26.02.1985
Sameinað þing: 54. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 3233 í B-deild Alþingistíðinda. (2716)

251. mál, fullvinnsla sjávarafla

Gunnar G. Schram:

Herra forseti. Ég vildi fara nokkrum orðum um þá þáltill. sem hér er til umr. á þskj. 429, um fullvinnslu sjávarafla. Að mínu mati er hér um að ræða eitt athyglisverðasta þingmálið sem fram hefur komið á þessu þingi og hér hefur verið flutt stórfróðleg og að mörgu leyti mjög merkileg framsöguræða af hálfu flm. Guðmundar J. Guðmundssonar um þetta mál. Flest af því sem hann sagði voru orð í tíma töluð. Við stöndum frammi fyrir þeirri staðreynd, sem fiskifræðingar hafa svo þráfaldlega bent okkur á á liðnum misserum og árum, að sjávaraflinn er takmarkaður og ekki horfur á að hann verði aukinn í bili. Þess vegna er það vitanlega meginmálið að gera meiri verðmæti úr þessum takmarkaða sjávarafla en við gerum í dag.

Flm. benti á að ugglaust mætti á fimm ára tímabili auka verðmæti sjávaraflans um þriðjung. Það er ávallt erfitt að spá um þróun mála í framtíðinni en ég hygg að hér hafi hann ekki gerst um of bjartsýnn. Þetta þýðir, miðað við aflaverðmæti í dag, um 5 milljarða kr. verðmætaaukningu sem mundi renna til starfsfólks í sjávarútvegi, til eigenda framleiðslutækjanna, til þjóðarbúsins alls. Jafnvel þó að hér væri aðeins um 10% verðmætaaukningu að ræða þá er það 1.5 milljarður og sjá allir hver búbót sú er þó ekki sé um hærri upphæð að ræða.

Þegar menn velta þessum málum fyrir sér þá er eðlilegt að staðnæmst sé við þær aðgerðir og þær ráðstafanir sem gerðar hafa verið í fiskvinnslu og fiskiðnaði nágrannaþjóðanna. Oft áður hefur verið minnst á markaðsöflun og markaðssetningu grásleppuhrogna í mynd miklum mun dýrari kavíars, bæði í glösum og túpum, svo aðeins eitt dæmi sé tekið. Fjölmörg önnur dæmi hafa hér verið tíunduð í dag sem ég er ekki að rekja hér sérstaklega.

Það er alveg ljóst að við Íslendingar erum langt á eftir nágrannaþjóðunum, fiskveiðiþjóðum Evrópu, í þessum efnum. Við erum enn að vissu leyti á nýlendustiginu að því er varðar fullvinnslu sjávarafurða. Við erum hin dæmigerða hráefnisöflunarþjóð sem enn hefur ekki nema að tiltölulega takmörkuðu leyti, þó að miklar framfarir hafi að vísu orðið á síðustu árum, farið út á þá braut að fullvinna, auka verðmæti þessara hráefna í þeim mikla mæli sem það er unnt að gera. Það liggur hins vegar í augum uppi þegar við tölum um aukinn hagvöxt, þegar við tölum um erfiðleika í sjávarútvegi, þegar við tölum um rýrnandi þjóðartekjur, svo sem á síðustu þremur árum, að hér er einmitt að finna lykilinn að breyttu ástandi í þessum efnum, hagsæld sem unnt er að ná fram ef rétt er að málum staðið. Þess vegna er vissulega ástæða til að gefa þessu máli aukinn gaum innan þings og utan, beina athyglinni í mjög vaxandi mæli að því hvernig unnt er að ná þar fram verðmætaaukningu og verðmætasköpun sem í sumum greinum sjávarútvegs og iðnaðar getur verið margföld miðað við það sem er í dag.

Við heyrðum nýlega getið um það í sjónvarpsfréttum að tilraunavinnsla væri hafin á Hellissandi á því sem á erlendu máli er nefnt Surimi. Við höfðum einnig í þessum sama fréttamiðli séð nokkrum mánuðum fyrr verksmiðju sem er risin í Færeyjum í samvinnu við japanska aðila til framleiðslu á þessari afurð. Hér er um það að ræða að úr þeim fiskitegundum sem verðminnstar eru, eins og ufsi, kolmunni og spærlingur, er unnin afurð, þ.e. fiskmarningur, fiskfars, fiskþykkni eða hvað sem menn vilja kalla það, sem síðan eru búnar til úr eftirlíkingar af mjög verðmiklum fiskafurðum eins og humar og rækju. Geysilega stór markaður hefur á síðustu árum skapast fyrir Surimi í Bandaríkjunum. Grunnhráefnið er að mestu leyti flutt inn frá Japan og síðan er það fullunnið í Bandaríkjunum. Hér er um verulega verðmætaaukningu á mjög ódýrum fiskitegundum og að vissu leyti vannýttum að ræða. Það var tímabær framsýni hjá framkvæmdastjóra Sölumiðstöðvarinnar í Bandaríkjunum að hefja könnun á því hvort Íslendingar, íslenskur fiskiðnaður ætti hér ekki mikla framtíðarmöguleika. Hér er eitt dæmi um afurð sem eykur mjög verðmæti þeirra fiskitegunda sem verðminnstar hafa verið og er fyllilega ástæða til að gefa gaum. Er ánægjulegt að tilraunastarfsemi er u.þ.b. að hefjast í þessu efni. Slík vinnsla er einnig í bígerð í Sandgerði.

Hv. frsm., 7. þm. Reykv. Guðmundur J. Guðmundsson, nefndi hér fjölmörg dæmi máli sínu til stuðnings, dæmi um það hve nágrannaþjóðirnar hafa aukið verðmæti fiskafla verulega þar sem við stöndum enn ef svo mætti segja á frumstigi. Mig langar til að bæta örfáum dæmum við um möguleika á mjög mikilli verðmætaaukningu íslensks sjávarafla.

