26.02.1985
Sameinað þing: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3214 í B-deild Alþingistíðinda. (2690)

260. mál, útlán banka og sparisjóða

Fyrirspyrjandi (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Aðeins örstutt. Mér finnst hæstv. viðskrh. í svörum sínum færast undan að svara því sem ég spurði hann um. Spurningarnar voru mjög einfaldar. Ég spurði hann um afstöðu hans til fsp. sem hér liggur fyrir, hvort honum fyndist að hún væri þess eðlis að bankarnir gætu skotið sér á bak við bankaleynd í því máli. Hæstv. viðskrh. ræddi almennt um bankaleynd en ég var að spyrja hæstv. ráðh. um afstöðu til þessarar ákveðnu fsp. Eins lagði ég fyrir hann þá spurningu hvort hann mundi styðja að t.d. yrði sett ákvæði í bankalöggjöfina sem tryggði að bankar láni ekki einum viðskiptamanni eða einu fyrirtæki óhæfilega mikið fjármagn, t.d. miðað við eiginfjárstöðu bankans. Þetta eru mjög einfaldar og skýrar spurningar og ég vænti þess að hæstv. ráðh. geti svarað þessum spurningum.