær. En hann kom í veg fyrir að embættismenn ríkisins gætu sinnt eðlilegum störfum sínum í Valhöll, húsi Sjálfstfl., að þeir gætu fengið að fara þar upp á þak og horfa á loftnet og leiðslur. Hæstv. ráðh. skuldar þjóðinni skýringu á þessu. Ég held að þegar þessi mál verða seinna skoðuð í samhengi muni það heyra til fádæma og þykja með eindæmum að stærsti stjórnmálaflokkur þjóðarinnar hafi gerst með þessum hætti verndari lögbrjóta, hafi skotið skjólshúsi innan sinna veggja yfir starfsemi sem ég tel mig hafa leitt ótvíræð rök að að var ólögleg. Ég hygg að það þyki ýmsum tíðindi að flokkur dr. Bjarna heitins Benediktssonar skyldi beita sér fyrir slíku atferli. Raunar veit ég að þetta vakti réttláta reiði margra flokksmanna Sjálfstfl.

Þetta er ekki spurningin um það hvort menn vilja fleiri útvarpsstöðvar eða ekki. Þetta er spurningin um að hlíta þeim lögum sem Alþingi hefur sett. Á það að vera svo að ef Sjálfstfl. líka ekki þau lög taki hann þau í sínar eigin hendur eins og gert var í þessu tilviki. Ég held að það ætti að vera okkur öllum umhugsunarefni.

Það mætti auðvitað, virðulegi forseti, tala um þetta langt um lengra mál, en ég er ekki viss um að ástæða sé til þess nú. Ég þykist hafa leitt að því rök að afskipti hæstv. ráðh. af þessu máli hafi ekki verið með þeim hætti sem eðlilegur má teljast. Ég þykist líka hafa leitt að því rök, m.a. með því að lesa hér dagsetningar, að þetta mál hafi ekki fengið hraða meðferð í kerfinu. Hvort það var eðlilegt eða óeðlilegt, um það skal ég ekki dæma. Það getur átt sér sínar skýringar, en þá er eðlilegt að þær komi í ljós. Ekki dugar að segja, eins og formaður Sjálfstfl. gerði, að menn hafi fundið æðra lögmál, það dugar ekki. Ég held að brýnt sé að allar staðreyndir þessa máls verði dregnar fram í dagsljósið.

Ég hef nokkra vissu fyrir því að þessi skýrsla, sem hér hefur verið vitnað til um för eftirlitsmannanna í Valhöll, hafi ekki endilega átt að birtast opinberlega. Um þetta mál, heimsóknina í Valhöll, eru líka til lögregluskýrslur. Ég hef ekki séð þær, en ég held að ástæða væri til að menn fengju að sjá þær nema að það eigi að stinga þeim undir stól. Ég skora á hæstv. ráðh., ef skjöldur Sjálfstfl. og þeirra er jafnhreinn í þessum efnum og þeir hafa viljað vera láta, að beita sér þá fyrir því að allar skýrslur og gögn um þetta mál verði lögð fram og verði þeim tiltæk sem vilja kynna sér hvort rétt hafi hér verið staðið að málum.

Í deilum eins og hér hafa staðið undanfarnar vikur gerist ýmislegt sem menn vildu að hefði kannske verið á einhvern annan veg á báða bóga. Menn segja kannske ýmislegt sem menn vildu ekki sagt hafa. En alltaf eiga menn leiðréttingu orða sinna þó að töluð orð verði hins vegar ekki tekin aftur. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt fyrir andrúmsloftið í þjóðfélaginu og nauðsynlegast af öllu fyrir flokk laga og réttar, Sjálfstfl., að þetta mál verði rannsakað fyrir opnum tjöldum og almenningur fái að vita alla söguna. Ég vona að sú saga verði ekki ljótari en það sem þegar liggur fyrir í skýrslum um þetta mál.

Ég ætla ekki að sinni, virðulegi forseti, að hafa þessi orð öllu fleiri. Það gefst sjálfsagt tilefni til þess að tala hér aftur við þessa umr.

Ég legg til að er umr. lýkur hér verði umr. um till. frestað og henni vísað til hv. allshn. þessarar deildar.