26.02.1985
Sameinað þing: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3216 í B-deild Alþingistíðinda. (2694)

277. mál, afurðalán í sjávarútvegi

Fyrirspyrjandi (Skúli Alexandersson):

Herra forseti. Ég þakka hæstv. viðskrh. svör hans þó að ég efi — ég hef nú ekki sterkari orð um það en að ég segi að ég efast um að það séu rök fyrir því að halda viðskiptum lokuðum í heilan mánuð vegna þess að það eigi eftir að reikna út viðmiðunarverð á afurðum. Viðmiðunarverð er að breytast allan ársins hring og ef slík stöðvun ætti að eiga sér stað í hvert skipti sem viðmiðunarverð breytist, þá væri lítið um það að Seðlabankinn hefði möguleika til að afgreiða þessi lán sem fara í gegnum hann til viðskiptabankanna. Og það er af og frá að viðmiðunarverðin öll hafi verið að breytast á þessu tímabili. Ég geri frekar ráð fyrir því að á þessu tímabili eða um áramótin síðustu hafi engin viðmiðunarverð breyst eða þá bara mjög lítið. Það urðu engar gengissveiflur á þessu tímabili og þar af leiðandi ekki líklegt að viðmiðunarverð framleiðsluvaranna hafi í neinu breyst.

Hitt er það að það voru áramót og þessi blessuð áramót virðast geta truflað bankaerfið ótrúlega mikið bæði á undan og eftir. En ég vil sem sagt mótmæla slíkum vinnubrögðum og jafnvel þó að um það tímabil ársins sé að ræða þegar verið er að gera upp einhverja sérstaka reikninga bankanna. Og ég vil undirstrika það að ég efa að þessi skýring Seðlabankans, að beðið hafi verið eftir viðmiðunarverðum frá framleiðslufyrirtækjunum eða útflutningsfyrirtækjunum, hafi við rök að styðjast og að þessi frestur á afgreiðslu afurðalána hafi orðið vegna þess. Mér þykir trúlegra að það hafi verið einhverjir aðrir hlutir í kerfinu sem urðu þess valdandi að dráttur varð á afgreiðslu lánanna.