26.02.1985
Sameinað þing: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3213 í B-deild Alþingistíðinda. (2688)

260. mál, útlán banka og sparisjóða

Guðrún Helgadóttir:

Herra forseti. Nú æsist leikurinn. Fyrst vil ég svara hv. 5. landsk. þm. Eiði Guðnasyni. Það skiptir auðvitað ekki neinu máli hvort flokkarnir kjósa þm. eða einhverja kommissara sína úti í bæ. Alþb. hefur gert það líka. Það hefur ekki einungis kjörið þm. í bankaráð. Það gildir þó einu því að auðvitað gangast þeir allir undir sömu bankaleyndina. Ég sé ekki hverju það kunni að breyta.

Orð hæstv. ráðh. voru harla merkileg. Hann talar á mjög gamaldags hátt um trúnað milli bankans og viðskiptavina — að sjálfsögðu hinna stóru viðskiptavina því að það ríkir enginn trúnaður milli litla fólksins og bankanna, það er nú eitthvað annað. Ég hlýt að spyrja: Fólk gefur upp til skatts í þessu landi. Ég veit ekki hvernig aðrir gera það, en ég er krafin um hvað ég skulda, hverjum ég skulda, hvað ég hef í tekjur o. s. frv. Þurfa einhverjir í þessu landi ekki að gefa upp skuldir sínar? Það þættu mér töluverð tíðindi. — Það er sorglegt að hæstv. fjmrh. skuli ekki vera hér. — En það kynni að gefa nokkra vísbendingu um ástæður fyrir því að til eru þm. sem hafa opinber gjöld á borð við menn sem eiga olíufélög, tollvörugeymslur, flugfélög, skipafélög og annað slíkt. Þar skyldi nú aldrei vera skýringin komin, að það fólk þarf ekki að gefa upp hvar það fær peninga. Ef maður skuldar bönkunum þá er það trúnaðarmál. Þannig skil ég þessa umr.

Hv. félagi minn, 4. þm. Suðurl. og bankaráðsmaður, Garðar Sigurðsson ætlaði að reyna að sannfæra þingheim um að menn væru ekki í bankaráðum til að hygla kjördæmum. Það hefur aldrei neinum dottið í hug að hann væri að hygla kjördæmi sínu í bankaráði. Það hefur ekki hvarflað að mér. Ég vil alveg hafa það skýrt. (Forseti hringir.) Hitt er annað mál að kannske var hann að segja það sem skiptir máli, að bankaráðsmenn gera nefnilega ekki neitt. Þeir botna ekki neitt í neinu. Og ég hugsa að við hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir séum duglegri við að lesa ársskýrslur bankanna en þeir eru. (Gripið fram í: Heyr.) Og ég vil benda á að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir hefur flutt till. og fengið þær samþykktar hér á hinu háa Alþingi um að bönkunum yrði gert að gefa upp risnukostnað, bílakostnað og annað slíkt í ársskýrslum sínum.

Ég biðst afsökunar, herra forseti. — Ég vil minna þingheim á að einu sinni þegar ég sagði honum það í fréttum, þrátt fyrir ársskýrslu Seðlabankans, að til væri heilt stórhýsi uppi í Einholti fyrir dýrasta bókasafn í landinu, þá voru tíu þm. sem vissu að það var til. Það stendur nefnilega ekkert um það í ársskýrslu Seðlabankans eða stóð ekki þá, og það stendur ekki mikið um það enn þann dag í dag. Við Jóhanna Sigurðardóttir kunnum bæði að telja og lesa, það ætla ég bara að segja þeim háa herra, hv. þm. Garðari Sigurðssyni, og við lesum harla vel ársskýrslur bankanna. En um þetta, sem hér er verið að spyrja um, stendur nákvæmlega ekki neitt og bankaráðsmenn vita ekkert um það heldur. (Forseti hringir.) Þeir eru nefnilega ekki byrjaðir að kynna sér bankamál eins og hv. þm. Garðar Sigurðsson sagði áðan.