26.02.1985
Sameinað þing: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3204 í B-deild Alþingistíðinda. (2678)

288. mál, eftirlit með innflutningi matvæla

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Fyrsta spurningin er: „Hvernig er háttað eftirliti með innfluttum matvælum til landsins?“ Það hefur engin sérlöggjöf verið sett varðandi innflutningseftirlit með matvælum og er skipulegt eftirlit með innfluttum matvælum, áður en þau eru tollafgreidd, ekki framkvæmt hér á landi.

Um eftirlit með matvælum almennt og þar með innfluttum matvælum fer skv. lögum nr. 109 frá 1984, um hollustuhætti og heilbrigðiseftirlit, sem að grunni til eru frá árinu 1981 og byggja reyndar á erlendum lögum frá 1969 hvað þennan þátt snertir. Eftirlitið er í höndum heilbrigðiseftirlits sveitarfélaga, þ.e. hið almenna eftirlit er í höndum heilbrigðisfulltrúa sveitarfélaga. Hollustuvernd ríkisins hefur yfirumsjón með þessu starfi og sér um framkvæmd ákveðinna þátta, en stofnuninni er sérstaklega ætlað að vinna að samræmingu heilbrigðiseftirlitsins, þar með matvælaeftirlitsins, í landinu. Þeirri stofnun er hins vegar ekki ætlað það sem kallað hefur verið beint eftirlit nema um sé að ræða sérhæfð verkefni og þá eingöngu skv. lögum eða ákvörðun ráðh. Í þeim tilvikum er einkum um að ræða eftirlit sem krefst sérkunnáttu sem ekki er hægt að krefjast að heilbrigðisfulltrúar búi yfir. Má sem dæmi nefna eftirlit með mengun frá iðjuverum og geislavarnaeftirlit.

Þegar Hollustuvernd ríkisins tók til starfa 1. ágúst 1982 í kjölfar breyttra laga um heilbrigðiseftirlit í landinu fór stofnunin þess á leit við gerð fjárlaga fyrir árið 1983 að heimiluð yrði staða við stofnunina til að skipuleggja þetta eftirlit og að vera sveitarfélögum til ráðuneytis um framkvæmd þess. Ekki var fallist á þessa beiðni við gerð fjárlaga fyrr en ári seinna og í upphafi árs 1984 var ráðið í stöðuna. Það ár sem þessi staða hefur verið setin hefur aðallega verið unnið að gagnasöfnun með það fyrir augum að setja reglugerð um eftirlit með innflutningi matvæla.

Eins og sakir standa er eftirlit með innflutningi matvæla mjög takmarkað þar sem eftirlitsmenn í sérhæfðu matvælaeftirliti eru fáir og tækjabúnað skortir til að annast eftirlit á vissum sviðum. Sérstaklega skortir aðtöðu til að sinna eftirliti varðandi efnasamsetningu matvæla, notkun aukaefna og efnamengun matvæla. Hollustuvernd ríkisins hefur enga efnarannsóknarstofu þó svo stofnuninni sé ætlað að sinna slíkum rannsóknum skv. lögum og ákvæði hafi verið um rekstur slíkrar efnarannsóknarstofu allt frá árinu 1977 er fyrst voru sett lög um matvælarannsóknir hér á landi.

Ég vil leggja áherslu á að þegar sérstök mál koma upp í öðrum löndum, eins og t.d. ef hætta er á alvarlegum eitrunum af völdum matvæla, hefur Hollustuvernd ríkisins fengið tilkynningar um slík mál, ekki síst frá Norðurlöndum, en mjög góð samvinna hefur tekist á þessu sviði milli Norðurlandanna. Er tilkynnt þegar í stað um öll slík tilvik og ákveðnir aðilar eru tilnefndir af ríkisstjórnum viðkomandi ríkja sem tengiliðir.

