26.02.1985
Sameinað þing: 53. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3217 í B-deild Alþingistíðinda. (2695)

306. mál, samvinnufélög og samvinnusambönd

Fyrirspyrjandi (Eyjólfur Konráð Jónsson):

Herra forseti. Á þingi 1977 og 1978 var mikið unnið að setningu nýrra laga um hlutafélög. Það var nokkuð langur aðdragandi að undirbúningi þeirrar löggjafar, þar sem m.a. starfaði samstarfsnefnd Norðurlanda um samræmingu hlutafélagalöggjafar þessara landa, en einnig höfð hliðsjón af bandarískum rétti. Þingnefndir störfuðu þennan vetur mjög mikið að þessari löggjöf og hygg ég að fluttar hafi verið einar 70 brtt., en um það er lauk urðu allir flokkar og allir þm. raunar sammála um þá löggjöf. Ég held að hún sé hin merkasta löggjöf. Hefur kannske ekki enn mikið á hana reynt því að við höfum ekki mjög mikið af almenningshlutafélögum, af almenningsþátttöku í rekstri atvinnufyrirtækja, en þeir sem að löggjöfinni unnu lögðu auðvitað megináherslu á að reyna að tryggja rétt þess fólks sem vildi reyna að leggja hluti í atvinnurekstur í landinu, án þess að fara þar með meirihlutavald eða einhver sérréttindi, heldur einungis að ávaxta sitt fé, að réttur þess fólks yrði tryggður og eru mörg nýmæli í lögunum um þetta efni.

Stofn gömlu hlutafélagalaganna er frá fyrstu áratugum aldarinnar og svo er einnig um samvinnufélagalögin. Það voru merkilegir hlutir sem gerðust í upphafi þessarar aldar þegar Íslendingar voru að brjótast frá örbirgð til bjargálna, ekki síst fyrir tilstuðlan samtaka manna bæði í samvinnufélögum og hlutafélögum, og það var furðulega frjálsleg og góð löggjöf sem studdi þessa starfrækslu á þeim tíma og uppbyggingu atvinnulífsins. En því miður sótti í það farið að áhrif almennings minnkuðu í þeim félagasamtökum, bæði hlutafélögum og samvinnufélögum, og löggjöfin staðnaði, þoldi ekki tímans rás, fór jafnvel aftur á bak og gerði hlut alþýðu lakari í þessum félögum en verið hafði á fyrstu áratugum aldarinnar. Þessu var sem sagt breytt í löggjöf um hlutafélög, með lögum nr. 32 frá 1978, og í framhaldi af því komu upp raddir um það að einnig þyrfti að breyta lögum um samvinnufélög og samvinnusambönd með hliðsjón af þessari nýju löggjöf og taka upp í þau lög, samvinnufélagalögin, ýmis þau ákvæði sem samstaða náðist um á Alþingi varðandi hlutafélögin, þar á meðal t.d. hlutfallskosningar og tryggingu þess að félagar í samtökunum hefðu raunveruleg áhrif á stjórn þeirra, gagnstætt því sem reynslan hefur því miður orðið, hverju sem um má kenna.

Það var samþykkt hér á þingi í maímánuði 1980, nánar tiltekið 29. maí, tillaga um endurskoðun á samvinnufélagalöggjöfinni. Nú eru senn fimm ár liðin síðan sú tillaga var samþykkt og allmiklu lengra frá því að hún var flutt. Ég var einmitt flm. að henni. Hún var sem sagt samþykkt í lok þingsins 1980. Enn bólar ekkert á þessari nýju löggjöf eða frv. að henni og þess vegna er tímabært að fá svör við því hvað þessari endurskoðun líði. Veit ég að hæstv. ráðh. mun svara því hér á eftir. En fsp. er svohljóðandi:

„Hvað líður undirbúningi að nýrri löggjöf um samvinnufélög og samvinnusambönd sem ákveðin var með ályktun Alþingis 29. maí 1980?“