26.02.1985
Sameinað þing: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3199 í B-deild Alþingistíðinda. (2673)

295. mál, lánveitingar úr Byggingarsjóði ríkisins

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Sem svar við fsp. á þskj. 476 hef ég hér í höndum upplýsingar frá Húsnæðisstofnun ríkisins. — Ég vil fyrst leiðrétta hv. fyrirspyrjanda, hv. 2. landsk. þm. Það hefur hvergi verið gefin yfirlýsing um það frá minni hálfu að það fjármagn, sem á að taka til viðbótarlána fyrir húsbyggjendur sem eiga í erfiðleikum, yrði tekið af nýbyggingarlánum einvörðungu. Það hefur hvergi komið fram.

Svar við 1. fsp. hv. þm. er svohljóðandi: Þar sem lánsfjárlög hafa enn ekki verið samþykkt hefur húsnæðismálastjórn ekki enn ákveðið skiptingu útlána sjóðanna. sú skipting, sem fram kemur í lánsfjáráætlun sem liggur fyrir Alþingi, er gerð af fjárlaga- og hagsýslustofnun án afskipta Húsnæðisstofnunarinnar. Strax þegar fyrir liggur hvaða fjármagn Húsnæðisstofnun hefur til útlána á árinu 1985, eftir að lánsfjárlög hafa verið samþykkt, verður gefin út áætlun um útlán sundurliðuð eftir lánaflokkum, en fyrr ekki. Þar af leiðandi telur Húsnæðisstofnunin ekki eðlilegt að gefa sundurliðun skv. þessari fsp., enda er fsp. óraunhæf eins og hún er borin fram.

„2. Hve margar umsóknir liggja nú fyrir um lán í hverjum útlánaflokki fyrir sig hjá Byggingarsjóði ríkisins annars vegar og Byggingarsjóði verkamanna hins vegar?“

Fjöldi umsókna hjá Byggingarsjóði ríkisins: Nýbyggingar, 750 íbúðir: Óafgreiddar umsóknir vegna fokheldra íbúða fyrir s.l. áramót. Að vísu er hluti af þeim til afgreiðslu næstu daga. Nýbyggingar, 300 íbúðir: Lánshæfar umsóknir um s.l. áramót vegna íbúða sem ekki voru orðnar fokheldar og ekkert fokheldisvottorð hefur komið fram um enn. Nýbyggingar, 830 íbúðir: Innkomnar umsóknir frá einstaklingum frá 1. jan. 1985 til eindagans 1. febrúar s.l. sem er ekki farið að taka til skoðunar. Nýbyggingar, 1920 íbúðir: Bráðabirgðaumsóknir frá ýmsum framkvæmdaaðilum sem borist hafa á tímabilinu 1. jan. 1985 til 31. jan. 1985. Þetta eru bráðabirgðaumsóknir sem er ekki heldur farið að skoða enn í stofnuninni. Umsóknir um eldri íbúðir eru 1980, leiguíbúðir aldraðra 100, viðbyggingar og endurbætur 350 íbúðir, orkusparandi lán 200 íbúðir og vegna sérþarfa 10 íbúðir. Samtals liggja hjá Byggingarsjóði ríkisins í dag umsóknir um 6440 íbúðir.

Fjöldi óafgreiddra umsókna hjá Byggingarsjóði verkamanna: Umsóknir frá 23 sveitarfélögum vegna 108 íbúða. Einnig liggja fyrir umsóknin um byggingu á 282 leiguíbúðum skv. c-lið 33. gr. laga nr. 60/1984.

„3. Hvaða reglur munu gilda um þá aðstoð sem veitt verður þeim sem eru í greiðsluerfiðleikum og hafa fengið lán úr Byggingarsjóði ríkisins og Byggingarsjóði verkamanna á tímabilinu 1. janúar 1981 til desember 1984?“

Um þetta hafa verið settar ákveðnar reglur. Eins og kom fram hjá hv. fyrirspyrjanda er í gangi sérstök ráðgjafarþjónusta í stofnuninni sem greiða skal úr vandamálum fólks, bæði í viðtölum, bréfum og símtölum. Er víst byrjað að vinna úr þeim viðtölum og verður væntanlega hægt að afgreiða skv. þessum umsóknum strax eftir mánaðamót.

Þær reglur sem Húsnæðisstofnun samþykkti um þessi mál eru:

1. Lánshæfni umsækjenda. Þeir einir eru lánshæfir sem fengið hafa lán úr byggingarsjóðunum á tímabilinu 1. jan. 1981 til 31. des. 1984 til að byggja eða kaupa íbúð í fyrsta sinn. Tímamörk eru miðuð við lánveitingar, en ekki hvenær lánið er hafið. Við ákvörðun þess hvað teljast skuli fyrsta íbúð ber að fara eftir reglum Húsnæðisstofnunar þar um, sbr. t.d. 8. gr. reglugerðar um Byggingarsjóð ríkisins. Umsækjandi þarf jafnframt að fullnægja eftirfarandi skilyrðum: a) Fjárhagsvandi umsækjanda skal vera til orðinn vegna fjármögnunar íbúðarhúsnæðis af hóflegri stærð miðað við fjölskyldu hans. b) Greiðsluerfiðleikar umsækjanda þurfa að vera það miklir að hann sé í verulegri hættu að missa íbúð sína nema bráð aðstoð komi til. Vanskilaskuldir vegna íbúðarinnar sem fallnar eru í gjalddaga fyrir 1. jan. 1985 verða að jafnaði að nema a.m.k. 150 þús. til að umsækjandi teljist lánshæfur. c) Aðrir lánsmöguleikar umsækjanda skulu hafa verið fullkannaðir og nýttir. Nú er umsækjandi með skammtímalán í bönkum eða sparisjóðum sem hann á í erfiðleikum með áð greiða af samkvæmt umsömdum kjörum. Skal þá jafnhliða aðstoð hjá Húsnæðisstofnun ríkisins beina þeim tilmælum til viðkomandi lánastofnunar að umsækjanda verði gefinn kostur á skuldbreytingu þeirra lána til lengri tíma. Stefnt skal að því að um þetta verði gert sérstakt samkomulag við banka og sparisjóði. Undanskilin nefndum skammtímalánum skulu vera lán sem veitt hafa verið vegna væntanlegra húsnæðislána, lífeyrissjóðslána eða annarra tímasettra greiðslna.

2. Lánsfjárhæðir og lánskjör. Fjárhæðir veittra lána skulu vera 50–150 þús. kr. í hverju einstöku dæmi. Lánstími skal vera á bilinu 5 til 10 ár, en lánskjör að öðru leyti hin sömu og á F- og G-lánum Byggingarsjóðs ríkisins.

3. Tryggingar. Veitt lán skulu ásamt áhvílandi lánum, uppfærðum, að jafnaði vera innan við 75% af brunabótamati fasteignar.

4. Gögn sem fylgja þurfa umsókn: Veðbókarvottorð yfir íbúð umsækjanda, yfirlit yfir skuldir staðfest af lánardrottnum og ljósrit af skattframtali.

Í framhaldi af þessu vil ég geta þess að þegar eru hafnar viðræður við fulltrúa viðskiptabanka og sparisjóða um að taka þátt í þessari aðgerð og stendur til að athuga núna að þessir aðilar tilnefni fulltrúa í þá ráðgjafarnefnd sem fjallar endanlega um ákvörðun um aðstoð við viðkomandi skv. þeim gögnum sem fyrir liggja.

Ég vænti þess, herra forseti, að þetta svar sé nægjanlegt.