Upplýsingar um þetta komu m.a. fram á ráðstefnu Rannsóknaráðs ríkisins sem haldin var hér í desember s.l. í erindi sem þar var flutt af Steinari Berg Björnssyni forstjóra Lýsis hf. Hann tók m.a. dæmi af íslenska þorskalýsinu. Þorskalýsisframleiðslan árið 1983 var 2853 tonn. Ef lýsið er selt óhreinsað er verðmætið í Bandaríkjadollurum 1 millj. 711 þús. Ef lýsið hins vegar er seli sem svokallað EPA DHA þykkni og 20% af magninu nýtist við þá vinnsluaðferð er verðmætið 9 millj. 129 þús. dollarar. Hér er um fimmföldun að ræða.

Ef við lítum á verðmæti óunnins lýsis í dag þá er tonnið af lýsi selt úr landi fyrir 600 dollara fob. Ef við flytjum út lýsi fullunnið í tunnum þá eykst verðmætið í 1028 dollara tonnið. Ef þetta sama lýsi fullunnið er sett á flöskur í neytendaumbúðir svonefndar, sem þekktar eru hér úr matvöruverslunum og lyfjabúðum, hefur verðmæti þessa tonns vaxið úr 600 dollurum, sem var grunntalan, í 3450 dollara. Ef þetta sama lýsi er síðan sett í perlur, lýsisperlur svonefndar, er verðmæti þess sama tonns komið í 18 820 dollara. Ef lýsinu er síðan umbreytt í hið síðasta stig, sem að vísu er enn í tilraunavinnslu, hið svokallaða EPA fitusýruþykkni, þá er verðmæti þessa eina tonns 160 þús. dollarar. Þessar tölur tala sínu eigin máli. Ég þarf ekki að leggja sérstaklega út af þeim.

Annað dæmi er fiskimjölið. Fiskimjöl er til margra hluta nytsamlegt og skal ég ekki tíunda alla notkun þess. M.a. er unnt að framleiða úr því vítamíntöflur fyrir gæludýr og önnur slík dýr, en sem kunnugt er er mikill markaður fyrir slíkt fóður erlendis. Raunar mun það einnig vera hérlendis þar sem inn mun vera flutt árlega á fjórða hundrað tonna af slíkum mat. En ef við lítum á fiskimjölið í þessu sambandi þá eru framleiddar úr því í Bandaríkjunum vítamíntöflur. Ef við tökum dæmi um 160 tonn af fiskimjöli, sem er dæmigerð framleiðsla einnar verksmiðju þar í landi, þá er verðmæti þessara 160 tonna af venjulegu fiskimjöli 67 200 dollarar. Ef búið er að fitudraga fiskimjölið, sem er nú ekki miklum vandkvæðum bundið, þá eykst verðmætið upp í 352 þús. dollara. Framleiðslukostnaður á vítamíntöflunum úr þessu fitudregna fiskimjöli er rúmlega 700 þús. dollarar. Samtals er þetta rúmlega 1 millj. dollara sem þarna er um að ræða í kostnaði en söluverðmæti þessa fiskimjöls, þessara 160 tonna, í Bandaríkjunum er 10 millj. dollara.

Ef við lítum á þetta sama dæmi þá er lestin af fiskimjöli seld í dag á 420 dollara. Verðmætaaukningin við að fitudraga þetta fiskimjöl er slík að þetta sama tonn er selt á 2200 dollara. Miðað við vítamíntöflur, sem mikill markaður er fyrir vestra, leggur tonnið sig þar á 62 500 dollara. Ég nefni aðeins þessi tvö dæmi en þau eru ýmis fleiri, m.a. nýting á beinhákarlslifur og ýmis fleiri dæmi mætti hér nefna. Ég vildi bæta þessum dæmum við þann langa lista sem frsm. fór hér með og benti réttilega á að með slíkum aðgerðum má margfalda verðmæti ýmissa, ekki allra, íslenskra sjávarafurða sem nú eru seldar nánast á hráefnisstigi eins og grásleppuhrognin.

En vitanlega þarf hér framtak til og það sem þarf fyrst og fremst til að byggja upp iðnað til verðmætasköpunar úr sjávaraflanum er fjármagn til slíkrar starfsemi. En ekki aðeins það heldur einnig til rannsókna. Það var réttilega á það bent að við erum nánast lægstir allra Evrópuríkja hvað varðar framlag okkar til rannsókna, ekki aðeins í fiskiðnaði heldur á öðrum sviðum, þó að úr verði bætt á þessu þingi þegar 50 millj. kr. verður varið úr væntanlegum þróunarsjóði. En það er ekki síður markaðsleitin sem hér er mikilvæg. Þar stöndum við enn langt að baki nágrannaþjóðum okkar.

Þetta er tvímælalaust ein langáhrifamesta leiðin til þess að efla íslenskt atvinnulíf í framtíðinni, auka gjaldeyristekjur og bæta afkomu allra þeirra sem við þennan mikilvæga atvinnuveg starfa og raunar þjóðarbúsins í heild, jafnframt því sem viðskiptahallanum margnefnda yrði þá eytt. Hér höfum við tækifærin, við höfum hráefnið, hver íslenskur sjómaður dregur eins og alkunna er margfalt aflamagn á land miðað við sjómenn annarra þjóða, jafnvel fjórfalt á borð við Norðmenn sem þó munu koma okkur næstir. En hér skortir einfaldlega það á, sem þessi þáltill. fjallar um, að margfalda verðmæti þeirra tonna sem á land koma.