26.02.1985
Sameinað þing: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3214 í B-deild Alþingistíðinda. (2689)

260. mál, útlán banka og sparisjóða

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það er ekki möguleiki á að ræða þessi mál í fyrirspurnatíma, en ég held að menn ættu að halda sinni stillingu hér þó að þeir hafi kannske kynnt sér mjög vel bankamál og telji sig þess umkomna að geta rætt um það við hvern sem er.

Bankaráðin eiga fyrst og fremst að fylgjast með bönkunum. Ef þau gera það ekki standa þau auðvitað ekki í stykkinu. Þeir sem tala um bankaleynd og vilja breyta henni ættu þá að gera tillögur um breytingu á þeirri löggjöf sem þeir hafa sjálfir staðið að að samþykkja á hv. Alþingi. Það er það sem þeir þurfa að gera. Það þýðir ekki að skamma bankana fyrir bankaleynd ef þeir fara eftir þeim lögum sem gilda í þessu landi og Alþingi hefur sett.

Það gefst tími til þess að ræða þessi mál á næstunni og þá erum við sjálfsagt tilbúin að gera það, en ég vil endurtaka að bankaráðin eiga fyrst og fremst að fylgjast með bönkunum, með bankastjórunum, með starfseminni. Það er ýmislegt sem bankaráðsmenn geta upplýst á Alþingi en annað ekki, miðað við þá löggjöf sem bankarnir starfa eftir. Nú skora ég á þá sem hafa hæst haft í þessum umr. að lesa lögin um bankana og tala svo.