Önnur spurning: „Hvaða reglur gilda um heilbrigðisog gæðavottorð?“ Almennt er ekki gerð krafa um heilbrigðis- eða gæðavottorð vegna innflutnings á matvælum og engar heildarreglur hafa verið settar um slík vottorð. Í þeim tilvikum þar sem farið er fram á vottorð frá framleiðanda eða innflytjanda er þess þó krafist að sá aðili sem veitir vottorðið sé viðurkenndur af eftirlitsaðila. Í þeim tilvikum sem um er að ræða einkaleyfi til innflutnings, eins og t.d. varðandi grænmeti og landbúnaðarafurðir, gildir að sjálfsögðu annað. Þau mál heyra hins vegar undir landbrn.

Þriðja spurning: „Stendur til að endurskoða lög um þessi efni?“ Í sjálfu sér er ekki þörf á nýjum lögum á þessu sviði heldur að settar verði fastmótaðar reglur og þeim verði framfylgt. Á vegum Hollustuverndar ríkisins er nú unnið að gagnasöfnun vegna fyrirhugaðra reglna um eftirlit með innflutningi matvæla. Verður unnið að þessu í nánu samstarfi við embætti tollstjóra. Komið hefur verið á fót norrænni nefnd, sem starfar á vegum norrænu ráðherranefndarinnar, og er hlutverk hennar að koma á samstarfi milli aðildarríkja um innflutningseftirlit með matvælum og samræma eftirlitið. Er gert ráð fyrir að samstarf milli Norðurlandanna á þessu sviði hefjist á þessu ári. Þetta starf mundi í byrjun nýtast okkur fyrst og fremst í þeim tilvikum þegar tilkynningar koma frá eftirlitsaðilum hinna Norðurlandanna um að innflutningur hafi verið stöðvaður á ákveðnum vörum.

Þær breytingar sem gera þarf hér til að koma á þessu norræna samstarfi snerta fyrst og fremst samræmingarþáttinn, þ.e. að í gildi séu hliðstæðar reglur. Nefna má sem dæmi lista yfir viðurkennd aukaefni í matvælum og reglur um merkingu umbúða fyrir matvæli. Að báðum þessum verkefnum er unnið á vegum Hollustuverndar ríkisins og verða væntanlega fljótlega settar reglur hér að lútandi. Einnig kemur til álita að taka upp staðla fyrir matvæli, sem samþykktir hafa verið af Alþjóðastaðlaskrárráðinu, en Ísland er aðili að því samstarfi.

Nýlega hef ég skipað íslenska staðlaskrárnefnd og verður eitt af meginverkefnum nefndarinnar að gera tillögur til stjórnvalda varðandi matvælastaðla sem æskilegt væri að taka upp vegna innflutningseftirlits með matvælum. Hvernig skipulagningunni verður hins vegar háttað í framtíðinni er erfitt að segja um á þessu stigi en ekki er ólíklegt að einn liður í auknu innflutningseftirliti verði sá að krefjast heilbrigðis- og gæðavottorða frá framleiðanda eða innflytjanda í ríkari mæli en nú er gert.

Menn verða líka að gera sér grein fyrir því að skipulagning og markviss uppbygging innflutningseftirlits með matvælum kostar töluvert fé. Má þar nefna kostnaðarliði eins og skipulagningu og hönnun húsnæðis, tækjakaup og ráðningu starfsfólks fyrir efnarannsóknarstofu Hollustuverndar ríkisins, kaup á tölvu og telexvélum vegna skráningar og úrvinnslu gagna, m.a. með tilliti til þess norræna samstarfs sem ég áðan gat um. Við gerð fjárlaga á undanförnum árum hefur stjórn Hollustuverndar ríkisins ítrekað farið fram á ákveðnar úrbætur í þessum málum og notið stuðnings rn. í því sambandi. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að ef við ætlum að koma hér upp markvissu innflutningseftirliti kostar það fé og eins og í pottinn er búið verður það að koma úr sameiginlegum sjóði landsmanna a.m.k. stofnkostnaðurinn.

Enn fremur má benda á það að innflutningur matvæla fer fram á tiltölulega fáum og afmörkuðum stöðum á landinu svo að spurningin er hvort ekki þurfi meiri miðstýringu þess eftirlits í samvinnu við tollayfirvöld. En að þessari athugun er nú markvisst unnið.