26.02.1985
Sameinað þing: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3211 í B-deild Alþingistíðinda. (2684)

260. mál, útlán banka og sparisjóða

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Ég skal ekki hafa þetta langt mál.

Ég tel að fram komi þegar í þessari stuttu umr. hinn meinlegi ágalli á því að ríkið skuli eiga banka. Ef þessir bankar ætla að starfa eftir þeim vinnureglum sem bankar alls staðar í heiminum fylgja almennt, þ.e. að halda viðskiptum sínum leyndum að því leyti að gefa einstöku aðilum ekki innsýn inn í hagi eða stöðu einstakra viðskipaaðila, rekumst við á þá staðreynd að ákveðnir aðilar hins pólitíska valds hafa þessar upplýsingar, sitja að þeim og geta hagnýtt sér þær með þeim hætti sem þeir telja hentugast hverju sinni. Þá er ég ekki endilega að gera þeim upp illar hugsanir eða fyrirætlanir, en við erum að upplifa valdþættingu í þessu þjóðfélagi þar sem kjósandanum, þ.e. sá sem á tyllidögum á landið, er meinað um bæði upplýsingar og þar með vald sem hann aftur á móti framselur til sinna pólitísku fulltrúa og þeir geta í skjóli upplýsingaleyndar notað að eigin geðþótta. Ég tel að þetta mál verði ekki leyst nema með einni aðferð. Hún er einfaldlega sú að ríkið afsali sér eignaraðild að þessum peningastofnunum og hætti afskiptum sínum af þeim.