26.02.1985
Sameinað þing: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3216 í B-deild Alþingistíðinda. (2693)

277. mál, afurðalán í sjávarútvegi

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Vegna fsp. hv. 4. þm. Vesturl. óskaði viðskrn. skýringar Seðlabankans á þeim drætti sem varð á veitingu afurðalána til sjávarútvegs í síðasta mánuði. Eins og réttilega kom fram hjá hv. þm. kom þetta mál hér til umr. utan dagskrár í lok janúarmánaðar.

Í svari Seðlabankans kom fram að við útreikning lána út á afurðir styðst bankinn við upplýsingar í verðskrám frá söluaðilum eða útflutningssamtökum framleiðenda um skilaverð til framleiðenda. Verðskrár þessar gilda ákveðinn tíma í senn. Verðskrár yfir skilaverð fyrir afurðir sem framleiddar eru á þessu ári tóku ekki að berast lánadeild Seðlabankans, eftir því sem fram kom í þeirra bréfi, fyrr en 18. janúar og næstu daga þar á eftir. Þá gat lánadeildin fyrst hafist handa um útreikning og úrvinnslu skránna og aflað nauðsynlegra viðbótarupplýsinga. Þetta starf tekur óhjákvæmilega nokkra daga eins og þar er skýrt frá. Var því ekki unnt að dómi Seðlabankans að senda innlánsstofnunum hina nýju verðskrá fyrr en 30. f. m., eins og fram kom hér hjá fyrirspyrjanda. Eru þessar tafir ástæða þess að ekki reyndist unnt að veita afurðalán vegna sjávarafurða á þessu tímabili eins og greinir í fsp.

Í svari Seðlabankans segir enn fremur að þess misskilnings hafi orðið vart að Seðlabankinn hafi neitað innlánsstofnunum um lánafyrirgreiðslu út á sjávarafurðir framleiddar eftir áramót. Hið rétta er, segir í bréfi Seðlabankans, að lán hafi verið veitt út á 2/3 hluta allra veðsetninga sem honum bárust frá innlánsstofnunum í janúar að skreið undanskilinni. Ég er hins vegar sammála fyrirspyrjanda, eins og fram kom hér í ræðu þegar málið var fyrr til umr., að auðvitað er slíkur dráttur sem hér er orðinn mjög óþægilegur og ber að gera allt sem unnt er til að koma í veg fyrir slíkt.