26.02.1985
Sameinað þing: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3209 í B-deild Alþingistíðinda. (2682)

260. mál, útlán banka og sparisjóða

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. svör hans. Það vekur vissulega athygli að um þetta geta bankar og sparisjóðir sameinast, að neita að gefa Alþingi upplýsingar eins og hér er um spurt og skjóta sér á bak við bankaleynd og þagnarskyldu. Ég verð að segja að þetta vekur furðu mína. Leynd yfir slíkri starfsemi gerir auðvitað ekkert annað en að skapa tortryggni. Þær spurningar sem ég hef sett fram eru allar þess eðlis að þeim á að vera hægt að svara án undanbragða, enda þótt þess verði gætt um leið að bankarnir brjóti ekki trúnað við viðskiptamenn sína. Það er alveg ljóst að þessa samtryggingu bankakerfisins þarf að rjúfa og skylda þá til þess að gefa Alþingi slíkar upplýsingar. Hér er ekki verið að spyrja um nein nöfn, ég hélt að það hefði komið nægjanlega skýrt fram í fsp., og ekki stöðu einstakra viðskiptamanna eins og sagt var í einu svarinu. Hér er einungis spurt um heildarfyrirgreiðslu viðskiptabanka og þriggja stærstu sparisjóðanna til fimm stærstu lántakenda einstakra banka og sparisjóða.

Það er algengt í bankalögum hjá nágrannaþjóðum okkar að þar eru ákvæði sem eiga t.d. að tryggja að bankarnir láni ekki einum viðskiptamanni eða einu fyrirtæki, sem eru fjárhagslega tengd hvort öðru, óhæfilega mikið fé, t.d. miðað við eiginfjárstöðu bankanna. Ég held að það sé aldeilis nauðsynlegt að slíkt ákvæði verði leitt hér í lög og ekki síst að þegar og ef hæstv. viðskrh. leggur fram frv. til nýrra bankalaga fyrir Alþingi verði í því ákvæði sem tryggi að Alþingi geti fengið slíkar upplýsingar sem hér er spurt um. Ég spyr hæstv. ráðh. um skoðun hans á því efni, í fyrsta lagi hvort hann telji ekki að lögfesta eigi slíkt ákvæði sem tryggi að bankar láni ekki neinum viðskiptamanni eða fyrirtæki óhæfilega mikið fé, t.d. miðað við eiginfjárstöðu, og í annan stað hvort hann sé ekki þeirrar skoðunar, ef það er rétt að bankarnir geti skotið sér á bak við slíka bankaleynd, sem ég vart trúi, að setja beri þá inn ákvæði sem skikki þá til þess að veita Alþingi slíkar upplýsingar. Ég vil mjög gjarnan heyra skoðanir hæstv. ráðh. í þessu efni.

Það væri líka fróðlegt að heyra skoðanir ýmissa bankaráðsmanna sem hér eiga sæti. Ég sé hér t.d. bankaráðsmennina hv. þm. Valdimar Indriðason og hv. þm. Garðar Sigurðsson. Eru þeir því sammála að slík leynd eigi að hvíla yfir bankastarfsemi eins og komið hefur fram í þessum svörum? Leggja þeir virkilega blessun sína yfir það að Alþingi fái ekki slíkar upplýsingar? Það væri mjög fróðlegt að fá fram svör þeirra við því í þessum umr. Er þetta svona agalegt, sem þarna skeður varðandi lánveitingar og annað, að Alþingi geti ekki fengið upplýsingar um það?

Það er staðreynd að það verður að rjúfa þá samtryggingu bankakerfisins sem hér á sér stað.